Kræsilegt umræðuefni, ég veit. Við skulum samt aðeins fara þangað.
Ég er ekki með svitaholur. Ég er með svitagíga. Sérstaklega í kringum nefið. Á slæmum dögum minnir þetta einna helst á einhverja gígaþyrpingu við Mývatn. Eða bara jarðvegsskemmdir. Eftir utanvegaakstur. Allt holað og farið til helvítis. Fólk á örugglega stundum í erfiðleikum með að átta sig á hvað eru nasir og hvað eru svitaholur þegar það horfir framan í mig.
Er ég að ýkja?
Já.
Það borgar sig alltaf að deila með tveimur í allar mínar lýsingar. Það segir mamma mín. Ég er mjög hástemmd. Og á það til að ýkja þegar ég er að lýsa einhverju. Bara örlítið. Allar frásagnir þurfa krydd. Dálítið bragð.
Engu að síður. Ég er með stórar svitaholur.
Ég keypti þennan andlitsskrúbb um daginn. Þegar ég og afkvæmið fórum til Ameríku. Eins og hann kallar það. Okkar Ameríka er í Kópavogi. Verslunin Kostur nánar tiltekið. Við förum reglulega þangað. Til þess að kaupa skrýtið gos. Og allskonar Jello.
Ég nota þennan skrúbb í sturtunni. Á hverjum degi. Bara laust. Blíðar strokur. Og ég sé ótrúlegan mun á jarðvegsskemmdunum. Gígunum mínum.
Ég hef prófað ýmislegt í þessari útrýmingarherferð minni gegn svitaholum. Fátt sem hefur borið sýnilegan árangur. Tjah, þegar ég segi ýmislegt þá meina ég að sjálfsögðu fullt af ódýru drasli. Það er einfaldlega minn stíll. Ég hef óbilandi trú á því ódýra.
Góður skrúbbur. Virkilega góður. Ódýr líka. Auðvitað. Fæst í Kosti.
Sullenberger sendi mér vöruna ekki sem sýnishorn. Ég borgaði fyrir hana með einum beinhörðum Brynjólfi. Og einhverjum fjórum tíköllum. Að mig minnir.
Heyrumst.
TAKK - nú ætla ég í Kost svo ég geti prófað, ég hélt ég væri sú eina sem væri með svitagíga í andlitinu. Agalega fancy primerar laga þetta smá en ekki nóg fyrir mig, krossa putta!
ReplyDelete-Sæunn