Nov 4, 2013

Pabbabrauð.


Ég ætla að kynna ykkur fyrir besta og einfaldasta brauði í heimi. Ég kalla það pabbabrauð af því þetta brauð hefur pabbi minn galdrað ítrekað fram úr erminni síðan ég var krakki. Bara ilmurinn af þessu brauði flytur mig aftur heim í Bleiksárhlíðina þar sem ég sit og drekk kakó, gæði mér á brauði og hlusta á pabba segja verulega slaka brandara. Sem ég hlæ alltaf að. Af því að mér finnst pabbi ógeðslega fyndinn. 

Ég og systir mín sátum svangar við lærdóm áðan þegar okkur varð hugsað til þessa ágæta brauðs. Bækurnar voru ekki lengi að fjúka ofan í tösku og við út í Yaris og beinustu leið í Ikea. Bara til þess að kaupa brauðform sko. Ekkert fleira. Jú eina pönnu. En hún var nauðsyn. Já ókei, ég fékk mér sushi líka. 

En að brauðinu.

Pabbabrauð.

3 og 1/2 bolli hveiti
3 bollar af heilhveiti
2 matskeiðar sykur
5 teskeiðar lyftiduft
1 teskeið salt
700 ml volg mjólk

Þessu er öllu hrært saman og skipt í tvö form. Brauðin fara inn í kaldan ofn á 200° í 30 mínútur. Síðan er slökkt á ofninum og brauðin látin dvelja í honum í sirka 20 mínútur í viðbót. 





Guðdómlega gott með smjöri og osti. Alveg guðdómlega! 

Ég ætla ekki að segja ykkur hversu margar sneiðar eru í bumbunni á mér núna.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment