Jæja. Hæ. Og gleðilegt ár.
Ah, árið 2015 já. Árið 2015 var ekki stórfenglegt. Svona blogglega séð. Það verður að segjast eins og er. Að öðru leyti fór árið mig nokkuð blíðum höndum. Það var þó fremur tíðindalaust. Viðburðarsnautt með meiru. Sem pirrar mig smávægilega. Ef ég hugsa til baka.
Ég hefði vel getað áorkað meiru. Miklu meiru. Ég held að ég hafi einfaldlega farið inn í árið 2015 með sprungið á öllum. Öllum fjórum. Seinni hluti ársins 2014 var svolítið strembinn. Meistaritgerð. Bók. Éta allt sem ég eldaði fyrir bókina. Jólabókaflóðið. Og allt helvítis havaríið sem því fylgdi.
Þetta var svolítið stór sneið. Þó ég fái mér yfirleitt stærstu sneiðina. Af öllu matarkyns sko.
Eðlilegast hefði sennilega verið að liggja eina helgi í bælinu. Ná upp þreki. Éta Dominos. Dúndra í sig Bingókúlum. Þvælast í gegnum nokkrar misgáfulegar þáttaraðir. En nei. Ekki ég.
Mér dugði ekki ein helgi. Ég eyddi heilu ári í að liggja í bælinu. Éta Domonos. Dúndra í mig Bingókúlum. Og þvælast í gegnum misgáfulegar þáttaraðir. Enda er ég búin að sjá hverja einustu þáttarröð sem framleidd hefur verið síðan snemma á níunda áratugnum. Sendillinn frá Dominos heilsar mér í Bónus. Og Helgi í Góu fer mögulega að birtast hérna á biðilsbuxunum.
Ókei, örlitlar ýkjur. Ég fór úr bælinu. Svona annað veifið. Mætti til vinnu. Drakk rauðvín, bæði í bæli og sófa. Skutlaði afkvæminu reglulega í skólann. Fór til útlanda. Þar sem ég var mest megnis í láréttri stöðu. Nema þegar ég lyfti höfði til þess að súpa. Af rauðvíni já. Og írskum kaffidrykkjum.
Æh, svo átti ég líka ótal stórkostlegar gæðastundir með fjölskyldunni minni.
Þetta var fínt ár. Rólegt. Svolítið litað leti. Whatever.
Ég flutti tvisvar. Og mér hefur aldrei fundist ég eins mikið heima og hérna í fallegu íbúðinni sem okkur áskotnaðist í Laugardalnum. Við eigum vissulega ekkert í henni. Ekki rassgat. En hún er samt heima. Svo dásamlega mikið heima. Ehm, eiginlega svo mikið heima að ég fer helst ekki út á meðal fólks. En það er önnur saga.
Ó, ég fékk svo fallegar jólagjafir. Í mínum uppáhalds litum. Sem var eins gott. Þoli ekki að fá ljótar jólagjafir. Svo ég tali nú ekki um ódýrar. Oj bara.
Djók.
Þessi mynd er uppstillt. Mér finnst mjög lekker að vera áskrifandi af Gestgjafanum.
Les ég hann?
Látum það liggja á milli hluta.
Ég er að vinna í markmiðslista ársins 2016. Þau markmið verða háleit. Andskotinn hafi það. Bloggið hefur þegar verið punktað niður. Því skal viðhaldið. Á mannsæmandi hátt.
Ég ákvað líka á nýársdag að drekka ekki í janúar. Ég slaufaði því markmiði daginn eftir.
Sumt á einfaldlega ekki að rætast.
Þið finnið mig á Snapchat & Instagram - gveiga85.
Heyrumst fljótlega.
Þú ert svo dásamlegur penni. Alltaf gaman að kíkja í heimsókn. Virkilega fallegt heima hjá þér. Elska svona heima pósta :-)
ReplyDeleteÞú ert svo skemmtileg. Eigðu frábært ár. 😀
ReplyDeleteÞú ert svo skemmtileg. Eigðu frábært ár. 😀
ReplyDeleteDásamlegur penni. Eigðu gott ár ��
ReplyDelete