Aug 9, 2015

Guðrún Veiga verslar á netinu


Sem er ekkert nýtt. Nema núna gerði ég svo skratti góð kaup. Eða já. Ég geri samt alltaf góð kaup. Þessi komast þó í topp tíu. Fá tólf stig. 

Um daginn var ég að fróa sálinni yfir umræðum á Barnalandi. Eða Bland.is eins vefurinn heitir víst. Ég slysaðist þangað inn. Eftir að hafa gúgglað sjálfa mig. Eins og maður gerir. Áður en ég vissi af var ég farin að skoða smáauglýsingar. Sem ég hefði sennilega ekki átt að gera. Af því ég er búin að vera að íhuga að flytja til Njarðvíkur allar götur síðan.

Já. Ég fann einbýlishús til leigu. Með sólpalli. Og amerískum ísskáp. Og leiguverðið var það sama og á eldgömlu greni sem ég skoðaði hérna í miðbænum fyrir stuttu. Búsetu okkar hérna á Gunnars lýkur þann 1.desember. Vissara að hafa allar klær úti strax. 

Ömurlegur árstími til þess að flytja. Desember. Ég sem byrja alltaf að skreyta í október. Jólaskreyta. Jæja, ég verð þá bara að gera það tvisvar í ár. Að vísu skreyti ég yfirleitt oftar en einu sinni. Jólaskrautið er nefnilega svo lengi uppi að ég verð leið á því. Þannig að ég skipti stundum um liti og svona. Eitt árið skreytti ég jólatréð fjórum sinnum. Verslaði óteljandi bílfarma af jólakúlum. Í öllum regnbogans litum. Sambýlismaðurinn henti mér næstum út. 

Já, ég var að fara að tala um reyfarakaupin sem ég gerði á Bland.is. Alveg rétt.


Ég keypti fjórar Iittala skálar. Sem eiga að heita notaðar. En eru alveg eins og nýjar. Hvað borgaði ég? Ég borgaði þrettán þúsundkalla. Og alveg spriklandi sátt með það. 


Ókei. Mögulega er þetta ekkert móðins lengur. Hvað veit ég. Kannski eru þessar skálar bara á pari við öskubakka í dag. Nah, varla. Og þó, nýjasta eintak mitt af Húsum og híbýlum er síðan 2008. Svo á ég nokkur síðan á tíunda áratugnum. Sem ég verslaði í Góða hirðinum. Bara af því að mig langaði að eiga svona töff bunka af tímaritum. Og ég tímdi ekki að splæsa í ný.

Ég hef alltaf verið svolítið sein að öllu. Alltaf síðust í mark. Alltaf kosin síðust í liðið. Alltaf síðust að rífa upp veskið og kaupa það sem þykir kúl hverju sinni. 

Gildir einu. Þær eru fallegar. Og ég hífandi hamingjusöm með kaupin. 

Ef þú ert að lesa þetta kæri sambýlismaður. Einhversstaðar við strendur Rússlands eða hvar sem þú ert. Ekki froðufella. Þetta voru góð kaup. Eiginlega fjórar skálar á verði tveggja. Hah, eins og að vinna í lottói. 10 þúsundkall. Þú veist, ef við námundum. 

Jæja. Nóg í bili.

Þið finnið mig bæði á Instagram & Snapchat - gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment