Í dag lenti ég í afar vandræðalegri uppákomu. Ó, hún var vandræðaleg. Svo ógeðslega vandræðaleg. Sviti á bakinu. Saur í brók. Óbragð í munni. Tár á
hvarmi. Þið skiljið sneiðina.
Ég sótti afkvæmið í skólann. Við komum hérna heim. Vorum að
rusla okkur út úr bílnum þegar ég sé glitta í eitthvað á girðingunni við
bílastæðið. Girðingunni hjá nágrönnunum. Sem ég hef ósjaldan brúkað í
myndatökur. Í fullkomnu leyfisleysi.
Girðingin. Sem ég á ekkert í.
Fáeinar myndatökur hafa farið fram í bílastæðinu undanfarið.
Af því að enginn í mínu húsi virðist eiga slátturvél. Og ekki tími ég að kaupa
slíkan búnað. Þannig að garðurinn er í órækt. Og er ógeð. Hvernig sem á það er
litið. Svo að bílastæðið hefur verið fýsilegasti kosturinn. Ókei, svo er þessi
girðing bara hrikalega lekker. Og garðurinn allur. Alveg eins og úr bandarískri
bíómynd.
Gott og vel. Við göngum að húsinu og ég rýni í þetta sem
hangir á girðingunni. Sem reynast vera skilaboð til mín.
Ég fékk taugaáfall. Hypjaði mig inn í flýti svo enginn sæi
viðrinið. Helvítis bloggarann. Sem
notar garða í leyfisleysi og níðist á börnum á netinu. Ég gekk upp stigann og
byrjaði að skipuleggja brottflutning af Gunnarsbraut. Strax á morgun. Eða allra
helst í kvöld. Í skjóli myrkurs. Nú og ef ég fyndi enga íbúð í snatri þá færi
ég heim. Alla leið til mömmu og pabba. Þar sem ég gæti farið huldu höfði. Færi
að vinna í fiski hjá pabba. Og enginn kæmist að glæpunum sem ég hefði framið á
Gunnarsbrautinni.
Ég ætlaði að byrja á því að hringja í sambýlismanninn.
Lengst út á haf. Og segja honum frá vonda fólkinu í næsta húsi. Svo ætlaði ég
að hringja í mömmu. Grenja og boða komu mína. Svo ætlaði ég að hætta að blogga.
Henda því. Eyða öllum ummerkjum um að ég hefði nokkurn tímann komist á
internetið.
Ég staldraði aðeins við. Hugsaði málið. Nú hafði ég loksins
gengið of langt. Sært einhvern. Misboðið einhverjum. Hvað átti ég til bragðs að
taka? Líf mitt orðið rjúkandi rúst á einu augnabliki. Þið vitið, kalt mat. Sem var svolítið brenglað á þessum tímapunkti.
Ókei. Ég lagði aðeins á ráðin. Fyrst afsökunarbeiðni. Svo myndi ég að pakka niður. Nei, fyrst þyrfti ég að taka til á blogginu. Eyða því út
þegar ég talaði um að krakkarnir í næsta húsi hefðu verið að glápa á einhverja
myndatökuna. Og ég hefði ullað á þau. Done and done. Svo var það afsökunarbeiðnin.
Ó, hún var auðmjúk. Og einlæg. Í gegnum Feisbúkk, auðvitað.
Ég baðst afsökunar á því hafa brúkað garðinn í fullkomnu leyfisleysi. Lofaði að
leggja aldrei svo mikið sem fingur á girðinguna aftur. Játaði á mig að vera
alltaf með kaldhæðnina að vopni og vita stundum ekki hvenær ætti að stoppa. Sagðist
miður mín yfir því að hafa sært börnin og ummæli mín hefðu vissulega ekki átt
að vera niðrandi.
Ýtti á send. Skoðaði leiguvef Morgunblaðsins á meðan ég beið
í von og óvon. Kæmi einhver yfir til þess að klára þetta? Kýla mig. Kyrkja mig.
Kála mér með öllu. Ég yrði ekki lengur kölluð bloggari. Heldur barnahatari og
böðull. Þúsund hugsanir sóttu á mig.
Þarna var ég búin að
blanda öðrum nágranna mínum í málið. Sem reyndi að stemma stigu við geðshræringu
minni. Með litlum árangri.
Jæja, síminn pípar. Skilaboð frá fólkinu sem vildi mig
feiga. (Að ég hélt).
,,Æ, krakkarnir ákváðu bara að skrattast aðeins í þér.“
Einmitt. Allt í plati. Og ég búin að deyja tólf dauðdögum á örfáum mínútum.
Elskulegir nágrannar mínir (sem ég þekkti nota bene ekkert fyrr en í dag) ákváðu að fokka aðeins í mér. Allt til gamans gert. Ég stal garðinum, girðingunni og gantaðist með krakkana á netinu. Og þau hefndu sín tífalt.
Elskulegir nágrannar mínir (sem ég þekkti nota bene ekkert fyrr en í dag) ákváðu að fokka aðeins í mér. Allt til gamans gert. Ég stal garðinum, girðingunni og gantaðist með krakkana á netinu. Og þau hefndu sín tífalt.
Gott á mig! Almáttugur minn. Þetta var grín Guðrún Veiga. Grín.
Ógeðslega gott grín. Sko eftir á að hyggja.
Ég hérna já. Já. Ég á það til að oftúlka hlutina aðeins.
Mála dálítið marga skratta á vegginn.
Þegar ég kom til baka úr bæði geðshræringu og fasteignaleit þá hló ég. Á milli þess sem ég kafnaði úr vandræðalegheitum yfir viðbrögðum
mínum.
Elsku börnin færðu mér
svo kökur í sárabætur. Ég átti það nú alveg inni. Enda hársbreidd frá því að
verða útgerðarkona á Eskifirði. Undir öðru nafni en mínu eigin. Það átti
auðvitað að fara í ruslið ásamt blogginu.
Guð á himnum. Ég þarf stundum að taka chillpill. Ef svo má að orði komast.
Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.
Heyrumst.
mér finnst þú ein fyndin kona, og hana nú!
ReplyDeleteHaha kannast við svona viðbrögð :)
ReplyDeleteAnnars er ég sammála fyrsta kommentara :D