Jæja. Við erum flutt. Mögulega hafa átt sér stað tuttugu rifrildi og tólf næstum því sambandsslit undanfarna daga. Give or take. Sennilega hefði komið til ofbeldis á einhverjum tímapunkti - ef sambýlismaðurinn væri ekki svona andskoti seinþreyttur til vandræða.
Síðustu sex dagar hafa verið skrautlegir. Mjög skrautlegir. Guð á himnum. Ég hef ítrekað hótað sambýlismanninum að kveikja í öllum fötunum hans. Og setja klór í kaffið hans. Eitthvað hefur hann líka röflað um að kveikja í hárinu á mér. Og klippa alla kjólana mína.
Á milli innantómra hótana tókst okkur svo að bora í gegnum rafmagnslögn. Og þar af leiðandi gera allar íbúðir í húsinu rafmagnslausar. Á sama tíma rifum við í sundur ljósleiðara. Og þar af leiðandi urðu allar íbúðir í húsinu internet- og sjónvarpslausar.
Æ, við höfum svo sem aldrei verið vinsæl á meðal nágranna okkar. Engin ástæða til þess að byrja á því núna.
Já, svo skreytti ég jólatréð í gærkvöldi. Og þurfti að fela allar ferðatöskur í húsinu í kjölfarið. Annars hefði sambýlismaðurinn látið sig hverfa. Að eilífu.
Hér á okkur eftir að líða vel. Ég finn það á mér.
Íbúðin er dásamlega hlýleg. Og nýleg. Og ég elska hana. Og hitann sem er í eldhúsgólfinu. Almáttugur minn.
Ég fann þessa glæsilegu ávaxtaskál í Ikea um daginn. Ég elska hana líka.
Brot af eldhúsinu. Sem er ekki alveg tilbúið.
Að sjálfsögðu leynist Bingókúlupoki á eldhúsbekknum þegar betur er að gáð.
Að halda spila- og ostakvöld á þriðja degi í flutningum er ekki skynsamlegasta ákvörðun sem við höfum tekið.
Við vorum hvorki búin að kaupa borð né stóla. Þannig að boðið var upp á japanska stemningu og kræsingar á sjónvarpsskenk.
Jæja. Ég má ekki vera að þessu.
Ég er að fara á jólahlaðborð á morgun og á ekki svo mikið sem eina spjör til þess að klæðast. Ekki eina. Ég fékk veður af gulum kjól í F&F. Og það er opið allan sólarhringinn í Skeifunni. Þetta steinliggur. Ég er farin.
Þið finnið mig bæði á Instagram og Snapchat - gveiga85.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment