Nov 24, 2015

Brúðkaup, börn og fasteignaverð

Það er undarleg tilfinning að ranka allt í einu við sér sem rígfullorðin manneskja. Allt í lagi, rígfullorðin eru mögulega svolitlar ýkjur. En þið vitið, ég ýki. Ég á það til.

Ég er þrítug. Ég veit það vel. Ég er það samt ekki. Ekki í hjartanu. Ekki ennþá. Þar er ég rétt tæplega 18 ára. 18 ára ung stúlka sem fær reglulega aðsvif þegar hún hittir aðra 18 ára einstaklinga. Af því hún passaði þessa einstaklinga þegar þau voru lítil. Og núna eru þau á sama skemmtistað og hún. Að drekka bjór. Koma jafnvel svífandi í fangið á kornungri konunni, ,,Hey, ert þú ekki Guðrún Veiga? Þú passaðir mig þegar ég var lítil!“

Taugaáfall. Yfirlið. Dauði. Eða svo gott sem.

Þessu hef ég lent í oftar en einu sinni. Og oftar en tvisvar. Nokkuð fljót að jafna mig þó. Enda ógeðslega góð í að gleyma því sem ég kæri mig ekki um að muna. Sem er einstakur hæfileiki.


Ég hef samt aldrei vaknað eins háöldruð og í gærmorgun. Almáttugur. Við sambýlingarnir fórum á jólahlaðborð á laugardagskvöldið. Sem var gott og blessað. Og vel rauðvínsmarínerað. Sökum aldurs var rauðvínið ennþá að yfirgefa líkama minn í gær. Með tilheyrandi vanlíðan. Og það tæplega tveimur dögum eftir neyslu. Slíkar þjáningar eiga sér ekki stað þegar þú ert að skríða á tvítugsaldurinn.

Uss, þá gastu tekið þriggja (ókei, fjögurra) daga verslunarmannahelgi og mætt í vinnu á fimmta degi. Alveg eins og ný úr kassanum. Sást ekki högg á vatni. Í dag fæ ég mér rauðvínstár (í fleirtölu) á laugardagskvöldi og á mánudagsmorgni lít ég út fyrir að hafa étið 12 kíló af salti. Og sex diska af reyktu hangkjöti. Og svolítið eins og flutningabíll með fimm tengivagna hafi keyrt yfir mig. 

Án þess að ég vilji vera að ýkja sko. 

Í gærmorgun gat ég rétt rúllað mér fram úr rúminu. Og gat svo með engu móti staðið upp af helvítis klósettinu. Nei. Ekki að ræða það. Svo þjökuð var ég af harðsperrum. Fór ég í spinning snemma á laugardaginn? Áður en ég fór fimm ferðar á forréttarborðið á Grand Hótel?

Nei.

Ég dansaði hins vegar við tvö eða þrjú lög seint á laugardagskvöldið. Tók fáeinar sveiflur. Og þurfti nánast að ganga við göngugrind í gær. Allt í lagi. Það hefur sennilega lítið að gera með aldur minn. Og meira að gera með líkamlegt ástand.

Poteitó. Potató.

Í gær fór ég líka að velta fyrir mér hvað ég hefði hitt mikið af skemmtilegu fólki. Svo fór ég að rifja upp samræður okkar. Sem snerust að mestu leyti um brúðkaup og börn. Svolítið um kórastarf og kennsluaðferðir. Jú og auðvitað fasteignaverð og hvað allt væri fokdýrt á barnum.

Nei, ég er augljóslega ekki 18 ára. Svo langt því frá.

Á fertugsaldri fer líka að verða andskoti freistandi að brúka það sem kallað er BeautyCam þegar teknar eru myndir á snjallsímann. Eins og ég gerði á laugardagskvöldið. Án þess svo mikið sem að skammast mín. Hrukkulausir, háaldraðir og lukkulegir sambýlingar. 

Gjörið þið svo vel. 



Jæja. Ég ætla að fara í bað. Fá mér svo flóaða mjólk og fleygja mér í stórar Sloggi nærbuxur.

(Ps. ég er vissulega mjög þakklát fyrir það að fá að eldast. Höldum því alveg til haga).

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

2 comments: