Apr 8, 2013

Akureyri.

Mikið sem við áttum afskaplega notalega daga á Akureyri. Ég kom heim ansi mörgum þúsundköllum fátækari en einu mjög spennandi verkefni ríkari - þannig að það jafnast út.

  

Ég ætti kannski að hætta að eyða peningum í vitleysu og splæsa í nýjan bíl í staðinn. Sambýlismaðurinn var 
með tárin í augunum þegar hann lagði litla ljóta Yarra við hliðina á þessum köggum. 




Bautinn stóð fyrir sínu þessa helgina. Við snæddum þar báða dagana enda ljómandi góður matur á viðráðanlegu verði. Risastórt rauðvínsglas á 900 krónur - það þarf ekki mikið meira til þess að gera mig hamingjusama.




Írskur kaffibolli á Bláu könnunni. Það er nú nauðsynlegt að leyfa sér aðeins í svona helgarferðum.


Hótelmorgunverður - það verður að borða fyrir allan peninginn.



Við ferjuðum þrjá nýja fjölskyldumeðlimi heim með okkur. Ég hef einu sinni átt fiska áður - þeir dóu í eigin skít því ég þreif aldrei búrið þeirra. Ég hef fengið skýr fyrirmæli þess efnis að ég komi ekki nálægt þessum fiskagreyjum. Ég uni mér vel við þau fyrirmæli - enda hef ég lítinn áhuga á lífverum úr dýraríkinu.

Eina ástæðan fyrir þessum fiskakaupum var málamiðlun við einkasoninn. Við vorum stödd í gæludýrabúð og hann ætlaði heim með að minnsta kosti tvær kanínur, nokkra fugla, naggrís og eina stökkmús. Eftir að hafa sannfært hann um að móðir hans hefði heiftarlegt ofnæmi fyrir öllu nema fiskum þá féllst hann á að endurskoða málið. 

Þetta með ofnæmið telst nú hvít lygi. Er það ekki? Þessi lygi skaðar hann ekkert og hlífir mér við frekari gæludýrabeiðnum í bili.  Ég fer ekkert til helvítis fyrir svona smáræði.

4 comments:

  1. Þú ert snillingur :):)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hjartans þakkir fyrir það, hver sem þú ert :)

      Delete
  2. Engin hvít lygi, ekkert að því að vera með andlegt dýraofnæmi :)

    ReplyDelete