Apr 13, 2013

Hreinsimaski á laugardegi.

Það er fátt betra en að dekra aðeins við sig svona á morgnana. Sérstaklega þegar maður lendir í því að vakna hryllilega ljótur. Og kaffilaus. Já ég átti kaffilausan morgun. Það er saga til næsta bæjar.

Ég fór með kaffivélina mína á kosningaskrifstofuna sem við opnuðum á Egilsstöðum í gær og gleymdi að taka hana með mér heim. Ég GLEYMDI kaffivélinni minni. Það er svipað og að gleyma barninu sínu einhversstaðar. Hvílík hörmung. Og geðheilsan, ó boj. Sambýlismaðurinn hvarf út um dyrnar á núll einni og hefur ekki enn skilað sér heim.

Ókei, hreinsimaskinn. Hann var algjör himnasending í þessum náttúruhamförum sem áttu sér stað hérna á heimilinu þennan kaffilausa laugardagsmorgun.

andlitsmaski

Dálítið undarleg hráefni kannskí. Í þennan maska þarf sem sagt pappír, eggjahvítu og pensil/bursta. Þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af því að eyðileggja burstann, eggjahvítan rennur úr honum eins og skot. 


Eggjahvítan er sett í skál og hrærð örlítið. Henni er síðan smurt vel og vandlega á andlitið með burstanum.

hreinsimaski

Pappírinn er síðan rifinn niður og honum púslað á andlitið. Ég mæli eindregið með því að nýtast bara við eldhúsrúllublað og klippa á það gat fyrir augu og munn. Þetta púsluspil með klósettpappírinn var frekar frumstætt, en virkaði þó alveg. 


Þegar pappírinn er kominn á andlitið er sett önnur umferð af eggjahvítu yfir hann.

Þessu er síðan leyft að stífna alveg á andlitinu. Það getur tekið alveg góðar tuttugu mínútur - þessar mínútur eru vel þess virði. Maskinn er eins og fílapenslaplástur fyrir allt andlitið. 

Þegar maskanum er flett af á að byrja neðan frá - sem sagt frá höku og upp. Ef vel er að gáð og pappírinn skoðaður er hægt að sjá misgómsætt jukk sem maskinn fjarlægir úr húðinni.  Húðin verður líka silkimjúk og ótrúlega ,,strekkt" eftir þessa meðferð. Yndisleg tilfinning. 

Ég mæli með því að þið prófið.

Núna ætla ég að fara eitthvert þar sem hægt er að kaupa sér kaffibolla.

Bless.

2 comments:

  1. On it....SVO skemmtileg síða Guðrún...og auðvitað þú líka ;)

    ReplyDelete