Ef það er eitthvað sem veldur sambýlismanninum velgju þá er það þegar ég hefst handa við að búa til morgunverð um miðjan dag. Til þess að snæða daginn eftir. Enda borðar hann til þess að lifa. Þveröfugt á við undirritaða. Sem lifir til þess eins að borða. Og hugsa um mat. Og búa til mat. Og versla mat. Og elska mat. Og hata mat.
Jæja, burtséð frá velgju sambýlismannsins þá er þessi grautur (sem fær að standa í ísskáp yfir nótt) alveg einstaklega góður. Það veitir mér líka sérstaka sálarró að geta gengið að morgunmatnum mínum vísum. Þurfa ekki að leita að einhverju. Sjóða egg. Smyrja brauð. Vera svöng. Enda á fimm Bingókúlum í forrétt af því ég finn ekkert ætilegt. Fara að grenja. Borða fleiri Bingókúlur. Enda í tímaþröng. Ennþá svöng. Eyði þúsundkalli í 10-11 á leið í vinnunna. Óþolandi.
Já, þessi grautur er allra meina bót.
Grauturinn verður að vera í krukku. Annað er bara ekki lekker.
Næturgrautur:
1 desilíter haframjöl
1 desilíter mjólk (tæplega)
1 stappaður banani
1 teskeið chiafræ
1 teskeið hampfræ
2-3 stöppuð jarðarber
Steviadropar með vanillubragði
kanill
fáein saltkorn
Það pirrar mig skelfilega að ég sé ónaglalökkuð á þessum myndum. Eðlilegt?
Nei.
Framkvæmdirnar eru ekki flóknar. Allt í krukkuna. Hræra vel. Mjög vel. Passa að grauturinn sé svolítið þykkur.
Eina ástæða þess að þessir dropar eru í fórum mínum er sú að ég var á LKL kúrnum í fyrra. Í góða fjóra klukkutíma eða svo. Ég nota líka oft kókosolíu í grautinn í þeirra stað.
Lok, lok og læs. Inn í ísskáp með þetta.
Dýrðin er svo toppuð með hnetusmjöri. Auðvitað.
Mér þykja múmmínbollar skemmtilegt fyrirbæri. Eins og svo mörgum. Ennþá skemmtilegra finnst mér að sambýlismaðurinn er sá sem safnar þeim. Ekki ég. Þó ég hjálpi honum stundum við litavalið. Það er bara af hjálpsemi. Og örlítilli afskiptasemi. Engu öðru. Alls engu.
Stundum finn ég hann inni í eldhúsi. Að litaraða bollunum. Sem hann er nota bene búinn að hengja upp á vegg. Ferlega krúttlegt.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment