Jun 13, 2015

Morgunverður á laugardegi


Ég rúllaði mér fram úr rúminu klukkan níu í morgun. Beint í hlaupagallann. Sem eru öfugmæli. Ég hleyp ekkert. Ég labba. Svo má líka deila um hvort þetta geti yfir höfuð kallast hlaupagalli. Gamlar gegnsæjar leggings. Hlébarðamynstraðir sokkar. Jakki af pabba. Og skór sem systir mín gaf mér. Svona eftir að hún sá skóna sem ég almennt kallaði hlaupaskó. Þeir voru ekki hlaupaskór, nei. 

Ég er í gír sem nefnist korter í sumarfrí. Þá sé ég bara 12 tommu hlöllabát í öllum speglum sem ég voga mér að koma nálægt. Ekki mig. Bara vel majonesaða samloku á stærð við fyrstitogara. Meira ruglið. Að vísu endist gírskiptingin aldrei lengi. Viku á ári. Give or take. Ég hreyfi mig þó á meðan. Sem er plús.


Eftir léttan hring af labbi húrraði ég mér heim í morgunverð. Sem var ekki af verri endanum. Algjört hnossgæti eiginlega. 


Jarðarber og hnetusmjör.


Bollur sem samviskan las utan á. Fullt af fallegum og fleygum hollustuorðum. Heil korn. Rúgur. Svo eru þær örugglega á pari við skjannahvítan brauðhleif. Hver veit. Jæja, þær eru góðar. 


Fleygjum bollunum í brauðristina. Ég vil skrifa ristavél. En ég fæ ítrekað orð í eyra fyrir það orðaval.


Skerum jarðarberin.



Smyrjum bollurnar með hnetusmjöri. Vænu magni af hnetusmjöri. 


Jarðarberin ofan á og bíta. Bíta, bíta og bíta. 

Sætt, stökkt, vel hnetusmjörað og gott.

Jæja, sambýlismaðurinn er að hóta að fara með gula sófann minn í Sorpu. Ég þarf að bregðast við því snöggvast með frekju og góðu fýlukasti.

Heyrumst.

2 comments:

  1. Ristavél er mjög hentugt orð. Þetta er vél sem ristar brauðið. Er með þér í þessu.

    ReplyDelete
  2. klárlega ristavél, rétt eins og stígvél eru stígvél

    ReplyDelete