Jul 20, 2015

Rauður úr Rauða


Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim til Eskifjarðar er að fara í búðina hjá Rauða krossinum. Nei, ókei. Það er númer tvö í röðinni. Fyrst kíki ég í ísskápinn hjá mömmu og pabba. Og ét þau út á gaddinn. Svo fer ég í Rauða krossinn. 


Að þessu sinni valsaði ég út með þennan stórfenglega rauða kjól. Ásamt öðru. Sem við skoðum síðar. Rauðu glæsilegheitin kostuðu ekki nema einn rauðan seðil. Jæja, rétt rúmlega einn rauðan. 600 krónur ef ég á að vera nákvæm. Sem ég er aldrei. 



Mamma spurði hvort ég væri ekki alveg í lagi. Systir mín heldur að ég sé blind. Sambýlismaðurinn horfði á mig og spurði ,,í alvöru?" 

Mitt hryllilega hreinskilna afkvæmi vatt sér að mér og sagði það bara beint út. ,,Þetta er mjög forljótur kjóll mamma. Þú ferð ekki með mér út í þessu."

Er mér sama? Já, mér er alveg sama. 


Mér finnst hann fallegur. Hárauður og húrrandi sætur.


Ég var að reyna að taka einkar tignarlegt hopp í náttúrufegurðinni. Það tókst ekki. Augljóslega. Ég hef ekkert afl til þess að lyfta mér og mínum botni frá jörðu. Ekki neitt bara. 

Hlakka til að sýna ykkur hitt sem ég ferjaði með mér úr búðinni. Og vakti álíka mikla lukku á meðal fjölskyldumeðlima. Sem eru fremur ósmekkleg. Svona upp til hópa. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment