Ég brá aðeins undir mig betri fætinum um helgina. Fleygði mér í mjúkt og milt fangið á Smáralind. Lét glepjast af loforðum um verðhrun, útsölur, og afslætti. Upphaflega var á áætlun að versla buxur og skó handa afkvæminu.
Ég verslaði það ekki. Hvorki skó né skálm.
Móðir ársins verslaði sér hins vegar stórglæsilegt skópar.
Nú í fyrsta lagi þá kostuðu þeir ekki nema 2600 krónur íslenskar. Á 70% afslætti. Í Hagkaup.
Í öðru lagi þá er ég að vinna í að gera skóflota minn örlítið kvenlegri. Ég lít alltaf út eins og ég sé nýstigin af mótorhjóli eða á leiðinni upp á Vatnajökul.
Í þriðja lagi. Í þriðja lagi já. Það eru yfirgnæfandi líkur á að ég eigi aldrei eftir að nota þá. 99% líkur. Give or take. En það veitir mér ákveðna hugarró að eiga eitt par í skápnum. Kannski verð ég fíngerðari og fágaðri á mínum efri árum. Þá get ég gripið í þetta par. Og hugsað til þess með hlýju hversu hagsýn ég var á mínum yngri árum. Bara 2600 krónur. 2000 kall ef við námundum.
Eftir rápið um Smáralind flandraði ég í annað fang. Á einum af mínum uppáhalds mönnum. Ekki pabba míns. Sambýlismanns. Afkvæmis. Eða bræðra. Nei. Heldur bóksalans í Kolaportinu. Ég elska hann í laumi.
Hjá honum var aldeilis útsala. Almennileg útsala. 50% af öllu. Og ég gekk einungis út með tvær matreiðslubækur.
Sambýlismaðurinn hefur sett hnefann í borðið. Ekki frekari bókakaup. Íbúðin einfaldlega rúmar ekki meira. Að hans sögn. Hann samþykkti þó þessar tvær. Með semingi.
Hann verður blessunarlega farinn aftur á hafið bláa þegar nýjasta pöntun mín af Amazon fýkur inn um lúguna. Í henni leynast sex bækur. Eða voru það átta? Æ, hver er að telja. Svo á ég líka von á örfáum naglalökkum af Ebay. Og með örfáum á ég við, tjah - þau eru fleiri en fimm. Færri en tíu.
Hann var einmitt eitthvað að ræða við mig um naglalökk. Ég man eftir að hafa heyrt útundan mér ,,það þarf engin að eiga svona mörg..."
Þá lokuðust eyrun.
Þið finnið mig bæði á Instagram & Snapchat - gveiga85.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment