Sep 22, 2015

Brúðkaupsundirbúningur: fyrsti hluti (af mörgum)


Ah, ef ég hef einhvern tímann fengið tækifæri til þess að leyfa minni mígandi manísku hegðun að blómstra. Ó, þá er það núna. Mikið sem þetta er töfrandi tímabil. Þessi undirbúningur. Fyrir mig sko. Enga aðra.

Á aðeins 10 dögum er ég búin að reyna verulega á andleg þolmörk minna nánustu. Og enn eru 9 mánuðir til stefnu. Systir mín er hætt að svara mér á Facebook. Sambýlismaðurinn telur niður dagana í næstu sjóferð. Biðlar reglulega til Guðs um að komast svo langt út á haf að ekkert verið símasambandið. Og að skipið landi aflanum í Rússlandi. Þannig að túrinn verði að minnsta kosti 12 vikur. 

Eins hefur hann eytt einni nótt á sófanum á þessu tímabili. Af því ég var að taka söngprufur fyrir hann. Inni í rúmi. Um hánótt. Og hafa áhyggjur af því hvar við fáum nógu mikið af hvítum jarðvegsdúk. Utan um stólana. Í veislunni sem ég veit ekki einu sinni hvar verður. 

Nei. Hann kærir sig ekki um að ég syngi fyrir hann í brúðkaupinu. Whatever. Ég syng kannski ekki vel. Eins og glöggir fylgjendur mínir á Snapchat hafa tekið eftir. En ég geri það af tilfinningu. Með fullt hjarta af gleði. Og ást. Og umhyggju. Og ég mun syngja í þessu brúðkaupi. Af lífi og sál. 

Mögulega er ég einnig búin að senda Leoncie vinkonu minni línu. Mögulega já.

Jæja, ekki nóg með nóttina á sófanum. Nei. Hann gekk á dyr um daginn. Lét sig hverfa í þó nokkra klukkutíma. Af því ég var alveg að fara að grenja úr örvæntingu. 

Og af hverju féllu tár niður fagurt andlit mitt í auðmjúkri örvæntingu?

Af því ég fann ekki nægilega skemmtilegt hashtag. Hashtag fyrir brúðkaupið okkar. Jú, brúðkaupið serm er 9.júlí næstkomandi. 

Það er september, Guðrún Veiga. Setning sem ég hef heyrt óþarflega oft undanfarið. Og eitthvað sem þið eruð sennilega að hugsa. Mér er að sjálfsögðu alveg andskotans sama. Ég er skipulagsfíkill og kvíðasjúklingur fram í fingurgóma. Ég er bara búin að æfa gönguna að altarinu tvisvar hérna á stofugólfinu. Eða þrisvar. Er nú ekki farin út fyrir nein velsæmismörk ennþá sko. 

Ókei. Ég er búin að kaupa svolítið af kertum. Og gulum umslögum. Og spreyja fáeinar niðursuðudósir. Annað ekki. Sver það.

Æ, svo pantaði ég eitthvað aðeins af Ali Express. Ekkert til að tala um. 



Ókei, að betri og bjartari hlutum. 

Blæti mitt fyrir hvers kyns ritföngum fær að blómstra óáreitt þessa dagana. Af því ég þarf að sjálfsögðu sérstaka minnisbók undir hvert og eitt atriði. Eða svo gott sem. Eina fyrir tónlistina. Eina fyrir matinn. Eina fyrir drykki. Eina fyrir skreytingar. Þrjár fyrir kjólinn. 

Almáttugur, þetta er svo fullnægjandi.



Gestalisti með kaffiblettum á. Sem stækkar og minnkar í takt við skapið í mér. 

Þetta er gaman. Ehm, enn sem komið er. Þó allar líkur séu á því að ég komi til með að standa ein eftir á stóra daginn. Vinalaus. Fjölskyldulaus. Brúðgumalaus. Og allslaus. 

Jæja. Ég geri mér þá glaðan dag. Í fínum kjól. Með Leoncie. Og tíu kössum af rauðvíni. Give or take.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

4 comments:

  1. Ég er að tengja!! Brúðkaup í júní á næsta ári hjá mér eða kannski júlí ef maður þarf að færa út af blessaða fótboltanum..hvað er nú það??

    ReplyDelete
  2. Sami pakki hér! 11 mánuðir í þetta og manían farin að gera vart við sig! Munurinn er bara sá að ég tala ekki upphátt um þetta. Ég á bara eftir að springa einn daginn á kærastann minn! Veit sko nákvæmlega hvernig boðskortin verða, skrautið á borðunum osfrv. Hann hefur bara ekki hugmynd!

    ReplyDelete
  3. Nú tala ég af gríðarlegri reynslu elskan og þetta er aldrei of snemma byrjað. Tíminn flýgur eins og fluga á skítahrúgu... eða eitthvað þannig og það má bara ekkert grípa of seint í rassinn.

    Keep up the good mania!

    ReplyDelete
  4. Plís! Viltu vera í gulum kjól...

    ReplyDelete