Jú, hér hefur ríkt þögn í heilar tvær vikur. Mikið rétt. Alltaf kem ég þó aftur. Það hefur verið mikið að gera. Út um allt. Og allsstaðar. Þá endar bloggið yfirleitt í 10.sæti. Því miður.
Æ, svo hef ég verið í andlegri lægð. Þessari sem ég tek tvisvar á ári. Eða fimm sinnum. Give or take. Stundum er bara allt djöfulsins ómögulegt. Og það er alveg andskotans allt í lagi. Og núna er ég hætt að blóta. Og ætla að sýna ykkur fína gula kjólinn minn. Sem ég keypti í Rauða krossinum. Á Laugavegi, nánar tiltekið.
Ég og afkvæmið vorum þar á rölti um daginn. Aldrei slíku vant voru augu mín ekki skimandi hvern einasta búðarglugga. Var ég veik? Nei. Annars hugar? Vel mögulega. Skyndilega rífur afkvæmið í höndina á mér. Snarhemlar. Horfir stíft í augun á mér.
,,Bíddu, sástu ekki gula kjólinn í glugganum?"
Ég hrópa upp yfir mig. ,,Hvaða gula kjól?!" Áfram horfir vesalings afkvæmið stíft á mig. ,,Viltu nota inniröddina mamma." Svo tekur þessi elska í hönd mína og leiðir mig að gluggum Rauða krossins. Þar sem þessi gula dýrð blasir við mér. Eins og ferskur andvari á sólríkum sumardegi. Eða eitthvað.
Ég er ekki komin sex mánuði á leið. Pilsið er þröngt. Efri hlutinn víður. Ekkert sérstaklega lekker svona á mynd. En þið vitið, sáldrandi dásamlegt séð með eigin augum.
Gulur og guðdómlegur. Í minni eigu þökk sé vökulum augum afkvæmisins.
Kostnaður: Jón Sigurðsson og fjórir hundraðkallar til viðbótar.
Í öðrum fréttum: Tveir dagar síðan brúðkaupsundirbúningur hófst og sambýlismaðurinn þegar farinn að hóta mér lífláti. Og missa dálítið af hári. Eins og ég benti honum góðfúslega á í gær. Og var næstum grýtt út um gluggann fyrir vikið. Af þriðju hæð nota bene.
Þetta verða tíu mánuðir af tómri gleði og húrrandi hamingju. Ég finn það á mér.
Undirbúningur verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Snapchat. Eiginmannsefni mínu til mikillar gleði. Einmitt já. Þar má einnig senda mér góð ráð. Og hvers kyns ábendingar. Allt slíkt verður þegið með þökkum.
Þið finnið mig bæði á Snapchat & Instagram - gveiga85.
Heyrumst fljótlega.
Sá þetta blogg innslag og varð auðvitað hugsað til þín... http://stylebyemilyhenderson.com/blog/color-trends-lemonbuttercup-yellow
ReplyDelete