Mæðginin á Gunnars ákváðu að gera vel við sig á þessum fallega laugardagsmorgni. Eða ég ákvað það. Vegna þess að mig langaði að prófa þennan rjóma. Afkvæmið var meira í því að röfla. Og vola. Af því að vöfflubakstur og myndataka tóku góða klukkustund.
Og vesalings barnið aðframkomið af hungri. Alveg að steindeyja að eign sögn. Lífsmörk hans voru þó eðlileg þegar hann loksins fékk að borða.
Ég mæti stundum ákaflega litlum skilningi sem bloggari. Sérstaklega hérna inni á eigin heimili. Myndir fyrst. Matast svo. Þetta eru nú ekki flóknar reglur.
Jú, vissulega taka myndatökur mínar dágóðan tíma. Of langan tíma vilja sumir meina. Stundum fer ég í fýlu. Grýti frá mér myndavélinni. Kalla alla í kringum mig hömlulausar ofætur. Og þykist með engu móti skilja af hverju fólk getur ekki hinkrað í hálftíma, ókei þrjú korter, með að byrja að borða.
Af því ég myndi pottþétt sýna slíku skilning. Pottþétt. Ég gæti alveg setið tímunum saman með kræsingar fyrir framan mig. Án þess svo mikið sem að snerta þær.
Einmitt já.
Ókei. Að máli málanna. Vöfflur. Nutella. Og Oreorjómi.
Nei, ég get ekki gefið neina uppskrift af vöffludeigi. Nema þessa flösku. Og fjóra desilítra af mjólk.
Mölvum einn pakka af Oreokexi gróflega.
Hrærum varlega saman við þeyttan rjóma.
Ég setti örlítinn flórsykur út i skálina líka. Af því kexkökur og rjómi var bara ekki alveg nógu sætt.
Lífsgæði mín hafa aukist til muna eftir að ég verslaði þessar notuðu Iittala skálar. Ég get svo guðsvarið það.
Smyrjum vöffluna með Nutella. Fleygjum vænni slummu af rjóma ofan á.
Kexið mýkist í rjómanum. Mmm. Ég elska rjóma. Og Nutella. Og Oreo.
Þetta var gott.
Samt betra með sultu samkvæmt afkvæminu. En hann var auðvitað svo soltinn að hann hefur sennilega verið með óráði.
Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment