Oct 13, 2015

10 hlutir sem hressa mig við


Sumir dagar eru góðir. Aðrir dagar eru aðeins verri. Daganir sem þú færð synjun á kortið þitt í Bónus. Eða þegar þú reynir að kaupa 1500 króna kjól í Rauða krossinum. 

Dagarnir sem þú brýtur nögl og tyggjóið þitt hrekkur ofan í þig. Og þú gúgglar hvort það sé óhollt að gleypa tyggjó og ferð af hafa áhyggjur af krabbameini í brisi eða vélinda.

Dagarnir sem þú áttar þig á því í lok vinnudags að þú ert með skítugt hár og varalit á tönnunum. Eða spínat á milli framtannanna og það eru góðir fjórir tímar síðan þú ást helvítis salatið
.
Dagarnir sem þú áttar þig á því á miðnætti að það er gat á rassgatinu á buxunum þínum. Og þú fórst í þær um morguninn. Og skrappst á miðbæjarrölt, í Bónus og á virðulegan foreldrafund. Brókarlaus.

Dagarnir sem þér finnst þú einfaldlega vera ljót. Og 8000 þúsund króna meikið sem þú keyptir fyrir afmælispeningana frá mömmu og pabba er einfaldlega ekki að gera þér neina greiða.

Dagarnir sem þú ætlaðir í ræktina en endaðir á Dominos. Og svo á nammibarnum í Hagkaup. Af því þú varst hvort eð er búin að éta bróðurpartinn af 16“ pizzu. Og brauðstangir.

Það eiga allir svona daga. Vona ég.

(Og áður en virkir í athugasemdum fara að deila þessari færslu með orðunum ,,Vó, sú á við stór vandamál að stríða. Vona að henni svelgist ekki á dýra meikinu sínu á meðan hún þjalar á sér neglurnar og bíður eftir að pizzan kólni“, þá skulum við hafa á hreinu að þetta er til gamans gert. Textinn hér að ofan er að sjálfsögðu litaður kaldhæðni. Og núna er ég farin að útskýra mig. Það kann ekki góðri lukku að stýra. En já. Ég er vissulega meðvituð um að dagar eins og ég lýsi hér að ofan teljast ekki til slæmra daga – ef ræða á um svoleiðis daga af fullri alvöru).

Ókei, allavega.

Suma daga finnst manni afar fátt ganga upp. Smávægilegar uppákomur geta komið manni fullkomlega úr jafnvægi. Skapið verður snautlegt. Allt verður ómögulegt. Skítt og óskemmtilegt. 

Hérna eru 10 hlutir (eða leiðir) sem ég nota til þess að hressa mig við á slíkum dögum.


Ritföng af öllu tagi

Ég elska að handleika fallegar stílabækur. Dagbækur. Blýanta. Penna. Að skoða og skipuleggja mitt fáránlega stóra ritfangasafn veitir mér dálitla hugarró. Ég tala nú ekki um rúlla yfir dagbókina mína (dagbækurnar, ókei) og strika yfir þau verkefni sem ég er búin að ljúka. Fullnæging. 

Já, ég sagði það.



Jú, það er vissara að vera byrjuð að skipuleggja árið 2016.

Að keyra Reykjanesbrautina

Kannski það furðulegasta á þessu lista. Ég veit ekki. Ég hreinsa hugann hvergi betur. Og fyrir vikið fer ég óþarflega oft til Keflavíkur. Þegar ég var að skrifa bókina mína í fyrra keyrði ég stundum þangað tvisvar á dag. Sem var mjög heimskulegt. Og dýrt. En það er allt önnur saga.


Blindsker

Að hlusta á Bubba syngja Blindsker. Helst svo hátt að ég fæ hjartsláttartruflanir. Ég hlusta á það fimm til sex sinnum í röð. Tromma og jafnvel slamma í takt. Verð eins og ný manneskja á eftir.

Súpa

Góð súpa getur alveg lyft andanum aðeins. Gert mig dálítið hressari. Ég nenni reyndar aldrei að elda súpur. En bollasúpur virka líka alveg ágætlega. Stundum nenni ég ekki einu sinni að sjóða vatn. Og hræri þær bara beint út í heitt vatn. Það er ekkert rosalega gott. Einmitt já, allt önnur saga.


Nýþveginn þvottur 

Lykt af nýþvegnum þvotti. Eða aðallega af mýkingarefni. Mmm.

Hljómar kannski undarlega en gefum ímyndunaraflinu aðeins lausan tauminn. Þið opnið flöskuna. Stingið nefi að stút. Dragið að ykkur andann. Ahh. Blóm, fuglar og vinalegar býflugur. Ó, það er eitthvað þarna sem fær sálina til þess að syngja. Ókei, kannski blístra mjög lágt. En lyktin af mýkingarefni lyftir andanum örlítið. Og stundum þarf ekki meira.

Að hringja í mömmu

Já, ég hringi ennþá í mömmu út af öllum andskotanum. Og hún heyrir það á því hvernig ég segi hvort ég er hátt uppi eða langt niðri.

Að skrifa

Hvers kyns skriftir hressa mig alltaf við. Sama hvort það er fyrir bloggið eða pár í einhverja af mínum mörgu minnisbókum. Eða á pappírssnifsi. Sem eru úti um alla íbúð. Já, mér fylgir eiginlega skaðlegt magn af pappír.


Bingókúlur

Ekki segja mér að borða ekki yfir tilfinningar mínar. Ég ét það sem ég vil. Þegar ég vil. Og stundum þarf ég bara lúku af Bingókúlum og svellkalda dós af Pepsi Max. Og það er bara allt í lagi.


Að naglalakka mig

Það róar mig niður að naglalakka mig. Ég þarf að vanda til verks og gleymi öllu öðru á meðan. Að vísu er ég mögulega búin að þróa með mér krónískan höfuðverk vegna þess að ég er alltaf naglalakkandi mig. Stofan lyktar stundum eins og eiturefnaverksmiðja. Af því ég er að nota fjóra liti í einu. Og er jafnvel að fara þriðju umferð.

Kaffi

Góður kaffibolli getur lagað margt. Ekki það að Euro Shopper kaffið sem ég mata Senseo-vélina mína á geti nokkurn tímann talist góður bolli. Því fer fjarri. En ég læt það þó stundum duga. Sest fyrir framan stofugluggann. Glápi inn til nágrannanna. Eða þið vitið, út í garð. Gleymi stað og stund.

Úff, ég eftir að sakna Gunnarsbrautar. Mikið. Mjög mikið.

Jæja. ég er að fara að naglalakka mig, drekka kaffi og hlusta á Bubba.

Þrjár flugur í einu höggi.

Þíð finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

2 comments:

  1. Alveg rothissa á að þarna sé ekki minnst á litabókina, þú komin með sigg og allt. En sammála mörgu. Sérstaklega súkkulaðinu. Eigðu góðan dag :)

    ReplyDelete
  2. Þú ert nú alveg dásamleg! Gaman að lesa bloggið þitt :)

    ReplyDelete