Ég lifi svolítið á brúninni með þennan jólakjól sem ég sýndi ykkur fyrr í vikunni. Það verður að segjast eins og er. Og þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög lítið fyrir það að lifa á brúninni. Kem helst ekki nálægt henni. Ég fer að öllu með gát. Alla daga. Alltaf. Ef ég væri með odd þá væri öryggið á honum.
Þið sem fylgið mér á Snapchat og sáuð undirbúning minn fyrir óveðrið um daginn. Ehm, já. Þið ættuð að vera búin að átta ykkur örlítið á mér. Ég tek enga óþarfa áhættu. Aldrei. Ég teipa alla glugga, versla inn vistir sem duga í marga mánuði og sef í forstofunni ef þess þarf. Ekkert kjaftæði.
Jæja. Ég ætlaði að tala um jólaföt. Já. Ég tek heldur enga áhættu með jólafötin mín. Og rauði kjóllinn minn, dásamlega fallegi rauði jólakjóllinn minn er tæpur sko. Æ, já. Svolítið tæpur. Hvað stærðina varðar. Ef ég svo mikið sem þefa af laufabrauði þá get ég hent honum í mjóu skúffuna mína. Beinustu leið.
Þannig að ég get kysst hann bless klukkan átta á aðfangadagskvöld. Þegar ég kem til með að liggja í sófanum hjá foreldrum mínum. Í ofátsmóðu. Ropandi. Svona rjúpnaropa, þið vitið. Með rjómasósu í munnvikinu. Og sennilega fullan munn af frómas. Að blóta því að mamma mín sé búin að éta alla bleiku makkintossmolana. Af því ég get alveg étið aðeins meira. Fyrst ég er á annað borð byrjuð.
Búin að troða í mig megninu af íslenska rjúpnastofninum. Og fimm skálum af frómas.
Þess vegna geri ég varðúðarráðstafanir. Líka svolítið af því að ég held jólin hátíðleg allan desembermánuð. Og megnið af nóvember. Svona átlega séð. Þannig að ég má prísa mig sæla ef ég fer yfir höfuð í þennan bölvaða jólakjól.
Eins þarf ég að klæðast einhverju fallegu á jóladag. Ekki væflast ég um með hangikjötsvömb í rauða kjólnum. Nei. Ég þarf eitthvað þægilegt. En glæsilegt. Eitthvað sem ég get borðað í. Og kem til með að passa í ennþá á annan í jólum.
Ég var að sjálfsögðu ekki lengi að finna eitthvað brjálæðislega fallegt. Sem ég varð að eignast. Aldrei slíku vant. Hóst.
Kimono frá Báru vinkonu minni Atla. Sem ætlar að sauma brúðarkjólinn minn.
Fyrir brúðkaupið sem sambýlismaðurinn er nota bene að reyna að fresta. Sökum sjómennsku já. Einmitt já. Hann auðvitað rétt ræður því. Ég gifti mig 9.júlí. Honum eða einhverjum öðrum. Í stórfenglegum kjól.
Ókei, önnur saga. Ræðum það síðar.
Ég hef verið með Báru dálítið á heilanum síðan í sumar. Þá eignaðist ég þennan kimono. Sem ég féll svona líka fyrir. Og féll eiginlega fyrir Báru í leiðinni. Þannig að það kom engin önnur til greina þegar ég fór að huga að brúðarkjól.
Kannski giftist ég bara Báru.
Sjáum til.
Allar þessar pallíettur sko. Svo skínandi fagrar. Ó, ég elska þessa flík.
Já, ég get verið bæði kynþokkafull og dularfull í senn. Sérstaklega þegar ég er með myndavélina á self-timer. Og stend ein í stofunni. Með dregið frá öllum gluggum. Og myndavélin uppi á stól. Og ég pósandi um alla stofu. Búin að steingleyma að ég sé stödd á jarðhæð.
Ég veiti sennilega einhverjum nágrönnum mikla gleði.
Þessi kimono hentar vel til bæði ofáts og áfengisdrykkju. Helvíti hentugur svona um jólin.
Hann er fáanlegur í fleiri litum og ég mæli eindregið með að þið kíkið á Báru hérna. Helst núna. Af því að hún er hæfileikarík. Og frumleg.
Smellið í eitt læk og skoðið það sem hún er að bauka.
Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.
Heyrumst.
Hæ Guðrún Veiga :)
ReplyDeleteHvaða farða notarðu? Þú ert alltaf svo fín!