Dec 6, 2015

Jólakjóllinn í ár


Ég sagði ykkur frá því í síðustu viku hvernig ég fleygði sambýlismanninum um borð í grænlenskan frystitogara. Reykspólaði svo af bryggjunni af því ég hafði fengið veður af afslætti í Gyllta kettinum. Þar sem ég keypti þrjá kjóla. Eins og ég hef jú áður sagt frá.

Ég er búin að sýna ykkur einn kjól. Og nú er komið að því að draga kjól númer tvö upp úr pokanum. Allt í lagi, ég er alveg búin að taka kjól númer þrjú upp úr pokanum líka. Og troða honum ofan í skúffu. Mjóu skúffuna mína. Þar sem ég geymi föt sem ég ætla að passa í seinna. 

Nei. Ég passaði ekki í hann. Svo langt því frá. Bölvaða andskotans kjóldrusla. Mátaði ég hann ekki áður en ég fjárfesti? 

Nei. Svarið er nei. 

Ég var svo æst. Með stjörnur í augunum. Hraðan afsláttarhjartslátt. Þandar taugar. Mátti ekkert vera að því að týna af mér hverja einustu spjör. Rugla hárinu og eyðileggja maskarann. Allt fyrir einn kjól. Eða þrjá. Ekki að ræða það. 

Svo festi ég mig einu sinni í alltof litlum samfestingi. Í mátunarklefa. Einmitt í Gyllta kettinum. Ég hef ekki enn beðið þess bætur. Og máta helst aldrei neitt. Tek bara sjénsinn. Með mjög misjöfnum árangri. 

Jæja. Whatever. Svo lengi sem sambýlismaðurinn kemst ekki að þessu. Eða finnur þessa skúffu mína. 

Jólakjóllinn í ár er stórkostlegur. Fagurrauður og fljúgandi sætur. 

1500 krónur. Hann kostaði 1500 krónur. 





Afkvæmið var nánast með tár á hvarmi þegar hann smellti af þessum myndum. Álagið á átta ára barni. Þrífótur hefur formlega verið settur á jólagjafalistann.

Það er verst að ég er eiginlega búin að kaupa jólagjöfina frá sambýlismanninum. Já. Frá honum til mín. Og hann veit ekki af því. 

Þau kaup voru gerð af hjálpsemi og hlýhug. Af því hann er á sjó. Og ekki verslar hann jólagjafir þar. Nema hann ætli sér að gefa mér karton af sígarettum. 




Jább. Ég er húrrandi hamingjusöm með hann þennan. 

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


3 comments: