Fyrir ekki svo löngu síðan bárust mér skemmtileg skilaboð frá ungri konu. Unga konan heitir Inga Fanney Rúnarsdóttir og hún hannar alveg ferlega falleg veski. Og þessi hæfileikaríka stúlka vildi ólm gefa mér eins og eitt veski. Alveg ólm!
Allt í lagi, ég er að ljúga. Örlítið. Aldrei slíku vant. Skilaboðin frá Ingu bárust mér fyrir löngu. Ég er bara alltaf alveg stórkoslega lengi að gera upp hug minn. Á ég að þiggja þá hluti sem mér eru boðnir?
Eða einfaldlega segja sama og þegið? Sem ég geri jú yfirleitt. Afskaplega kurteisislega. Af því ég er afar vel upp alin. Ég er kona sem kann sig. Svona yfirlett.
Ég hef eina þumalputtareglu. Ég þigg ekkert sem ég myndi aldrei kaupa mér sjálf. Ég þigg ekki eitthvað sem ég myndi aldrei tíma að kaupa mér. Eitthvað sem ég hef ekki efni á. Eitthvað bara til þess að fá það gefins. Og allt þar fram eftir götunum. Þið skiljið sneiðina.
Þetta voru fjórar þumalputtareglur. Whatever.
Ég hef skrifað um þetta málefni áður. Og nenni ekki að skrifa um það aftur. Þannig að ég læt gamalt röfl fylgja.
Blogg eru sístækkandi auglýsingamiðill. Einfalt mál. Vel skiljanlegt að fyrirtæki séu tilbúin að láta vörur sínar í skiptum fyrir umfjöllun. Umfjöllun sem nær í mörgum tilvikum til fjölda manns.
Trúverðugleikinn liggur hins vegar hjá bloggaranum. Svona að mínu mati. Nú hef ég ekki hugmynd um hvort þið takið mig trúanlega þegar ég er að tuða um einhvern varning hérna. Sem ég hef að vísu þegið afskaplega lítið af í gegnum tíðina. Ég hef stundað þessa tegund viðskipta við örfá fyrirtæki. Allt fyrirtæki sem ég versla almennt við og þekki vörurnar frá. Og er þess vegna yfirleitt ekki að tala út um rassgatið á mér. Að ég held.
Það hafa ýmis tilboð dúkkað upp hjá mér. Sem oft á tíðum hefur verið freistandi að þiggja. Ég hugsa að ég neiti samt í svona 95% tilvika. Nei, ókei, 90%. Um daginn var ég einmitt beðin um að mæla með einhverskonar boozti og heilsudrykkjum. Persónulega var ég alveg til í að þiggja fullan kassa af fríum morgunverð. En að blogga um boozt? Mæla með heilsudrykkjum? Sennilega svipað og að Þorgrímur Þráinsson myndi reyna að selja ykkur sígarettur. Eða Þórarinn Tyrfingsson stæði vaktina við bjórdæluna á Ölstofunni.
Ókei. Já. Æh, þetta er vandmeðfarið. Hver og einn verður að fylgja sinni sannfæringu. Já. Amen, hallelúja og allt það.
Aftur að veskinu. Gullfallega veskinu mínu. Sem ég þáði með þökkum. Aðallega af því að mér fannst það vandað og virkilega fallegt.
Svo spilaði örlítið inn í að Inga Fanney hefur augljóslega lesið bloggið mitt lengi. Og var miður sín yfir því að geta ekki boðið mér upp á gult veski.
Veskið sem ég valdi mér er úr leðri og rúskinni.
Ó, allt þetta pláss. Hentar mér ákaflega vel. Af því ég ferja venjulega hálfa búslóðina með mér út úr húsi. Ég flandraði um með veskið á jólahlaðborði um daginn. Ég kom síma, snyrtidóti og lyklum auðveldlega fyrir í því. Og auðvitað þykku seðlabúnti.
Djók.
Á einhverjum tímapunkti reyndi ég að vísu að troða Amarulaflösku ofan í blessaða budduna. Það gekk ekki. Sem var dálítið svekkelsi fyrir konu á glasi númer 37. Konu sem tímdi ekki að kaupa meira á barnum. Og ætlaði að svolgra í sig drykk númer 38 og 39 inni á almenningssalerni.
Já, það er önnur saga.
Ég mæli með IF reykjavík í jólapakkann. Eða bara í innkaupapokann í næstu Kringluferð. Það má líka alveg gefa sjálfri sér jólagjöf. Ég geri það árlega. Að vísu verða þær stundum fleiri en ein. Sambýlismanninum til mikilla ama.
Veskin fást í Kastaníu í Kringlunni og víðar. Það eru líka til fleiri týpur en þetta hér að ofan.
Smellið einu læk á IF reykjavík á Facebook og skoðið úrvalið. Af því ég bið ykkur svo fallega.
Jæja. Ég er að hugsa um að fá mér víntár. Ég er nefnilega búin að vera í lífshættu síðan í gærkvöldi. Að mínu eigin mjög brenglaða mati. Meira um það á Snapchat síðar.
Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment