Ég er hrædd um að ég hafi lofað ansi langt upp í ermina á mér þegar ég sagðist nú alveg geta hent í eitt blogg á dag á meðan ég sinnti starfi mínu í þessari kosningabaráttu sem nú hefur yfirtekið líf mitt. Og gott betur en það.
Aumingja íbúðin mín lítur út eins og í henni búi að minnsta kosti tólf rónar og jafnvel fáein húsdýr. Þegar við vöknuðum mjólkur- og klósettpappírslaus í morgun var botninum náð. Það var ákaflega vandræðalegt að fá lánaðan salernispappír hjá nágrannanum fyrir klukkan átta að morgni. Nágranninn er reyndar tengdapabbi minn þannig að þetta slapp fyrir horn.
Mjólkurleysið olli hinsvegar miklu fjaðrafoki. Sonurinn harðneitaði tilboði mínu um að prófa Pepsi Max út á morgunkornið sitt. Óþolandi hvað hann er ófrumlegur og vanafastur stundum.
Ég hef samt alveg fundið nýja hlið á sjálfri mér í þessu verkefni. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Loksins borgar það sig að vera útúrtaugaður skipulagsfíkill.
Ég þarf kannski að læra að forgangsraða. Ég gef mér ekki tíma til að versla nauðsynjar en ég get vel séð af nokkrum mínútum í að versla handa sjálfri mér á netinu.
Þetta tvennt datt óvart í körfu hjá mér í þessari búð í morgun. Æ, þetta var á rosalega góðu tilboði. Ásamt eiginlega öllu öðru á síðunni. Tilboð - það er uppáhalds orðið mitt.
Jæja, langur dagur framundan. Hann þarf að líða hratt og vel af því að ég á rauðvínsbelju í ísskápnum sem ég ætla að njóta ásta með í kvöld.
Þangað til næst.
það er ofsa skrítið að eiga rauvín í ísskáp. oj!
ReplyDeleteæhh, sko. ég var búin að smakka aðeins á því og það stóð á beljunni að eftir opnun ætti að geyma hana á köldum stað. ég geri alltaf það sem mér er sagt.
DeleteÉg vil sjá mynd af þér í þessu ponsjó þegar þú hefur fengið það ;o)
ReplyDeletebkv
Jóhanna Smára;o)