Þegar tveir nautnaseggir koma saman. Nú eða þrír. Þar sem
afkvæmi okkar virðist vera banvæn blanda af okkur báðum. Almáttugur.
Við erum ekki fólkið sem fer í langar skoðunarferðir. Hleypur meðfram ströndinni. Baðar sig í sjónum. Blandar geði við innfædda.
Nei, við erum fólkið sem þræðir matsölustaði. Matvörubúðir. Matvælamarkaði. Fólkið sem þarf að smakka alla íspinnana á spjaldinu.
Fyrr í dag sátum við einmitt á svölunum hjá okkur. Að slafra í okkur ostum. Súpandi rauðvín. Ræðandi málin.
Ég var alveg sótbrjáluð. Eða þið vitið, í örlítið verra skapi en venjulega. Nýkomin úr H&M. Með glænýjar stuttbuxur í poka. Í stærð 44. Og hreint ekki parhrifin af því. Ég er nefnilega í stærð 42. Fjörtíu og fokking tvö.
Ég hélt magnþrungna ræðu. Fyrir minn eina áheyranda. Þar sem ég líkti spænskum konum við hobbita. Sem væru 12 merkur að þyngd. Og þess vegna væru allar fatastærðir hérna bjagaðar. Útfærðar með örsmáa spænska rassa í huga. Ekki vel nærða íslenska bossa. Svo röflaði ég eitthvað um að konur færist ekkert upp um fatastærð bara en, to, tre. Þó þær borði á við sjö í fáeina daga.
Ég man ekki ræðuna nákvæmlega. En hún var góð.
Sambýlismaðurinn horfði á mig sljóum augum. Enda kvenmannsföt ekki hans sterkasta hlið. Samanber þegar hann gaf mér húrrandi fallegan gallajakka hérna um árið. Í stærð 36. Það var dagurinn sem hann týndi næstum lífi. Ef líkamlegur styrkur minn væri ekki á pari við hagamús þá væri hann dauður. Steindauður.
Örlítil saga, alls ótengd mat: Ég er
svo stórkostlega einföld. Svona af og til. Í dag var ég handviss um að ég hefði
séð Wanye Rooney að snöflast hérna við sundlaugina. Á þriggja stjörnu hóteli. Á
Tenerife. Sambýlismaðurinn bað mig vel að lifa. Eins og svo oft áður. Ég
dröslaði honum að sólstólnum hjá Wayne. Ætlaði aldeilis að sýna honum í tvo heimana.
Löng saga stutt: Þetta var ekki Wayne. Og ég er sennilega með gláku.
Fyrir nokkrum árum vorum við á öðru hóteli. Hérna á Tenerife. Sem var ógeð. Kakkalakkar í sundlauginni. Dauðir kettir undir svölunum hjá okkur. Hundaskítur á víðavangi. Kattaskítur í hverju horni. Sennilega mannaskítur líka. Þá var ég einmitt handviss um að Michael Bublé væri á meðal gesta. Og notaði það reglulega þegar sambýlismaðurinn röflaði yfir hótelinu. ,,Ef þetta er nógu gott fyrir Michael Bublé..."
Svo sýndi ég honum Michael Bublé.
Löng saga stutt: Þetta var ekki Michael Bublé.
Jæja. Mér skilst að við séum að fara að huga að kvöldmat.
Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.
Heyrumst.
This comment has been removed by the author.
ReplyDelete