Jul 15, 2015

H E I M A

Jæja. Ég er komin heim. Allt í lagi, ég kom heim fyrir fimm dögum. Heilastarfsemin er bara rétt að detta úr sumarfríi. Og daglegri rauðvínsmaríneringu.  

Sambýlismaður og afkvæmi eru sólkysstir og sætir. Eins og þeir hafi eytt mörgum mánuðum í spænskumælandi landi. Ég lít út eins og ég hafi farið í laxveiðitúr. Yfir eina helgi. Þar sem var skýjað allan tímann. Og ég hafi ákveðið að éta alla laxana í ánni. Með kokteilsósu.


Já, krakkar. Ég kom sex kílóum þyngri heim. Sex. Sex já. Sambýlismaður og afkvæmi komu léttari heim en þeir fóru út. 






Ég er búin að bölva ósanngjörnu almættinu dálítið fyrir þessi kíló. Svo rúllaði ég yfir myndirnar úr ferðinni. Bað almættið auðmjúklega fyrirgefningar. Það er víst bara einn sökudólgur í stóra kílóamálinu. 

Það er ekki ég. Nei. Ég vil skella skuldinni á sambýlismanninn. Sem er með brennslu á við meðalstóran kjarnorkuofn. Síétandi. Og ég alltaf að troða í mig honum til samlætis. Ekki fyrir eigin ánægju. Nei. Honum til samlætis. Punktur. 


Þarna má sjá glitta í mig í Zöru. Strunsandi framhjá gulum kjól sem ég passaði ekki í. Dauðsé eftir að hafa ekki keypt hann. Ég hefði vel getað troðið honum í skúffuna í skápnum mínum sem merkt er ,,passa í seinna". 

Góð skúffa það. Ég hef safnað í hana síðan seint á tíunda áratugnum. Og er hvergi nærri hætt. 


Ég fann versta rauðvín í heimi. Kostaði 100 kall. Það smakkaðist eins og að kyssa tannlausan stórreykingarmann. Sem var að enda við reykja heilan pakka af Camel filterslausum. Og drekka heila kaffikönnu. Af kaffi sem búið er að standa í sex daga. 

Drakk ég það samt?

Látum það liggja á milli hluta. 



Ég eyddi öllum mínum kvöldum á bar fyrir breska eldri borgara. Spilandi pubquiz. Og bingó. Fór heim með heimilisfang hjá fimm hjónum. Sem ég lofaði að senda bókina mína. Sem ég fer alltaf að tala um á öðru glasi. 

Jæja. Ég er að fara ísrúnt. Nenni ekkert að takast á við þessi sex kíló fyrr en í haust. Eða janúar. Eða áður en ég gifti mig. 

Þið megið endilega fylgja mér á Snapchat og kasta á mig hugmyndum. Svona ef ykkur langar að sjá eitthvað sérstakt á þessu ágæta (helst til óvirka) bloggi. Þið finnið mig undir gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment