Ég hef verið svolítið vængbrotin í allt sumar. Systkini mín sneru austur í heimahagana í maí og ég varð eftir í Reykjavík. Alein. Eða svo gott sem. Allt í lagi, ég er aldrei alein. En það er tómlegt án þeirra. Ég verð tóm. Ég hef engan til þess að hafa áhyggjur af. Engan til þess að éta mig út á gaddinn. Engan sem hringir klukkan tvö á laugardagsnóttu til þess að biðja mig að sækja sig í miðbæinn.
Ég hef saknað þeirra. Saknað þess að vera ungamamma. Það má lesa sér til um manísku ungamömmuna hérna.
Þau eru komin aftur. Þessar elskur. Blessunarlega. Bróðir minn býr hjá mér tímabundið. Hann er búinn að vera hérna í fjóra daga og er þegar farinn að leita sér að öðrum samastað. Honum blöskrar eitthvað að hér séu stundum samlokur í kvöldmat. Ókei, þrjú kvöld í röð. Svo ofbauð honum uppvaskið á heimilinu. Sem búið er að vera í vaskinum í tvo daga. Whatever.
Jólalögin voru svo kornið sem fyllti mælinn. Já, ég var að hlusta á jólalög í gærkvöldi. Og flokka jólaskraut.
Jæja. Þó að ég sé latur sóði í jóðlandi jólagír er gott að vera búin að endurheimta þau. Svo gott.
Þannig að ég bakaði köku. Með besta kremi í heimi.
Kakan var nú bara hefðbundin frönsk súkkulaðikaka. Uppskrift að henni má finna allsstaðar. Þar á meðal í stórkostlegu bókmenntaverki eftir undirritaða. Sem kom út fyrir jólin í fyrra.
Ó, kremið sko. Kremið, kremið, kremið. Þvílík dýrð. Eins og blautur unaðsdraumur.
Ég man ekki nákvæmlega hvar ég fékk veður af þessu kremi. Mig rámar í að einhver blogglesandi hafi bent mér á það. Stórkostlegur blogglesandi augljóslega.
Gildir einu. Það er sama hvaðan gott kemur.
Brjálæðislega gott krem:
1/2 poki af Bingókúlum
1 poki karamellukúlur
1 dl rjómi
Bræðum þetta allt saman við mjög vægan hita.
Leyfum blöndunni að kólna örlítið. Smökkum til. Sleikjum. Slengjum þessu yfir kökuna.
Það var samróma álit kaffigesta að þetta krem væri það besta. Alveg það allra besta.
Fleira var það ekki að sinni.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment