Aug 24, 2015

Karrígulur


Ég fór í Kringluna í dag. Til þess að kaupa karlmannsskyrtu. Ég kom ekki út með skyrtu. Ó, nei. Heldur kjól. Karrígulan kjól. Þá sjaldan. 

Sambýlismaðurinn er í örstuttu stoppi og var með í för. Kringluferðin var hans hugmynd. Hann byrjaði á því að bjóða mér upp á kaffibolla. Vildi svo taka dálítið rölt áður en farið yrði á stúfana eftir nýrri skyrtu. Við örkuðum framhjá Vila. Ég sá glitta í eitthvað gult. Snarhemlaði. 

Ó, ég mátaði. Varð skotin. Svo skotin. Flögraði út úr mátunarklefanum og brosti mínu blíðasta framan í sambýlismanninn. Hann ljómaði eins og sól í heiði á móti. Sem er auðvitað haugalygi. Hann hristi hausinn mæðulega og muldraði eitthvað um hvað ein kona þyrfti eiginlega að eiga marga kjóla.

Góð spurning. Sem ég hef ekkert svar við. 


Við leituðum svo að skyrtu. Fundum ekkert bitastætt. Sambýlismaðurinn horfði á mig valhoppa með pokann minn. Með öfundsýkisglampa í augunum. 

,,Ánægjulegt að bjóða þér í Kringluna til þess að kaupa skyrtu. Og koma út með kjól. Ekki skyrtu. Og það ekki í fyrsta skiptið. Né annað."


Örlítið opinn í bakið. Sem er fallegt. Svo unaðslega fallegt.


Stundum stilli ég mér upp eins og ég sé með ristilkrampa. Gerist á bestu bæjum. 




Svo heppilega vildi til að naglalakkið sem ég skartaði í dag smellpassaði við kjólinn. Hah, hvílík lukka. Já, svona er ég stálheppin stundum. 

Jæja, ég á von á fólki í kvöldkaffiboð. Og með fólki á ég við systkini mín. Það hljómar bara svo fágað og frúarlegt að segjast eiga von á fólki í kaffiboð. Já. Eða eitthvað.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment