Aug 20, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ég elska Dominos. Ef það væri til land sem héti Dominos þá væri ég drottning þar. Spikfeit og ógeðslega sæl drottning. Löðrandi í osti og brauðstangasósu. Ah, ég elska brauðstangasósu. Og ost. Og pizzur. Mmm.

Sambýlismaðurinn ber hins vegar ekki sömu tilfinningar til Dominos. Því miður. Hann hoppaði þess vegna hæð sína þegar Pizza 67 opnaði á nýjan leik hérna í höfuðborginni. Hann elskar Pizza 67. Og hefur alltaf gert. Mögulega af þvi að við kynntumst á slíkum stað. Og þegar ég segi kynntumst þá meina ég fórum í sleik. Á balli. Sem haldið var í húsakynnum Pizza 67 á Reyðarfirði. Fyrir 10 árum. Einmitt já. 

Allavega. Ég var að tala um pizzur. Ekki sleikingar. Við pöntuðum okkur pizzu og hvítlauksbrauð á Pizza 67 fyrr í sumar. Almáttugur minn. Þvílík og önnur eins dýrð. Glás af áleggi. Tonn af osti. Og hvítlauksbrauðið sko. 27 stig af 12 mögulegum. 

Drottningin af Dominos hefur því afsalað sér titlinum. Pizza 67 verður það framvegis. Nema þegar drottningin stendur sveitt og hnoðar í eina heimatilbúna. Sem gerist, ehm, mjög oft. Hóst. 



Ó, ég keypti svo fallegt skóladót í Söstrene Grene um daginn. Nei, ég er ekkert að fara í skóla. Held ég. Ég er bara með ólæknandi blæti fyrir fallegum ritföngum. 

Að vísu er ég að íhuga að fleygja inn umsókn um doktorsnám. Þarf bara að selja sambýlismanninum hugmyndina. Mér skilst að sem námsmaður sé ég örlítið tæp á geði. Útúrtaugaður koffínfíkill. Með skítugt hár. Og loðna leggi. Óalandi og óferjandi með öllu.

Sem er auðvitað þvættingur. 


Já, þetta er bætiefni fyrir konur á breytingaskeiði. Og já ég er að hakka þetta í mig. Alveg alls ekki á breytingaskeiði. Ég hef heyrt að þetta geri kraftaverk fyrir hár og neglur. 

Og ég er með átta hár á hausnum. Give or take. Og brotnar neglur. Þannig að ég ætla að éta þetta áfram. Þó ég sé ennþá í fullum frjósemisblóma. 


Er ég að vinna erfiðisvinnu? Nei. Er ég að lita mig í hel? Já. 



Þegar ég fæ áhuga á einhverju þá fer ég all in. Ef við slettum aðeins. Ég er auðvitað alveg leiftrandi klikkuð að svo mörgu leyti. Svo stórkostlega manísk. Núna geri ég ekki annað en að versla liti. Í öllum útgáfum. 

Ég neyddist þó til þess að hugsa minn gang í gær.

Ég fór nefnilega í hraðbanka. Til þess að greiða fyrir nýjustu litakaup mín í A4. Af því að ég vildi ekki að fleiri færslur væru sjáanlegar frá þeirri búllu á kortayfirlitinu. Sökum þess að þær eru orðnar svo margar. Og ég ræð ekki við mig. Og ég vil bara eiga alla heimsins liti. Og krítar. Og penna. 

Já, ég get gert saklausa hluti eins og liti og litabækur að áhættuhegðun.  

Nóg um það. Feikinóg.



Ég fékk þetta að gjöf frá Noregi um daginn. Súkkulaðihjúpað Bugles. Já, ég veit að það er til einhver íslensk útgáfa af þessu. Sem bara kemst ekki með tærnar þar sem þetta norska er með hælana. Svona að mínu mati.

Og þið vitið að mitt mat er ávallt óskeikult þegar kemur að sælgæti. 

Annars væri eitt sem ég myndi meta mikils. Frá ykkur. Ég vil vita hvað ykkur finnst skemmtilegast að lesa um. Á þessu bloggi. Eitthvað sem ykkur langar að sjá meira af? Hvað er í uppáhaldi?

Ég þarf innblástur.

Sendið mér snapp - gveiga85. 

Jæja, ég þarf að halda áfram að lita. Þetta litar sig ekki sjálft.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Ef þetta bætiefni skilar ekki nægilegum árangri þá mæli ég klárlega með Hárkúr frá gula miðanum

    ReplyDelete