Ég á
tvö yngri systkini sem stunda nám hérna í höfuðborginni. Foreldrar okkar eru
búsettir fyrir austan þar sem við ólumst upp. Og sökum þess að þau eru ekki hérna á svæðinu þá hef ég fundið á mér alveg spánýja hlið. Manísku
ungamömmuna. Manísku ungamömmuna sem á þrjú börn. Ekki bara eitt.
Ég er sífellt að velta því fyrir mér hvað systkini mín eru að bauka. Hvar þau almennt eru. Hvað þau ætli að borða í kvöldmat. Hvað þau hafa borðað
yfir daginn. Hvað þau ætli að borða á morgun. Eða hinn. Eða um helgina.
Já, ég hef ferlegar áhyggjur af því að þau borði ekki nóg.
Eða séu alein að borða einhversstaðar. Jú, svo fylgist ég mjög ítarlega með þeim
á Facebook. Fylgist með er að vísu
afar vægt til orða tekið. Ég vakta þau eins og fálki. Ef mér finnst þau hafa
verið offline í óvenjulega langan tíma
þá fer ég á stúfana. Sendi skilaboð og hringi eins og trítilóð kona.
Á einum ljómandi fínum laugardegi fyrir stuttu rak ég augun
í að bróðir minn hafði verið offline í
17 klukkustundir. 17 KLUKKUSTUNDIR. Ég hringdi. Hringdi, hringdi og hringdi.
Ekkert svar. Á meðan ég gekk um gólf, ráðfærði mig við systur mína og íhugaði
að hringja á björgunarsveitina fékk ég loksins símtal til baka. Hann hafði
sofið fram eftir. Já. Jájá.
Þess má geta að núna get ég ekki séð hvort bróðurómynd mín er off- eða online. Hann hefur augljóslega slökkt á mér, bannsettur. Sem er sennilega fullkomlega eðlilegt.
Í gærmorgun skrapp sambýlismaðurinn út í búð og kom heim með
lítið lambalæri. Sem vel hefði dugað handa okkur báðum og afkvæminu. Ég horfði á lærið og
svo á hann:
HVAÐ MEÐ KRAKKANA?!?
Uuu, hvaða krakka?
Ég útskýrði mjög blíðlega fyrir honum ungamömmu-heilkennið
sem ég virðist þjást af. Hann stjáklaði möglunarlaust aftur út í búð. Muldrandi
eitthvað um að ég væri að verða meyr á gamalsaldri.
Sem er ekki satt. Ég er með stáltaugar. Stáltaugar, segi
ég. Svarta sál og smávaxið hjarta.
Stórfjölskyldan samankomin yfir þessari ljómandi fínu sunnudagsmáltíð. Allt eins og það á að vera. Ungamamma sátt og sæl á bak við myndavélina.
Já, ungamamma á talsvert fleiri kokteilglös en skálar undir meðlæti. Martiniglas undir maísbaunir - bæði smekklegt og sígilt í senn. Hún á heldur ekki samstæða matardiska. Þeir eru ekkert skemmtilegir.
Afkvæmið framkvæmdi svo töfrabrögð yfir borðhaldinu. Misgóð töfrabrögð. Blessaður anginn minn.
Stórfínt, alveg stórfínt.
Jæja, ég er farin í ísbúð. Það er mánudagur. Sem þýðir Keeping Up With the Kardashians. Fínt að slafra í sig dálitlum ís yfir þeim systrum.
Neibb. Skammast mín ekkert. Hvorki fyrir að horfa á þennan þátt eða slafra í mig ís. #noshame.
Heyrumst.
Þú ert dásamleg
ReplyDelete