Mar 31, 2013

Páskasæla.

Mikið sem ég er þakklát fyrir allt sem ég á. Já, ég er agalega væmin í dag. En það er í lagi - svona annað slagið að minnsta kosti.


Hjartans foreldrar mínir að hjálpast að við páskamatinn.


Notalegheit á meðan beðið var eftir matnum.


Pabbi að brúna kartöflur sem sennilega hefðu dugað ofan í alla heimsbyggðina.


Það þarf engin orð að hafa um þessa dásemd.


Ég fer aldrei svöng frá matarborðinu. Sérstaklega ekki hjá mömmu og pabba.




Hjálpi mér allir heilagir. Þessi kaka. Ég bara já. Almáttugur. Uppskriftin er héðan.


Sjáið þessa fjólubláu og flauelskenndu fegurð sem prýðir borðið - þetta er bara efnislengja sem mamma keypti í Rúmfatalagernum og notar sem dúk. Kemur afskaplega vel út og er ótrúlega flott á borði.


Góðir páskadagar að baki og einn dagur eftir. Ég ætla að halda áfram að njóta.

Vona að þið gerið slíkt hið sama.

Súkkulaðidagur.

páskalilja

páskaungi
Ah, einn af mínum uppáhalds dögum runninn upp. Fullkomlega leyfilegt að borða súkkulaði í morgunmat án þess að sambýlismaðurinn líti mig hornauga. 



Það er best að koma sér í teygjanlegar buxur og hefjast handa. Það er mikið verk sem bíður mín.

Gleðilega páska!

Mar 30, 2013

Drykkur dagsins.


Þetta er agalega ferskur og góður drykkur, skiptir engu máli hvort þið elskið eða hatið rauðvín - það finnst ekkert afgerandi rauðvínsbragð og allir geta verið hamingjusamir.



Í þennan drykk þarf:

Rauðvín
Fáein frosin hindber
Nokkur frosin jarðaber
Sprite

Magnið sem þið notið fer alveg eftir því hversu marga drykki verið er að blanda. 


Berin fara í blandara eða undir töfrasprota ásamt góðum slurk af rauðvíni.


Þegar berin og vínið eru orðin að mauki er blöndunni hellt í glas.


Síðan er Sprite sett saman við.


Afskaplega bragðgott. Svo eru berin líka full af trefjum sem hjálpa páskaátinu að komast hratt og vel í gegnum kerfið. Já, þetta er hollur og góður drykkur. Hollusta sem ég kann svo sannarlega að meta.

Mæli með að þið prófið.

Heyrumst.

Mar 28, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Útsýnið úr bílastæðinu mínu var vægast sagt dásamlegt í dag. Mínus snjórinn. Helvítis snjór.


Ég gat ómögulega ákveðið hvaða naglalakk væri við hæfi í svona fallegu veðri eins og í dag. Þannig að ég smurði bara allskonar litum á mig. Sumarlegt? Já. Fallegt? Það er smekksatriði.



Ég er með vandræðalegt blæti fyrir vintage sófasettum. Ég kom auga á þetta sófasett í safnaðarheimili kirkjunnar í dag. Sambýlismaðurinn harðneitaði að hjálpa mér að stela því. Hann er örlítið heiðarlegri en ég og þvertók fyrir að stela sófasetti frá kirkjunni.


Ég elska veislur. Elska þær. Ég er eins og kálfur að vori þegar ég kemst í almennilegt kökuhlaðborð.


Nýjasta áhugamálið mitt. Þetta er dót sem syni mínum var gefið. Hann hefur að vísu ekki fengið það í hendurnar ennþá því ég læt þetta ekki frá mér. Þetta er skafmynd og maður skafar í línurnar með bláa áhaldinu á myndinni. Mér finnst þetta ákaflega róandi og get setið og skafað eins og vindurinn tímunum saman. Mjög eðlilegt.

Eigið góða, gleðilega og pakksadda páska. Það er svo sannarlega mitt plan.

Mar 27, 2013

Ofnbakað eplasnakk.


Þetta er ógurlega gómsætt. Og hollt líka. Sem skemmir alls ekki fyrir þar sem ég fæ eiginlega illt í magann við það eitt að hugsa um átið sem er framundan. Æ, svo ég hakkaði líka í mig heilt páskaegg í gærkvöldi þannig að samviskan hefur verið dálítið lasin í dag.


Það sem þarf er:

2 rauð epli
2 teskeiðar kanill
1/2 teskeið múskat
1 teskeið af sykri er líka leyfileg ef manni langar. Slíkt var ekki í boði á þessu heimili í dag.

Kanill og múskat fara saman í skál. Eplið skorið í þunnar sneiðar og skellt í ofan í skálina og ,,hrært" saman við. Þegar eplaskífurnar eru orðnar vel þaktar í kryddi er þeim raðað á ofnplötu með bökunarpappír á.



Þetta fer síðan inn í 100° heitan ofn og dúsir þar í svona einn og hálfan, jafnvel tvo tíma. Þangað til skífurnar eru orðnar stökkar og fínar. Síðan þarf að hemja sig aðeins og leyfa þeim að kólna. Bannað að hakka þetta ljúfmeti í sig á meðan það er heitt. 


Ótrúlega gott. Og lyktin í húsinu á meðan þetta er í ofninum,

Namm!

Mar 26, 2013

Love Want Need.


 






Það er svo fallegt að stilla upp flottum bókum. Verst að maður þarf að selja úr sé líffæri til þess að versla bækur á Íslandi.

Ég mæli með verslunarferð á Amazon - bækurnar þar eru talsvert ódýrari. 

Dauði á brauði.


Mikið hrikalega er notalegt að vera lasin. Ennþá notalegra er að sonurinn er lasinn líka þannig að ég get ekki velt mér einungis upp úr eigin sjálfsvorkunn og volæði. 

Það er líka aldeilis ljómandi að það er korter í skil á öllum ritgerðum og prófin handan við hornið. Þá er einmitt voðalega hentugt að hafa hugmyndaflug á við ljósastaur og langa bara að liggja uppi í rúmi og deyja.

Best við þetta allt saman er að ég þarf að halda kynningu á lokaverkefninu mínu í dag fyrir framan fullt af fólki sem ég hef aldrei séð. Ég er hvítari en sængurver á sjúkrahúsi og að kafna úr gleði og hamingju.

Allt hér að ofan er kaldhæðni.

Bless.

Mar 23, 2013

Árshátíð.



Ég er óneitanlega spennt fyrir kvöldinu - enda veit ég fátt skemmtilegra en að gera mig fína. Að vera fín og drekka vín - mín uppáhalds afþreying.

Jæja, þessar lappir raka sig víst ekki sjálfar.

Gleðilegan laugardag!

Mar 22, 2013

Facemask Friday.

Ég var að enda við að þrífa af mér einn besta heimatilbúna maska sem ég hef prófað.


Í maskann þarf:

1 teskeið engifer
1 teskeið kanill
1 teskeið hunang


Þessu eru öllu hrært saman þangað til úr verður þykk og fremur ólystug leðja.


Ég notaði verulega útrunnið engifer. Vonum að það komi ekki til með að skaða mig. Kryddhillutiltekt hefur hér með verið sett á dagskrá.



Maskanum er smurt í andlitið og leyft að hvíla þar í 15-20 mínútur. Ég mæli með að þið notið skeið eða einhverskonar spaða til þess að bera þetta á ykkur því maskinn er dálítið klístraður. Það er samt ekkert mál að ná honum af með þvottapoka eða handklæði. 

Húðin á mér er eins og silki eftir þessa meðferð. Besti heimatilbúni maski sem ég hef prófað - og er ég nú ansi dugleg við að mixa hina ýmsu maska. 

Mæli með því að þið prófið. 

Mar 21, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.




Ég gaf eldgömlu hálsmeni nýtt líf með einni naglalakksumferð. 


Veggurinn á skrifstofunni minni er í vinnslu. Það er agalega gott að kíkja á þetta veggspjald þegar maður er við það að bugast og klóra úr sér augun.



Eitthvað sem nauðsynlegt er að minna sig á endrum og sinnum.


Ég get nú ekki státað mig af því að vera ein af þeim sem skreytir fyrir páskana. Ég stóðst samt ekki mátið þegar ég sá þessar gullfallegu greinar í Krónunni í gær. Búntið af þeim kostaði líka voðalega lítið. 800 kall, það hljóta að teljast kjarakaup.



Ah, nýr varalitur. Bleikur, skær og fagur. Ég mæli með því að þið kíkið á sumarlitina frá Maybelline - þeir eru unaður á að líta!


Notalegt vinkonukvöld í uppsiglingu. Hvítvín, maskar og Maltesers. Mjög góð blanda.

Eigið gott fimmtudagskvöld mín kæru.