Oct 31, 2013

Fáeinar myndir á fimmtudegi.

Ég ætla að sleppa fram af mér beislinu og taka ekki hina hefðbundnu fimm hluti þennan ágæta fimmtudag. Í staðinn fáið þið fáeinar myndir á fimmtudegi. Ég geri fastlega ráð fyrir að ykkur langi öllum að koma í heimsókn til mín - ég ætla þess vegna að bjóða ykkur í eina slíka. Rafræna heimsókn sko. Ekki koma og banka.

Þá verð ég hrædd.













Ég fékk svo fyrstu matargestina hingað í kvöld. Í þessa líka dýrindis kjúklingasúpu sem ég er búin að standa yfir síðan klukkan tvö í dag. Núna er klukkan rétt rúmlega átta og það er alveg góður hálftími síðan allir gestirnir létu sig hverfa. Ég er mögulega ekki alveg eins skemmtileg og ég tel sjálfri mér ítrekað trú um.

Allt í lagi samt. Engar áhyggjur. Ég er sjálfri mér nóg. Og eiginlega gott betur en það.

Njótið kvöldsins.

Heyrumst!

Oct 29, 2013

Fiskiputtar að hætti mágs og Gordon Ramsey.


Ég borðaði svo brjálæðislega góðan mat í gær. Myndirnar eru hörmung - aldrei slíku vant ferjaði ég ekki allt mitt myndavélarhafurtask með mér út úr húsi. Heldur var ég bara vopnuð símanum. Því miður. 

En þrátt fyrir verulega slæmar myndir þá er þetta dásamlega gott og alveg þess virði að prófa. Mágur minn er voðalega góður kokkur. Gordon Ramsey er góður kokkur. Já og hot piece of ass. Þessi máltíð getur ekki klikkað. Lofa.

Fiskiputtar:

2 ýsuflök - skorin í bita sem komast nálægt því að líta út eins og puttar
Hveiti
Egg
Parmesanostur
Eftirlæti hafmeyjunnar (krydd frá Pottagöldrum)
Salt

Ýsuflökin eru söltuð lítillega. Bitunum er velt upp úr hveiti og síðan eggi. Eftir það er þeim velt upp úr hveiti sem búið er að blanda með parmesanosti, eftirlæti hafmeyjunnar og salti. Ég spurði minn ágæta mág um mælieiningar og fékk svarið: nóg af hveiti, tvo döss af hafmeyjukryddi og slatti af parmesan. Einmitt. Að lokum er fiskurinn steiktur á pönnu.

Hérna finnið þið uppskriftina frá Gordon. Þessi hér að ofan er upphaflega byggð á þeirri uppskrift en mágur minn er nú búinn að eiga dálítið við hana. Með góðum árangri! 

Þetta var svo borið fram með fersku salsa og ofnbökuðum kartöflum. 

Salsa:

6 tómatar
1 laukur
1 chilli

Maukað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota.

Ofnbakaðar kartöflur:

Sætar kartöflur í bland við þessar hefðbundu eru soðnar í vatni ásamt salti og olíu í dálitla stund. Síðan er þeim velt upp úr olíu, salti og paprikukryddi áður en þær fara inn ofn í 20-30 mínútur á 200°.

Fljótlegt, auðvelt og hrikalega gott.

Mæli eindregið með að þið prófið!

Heyrumst.

Oct 28, 2013

Guðdómlegt mánudagsgotterí.


Þarna sjáið þið glitta í Oreokex já. Poppkorn. Og vænt magn af hvítu súkkulaði. 



Ekki nema þrjú innihaldsefni:

Full skál af poppi
Hvítir súkkulaðidropar
Mulið Oreokex


Ég væri til í að leggjast í baðkar fullt af muldu Oreoi. Með rauðvín. Og bók. Og Simon Cowell. Nei, Bill Spencer úr Glæstum. Já, höfum það Bill. Namm.


Ofnplata er klædd bökunarpappír og poppkornið fer þar á. 


Hvíta súkkulaðið er brætt í örbylgjuofni og því svo slett yfir poppið. Fram og tilbaka. Og ein skeið í munninn að sjálfsögðu.


Ég er 28 ára og sleiki ennþá eldhúsílát ef þau hafa innihaldið eitthvað gott. Líkt og bráðið hvítt súkkulaði.


Kexmulningurinn fer út á strax á eftir súkkulaðinu og öllu er hrært vel saman.


Þetta þarf síðan að dvelja í ísskáp í góðar 40 mínútur fyrir neyslu. Þetta voru mögulega erfiðustu 40 mínútur lífs míns. 



Fáránlega gott með lærdómnum á þessu ágæta mánudagskvöldi.

Ég var að vísu að koma heim úr matarboði. Og er að fara út úr dyrunum í kaffiboð. Það er heppilegt að ég hef engin takmörk þegar át er annars vegar.

Heyrumst. 

(Hugmyndin kemur héðan).

Oct 26, 2013

Föstudags.






Ég eyddi gærkvöldinu í ljómandi fínt pizzuát með systkinum mínum og mági. Ef það er eitthvað sem við systkinin eigum sameiginlegt þá er það hversu ánægjulegt okkur finnst að fóðra okkur. Og það vel. Ég yfirgaf einmitt boðið þegar til stóð að skella sér í ísferð - ég er elst, ég brenni talsvert hægar en þau og ákvað að vera skynsöm í þetta skiptið.


Ég held nú örlítið upp á þessa tvo. Bara örlítið. 


Þetta ágæta föstudagskvöld tók ég síðan að mér kattarpössun. Já ég! Án gríns. Ég sagði eigandanum að sjálfsögðu ekki frá því þegar ég varð ketti að bana í barnæsku. En það var líka óvart, kattardráp af gáleysi.

Ég var ekki sú eina sem kom að þessu slysi en tel best að viðhalda nafnleynd þeirra samseku. Við vorum fjórar stelpur. Litlar stelpur sem langaði bara agalega til þess að eiga kött. Þannig að við lögðum á ráðin um að stela eins og einu stykki. Við fórum út í bæ, fundum kött og drösluðum honum með heim.

Engin okkar þorði auðvitað að fela hann heima hjá sér þannig að við brugðum á það ráð að koma honum fyrir í búri. Og búrið settum við á tjaldstæðið á Eskifirði. Þetta var líklega í janúar eða febrúar. Það voru ekki beint ákjósanlegar veðuraðstæður til þess að dvelja í búri. 

Til að gera langa sögu stutta fannst fórnalamb okkar dáið morguninn eftir. Hann hafði auðvitað frosið í hel vesalings skinnið. Hrikalegt alveg hreint. Og að sjálfsögðu ekkert nema gáleysi. 



Kötturinn sem ég passaði í nótt er hinsvegar ennþá á lífi. Ég kom að henni í villtum ástarleik með tuskudýri fyrir klukkan sjö í morgun. Það var rétt eftir að hún vakti mig með því að setjast á hausinn á mér og sleikja á mér eyrað. Mér dauðbrá auðvitað þannig að ég stökk öskrandi á fætur. Kisi fauk á gólfið - gjörsamlega dauðskelkaður.

En hún er lifandi. Ennþá. Það er fyrir mestu.

Heyrumst.

Oct 24, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég keypti þessa voða fínu dúska í Ikea í gær. Ég var fullviss um að þeir myndu nú aldeilis sóma sér vel í svefnherberginu. Nah, mér skjátlaðist. Allt í einu leit svefnherbergið út eins og herbergi hjá fermingarstelpu. Ekki gengur það upp. Þeim verður því fundin ný staðsetning hið snarasta. 


Ég er ekki búin að dvelja hérna í viku og er strax búin að gjöreyðileggja eitt stykki ljós. Ég tók þetta auðvitað alla leið. Það dugði mér ekkert bara að brjóta glerið. Ég þurfti að rífa það hálfpartinn niður úr loftinu líka. 
Nei, það fær ekki að fylgja sögunni hvað ég var að bardúsa.



Ó, þessi bölvaða kaka er komin í búðir. Ekki misskilja mig - ég er einn mesti jólaþjófstartari sem hægt er að finna. En ég get ekki látið þessa köku öskra á mig í hvert skipti sem ég stíg inn í matvörubúð næstu TVO mánuði. Fjárinn. Það er vissara að kyssa gallabuxurnar sínar bless. 



Þetta er eitt það besta sem ég hef látið inn fyrir mínar varir. Og fer nú ansi margt matarkyns þar inn.
Þetta lítur kannski ekkert alltof vel út af því þetta var framreitt í sumarbústaðarferð eftir fáein hvítvínsglös. Þetta er sem sagt stór ostur - Ljúflingur, Öðlingur eða hvað þeir nú heita. Og ein krukka af Mango Chutney og inn í ofn þangað til allt er orðið verulega bráðið og girnilegt. Mmm. Namm.


Sko. Á mánudaginn fór ég í skólann í svartri loðpeysu einhverskonar. Í dag tók ég eftir því að skólataskan mín var öll í svörtum hárum. Sem líta út eins og já. Þið vitið hvert ég er að fara. Skaphár. Já. Ég sagði það. Sem merkir að ég er búin að ganga um með töskuna svona útlítandi í fjóra daga án þess að veita því athygli. Smekklegt. Mjög smekklegt.

Jæja. Ég ætla að fara að fá mér meiri jólaköku. Ekki borðar hún sig sjálf.

Eigið gott fimmtudagskvöld.

Heyrumst!

Oct 22, 2013

Hversdagsleikinn.

Suma daga er hversdagsleikinn ansi ljúfur og góður.


Þegar maður hefur stundað fjarnám í næstum fjögur ár er fáránlega skemmtilegt að mæta annað veifið í skólann. Vandræðalega spennandi. Svo hressandi að ég splæsti í speglamynd og bros fyrir klukkan tíu í morgun. Slíkt er sjaldséð.


Þegar maður hefur verið aleinn, innilokaður og talandi við sjálfa sig í fáein ár verður Þjóðarbókhlaðan auðveldlega með fegurri stöðum á jörðinni. Dásamlega þögul en samt iðandi af lífi. Rándýrt kaffi sem var líklega lagað í fyrradag verður hinn ljúfasti sopi. Samloka með skinku og osti á 550 krónur náði ekki einu sinni að slá mig út af laginu.

Ah, svo er líka sól úti.

Heyrumst.

Oct 20, 2013

Jellovínber.


Þetta er kannski örlítið undarleg hugmynd. En sko. Þetta er gott. Verulega gott. Ég lofa.


Í þetta þarf nýskoluð vínber. Þau eiga að vera rök - ekki rennandi blaut. 


Tveir pakkar Jello. Sitthvor bragðtegundin. Þetta má velja eftir smekk bara.


Jelloduftið er hrist saman í poka. Og já, þetta er nýtt naglalakk sem þið sjáið glitta í. Ég er búin að vera svo dugleg að læra um helgina að ég átti vel skilið fimmtán ný naglalökk. En ég er nægjusöm og keypti bara eitt.


Jelloblöndunni er hellt á disk, vínberin þar ofan á og þeim velt vel og vandlega upp úr. 


Síðan má njóta. Það er ægilega gott að sjúga duftið af.

Namm!

Það má víst gera þetta við frosin vínber líka. Ég hafði ekki þolinmæði í slíkt.

Þið verðið að prófa!

(Hugmyndin kemur héðan).

Oct 19, 2013

Bits and bobs.

 
Ég fór í ansi ljúfan hádegisverð með elsku ömmu minni í gær. Jú og ómyndaðri móðursystur minni líka. Ferlega notalegt. Að sjálfsögðu kíktum við á fáein skópör í leiðinni. Og snyrtivörur. Og ilmvötn. Og töskur. Ég keypti samt ekki snifsi. Plús fyrir það.

 
Ég á ekki í vandræðum með að raða í mig sushi í öll mál. Ég fékk mér sushi í hádeginu með ömmu í gær. Í gærkvöldi slysaðist ég svo óvart inn í Ikea. Þar var hægt að fá sushi. Og hvítvín. Á rúmlega 1600 krónur. Það þarf ekki að ræða það mál frekar.

 
Ég átti samt í virkilegri innri baráttu í Ikea í gær. Hvort vildi ég hangikjöt eða sushi? Ó hangikjöt, grænar baunir, rauðkál og jólaöl. Sushið vann í þetta sinn. Bara af því hvítvínið var svo fjári ódýrt.

Ég dró systkini mín með mér í Góða hirðirinn. Þeim til mikilla ama. Ég er sú eina í fjölskyldunni sem hefur sérlegan áhuga á flóamörkuðum. Sú eina sem gengur í fötum af flóamörkuðum. Stillir upp húsgögnum af flóamörkuðum. Les bækur sem keyptar eru á flóamörkuðum. Já. Ég elska flóamarkaði.

 
Talandi um bækur - ég dröslaði þessum með mér úr Góða hirðinum. Ansi fín kaup. Tjah, fyrir fólk sem kann að elda og stundar líkamsrækt. Sem sagt ekki mig.

Í dag voru liðnir 17 dagar síðan ég borðaði bingókúlu síðast. Ég var orðin hrædd um að setja Helga í Góu á hausinn og ákvað að sturta í mig einum poka. Ég ætla aldrei að hætta að borða bingókúlur aftur. Lífið er hreinlega of stutt. 

Mikið af símamyndum rata inn á Instagram - ykkur er velkomið að eltast við mig þar, @gveiga85.

Heyrumst.