Dec 29, 2014

Tíu mest lesnu.

Jæja. Rúllum saman yfir farinn veg. Hvað vakti mesta lukku hjá ykkur árið 2014? Ég nennti ekki að raða þessu í neina sérstaka röð - þetta eru sem sagt þær tíu bloggfærslur sem fengu hvað mestan lestur á árinu. Í engri sérstakri röð. Eins og áður sagði. Einmitt - hefjumst handa.

Spennandi? Já!

10. Hvar voruð þið - sagan af fyrstu ræktarferð ársins. Ömurleg ferð sem það var. Helvítis verðmiðar.


9. Mánudagsverkefni: Smokey-eye - þessi færsla vakti ekki athygli út af hæfileikum mínum á sviði förðunar. Þvert á móti. Ég játaði það hins vegar á mig að þrífa ekki alltaf á mér fésið fyrir svefn. Fara kafmáluð í bólið. Hefði betur látið það ógert.

Inni á Kynlegum athugasemdum (sem er hópur á Facebook) var ég úthrópuð sem erkióvinur femínista. Konan sem vildi stuðla að því að konur létu aldrei sjá sig ómálaðar. Hvorki í svefni né vöku. Konur ættu að fara að sofa sætar. Og vakna sætar. Blablabla. Allt má misskilja. 

8. Morgunstund - þessi færsla var mikið lesin. Mögulega út af undarlegu skyrblöndunni. Það er einmitt mjög skrýtið til þess að hugsa að morgunstundir mínar í Breiðholti verða ekki fleiri. Í bili að minnsta kosti. Eftir áramót hef ég búskap á Gunnarsbraut. Það leggst ferlega vel í mig. 


7. Miðnætursnarl - þetta bras með eplið er ein mest skoðaða uppskrift frá upphafi. Undarlegt nokk. Gott samt. Mjög.


6. Stutt - ég klippti mig stutt. Tók 938 speglamyndir af því. Dauðsá svo eftir öllu saman. Fékk mér hárlengingar viku síðar. Ég klippi mig aldrei aftur. Aldrei. 


5. Brownie með Marsfyllingu - hér þarf engin orð. Eða kannski bara fjögur. Besta. Kaka. Í. Heimi.


4. Aldrei aftur - ég átti margar misgóðar flugferðir á árinu. Þessi var án efa sú versta.

3. Ææææ, Guðrún Veiga - ah, þegar ég týndi bílnum mínum fyrir utan Nettó. Góð saga. Ógeðslega vandræðaleg. En góð.

2. Með brókina í töskunni - ekki vera að þvælast um með nærbuxur í töskunni. Það er aldrei góð hugmynd. Að minnsta kosti ekki í mínu tilfelli.


1. Hinsta kveðja - þessi færsla var lesin. Almáttugur minn. Hún var sko lesin. Daginn sem hún flaug á veraldarvefinn heimsóttu tæplega 20.000 manns bloggið mitt. Á einum degi. Brjóstin á mér hafa augljóslega gríðarlegt aðdráttarafl. Þó smávaxin séu. 


Enginn varanlegur skaði hlaust af þessari uppákomu. Við erum öll í heilu lagi. Bæði ég og júllurnar.

Heyrumst.

Dec 28, 2014

Fyrir áramótaboðið.


Jæja, hvað höfum við hérna? 

Tvær brakandi ferskar blöndur fyrir gamlárskvöld. Hver hefur svo sem lyst á bjór þegar búið er að stúta þriggja rétta máltíð og að minnsta kosti þremur snakkpokum yfir skaupinu? Jú og unaðslegum karrítartalettum að hætti mömmu? Ekki ég. Tjah, ég myndi auðvitað drekka bjórinn ef hann væri það eina í boðinu. Láta mig hafa það. 

Allavega.

Þessar mixtúrur eru einstaklega ljúffengar. Og stórkostlega hentugar í vel kýlda vömb.


Sangría:

1 flaska af góðu rauðvíni
1-2 skot af gini
½ líter engiferöl
½ líter appelsínusafi
Smá sykur - best að smakka sig til
Sprite eftir smekk
Nóg af appelsínum, sítrónum og lime

Blandið öllum vökva saman. Sykrið eftir smekk. Smakkið, smakkið og smakkið. Ef ég hef nægan tíma til þess að bardúsa við blönduna þá sker ég niður ómælt magn af ávöxtum og legg þá í rauðvíns-, sykur-, og ginbleyti í góða 4 klukkutíma. Það gerir bragðið af sangrínunni svo miklu betra. 

Ávextirnir verða að vísu bráðdrepandi. Whatever.


Hvítvínssangría:

rúúúmlega ½ flaska af hálfsætu hvítvíni 
1 skot af ferskjulíkjör (má vel sleppa því)
1 bolli engiferöl
perusíder
sprite
lime
kantilópumelóna
ananas
jarðaber
frosin hindber
myntulauf

Hellið víninu og líkjörnum í könnuna. Skerið niður melónu, ananars og jarðaber. Setjið út í vínið ásamt frosnu hindberjunum. 

Ég nota ekki klaka í þessa sangríu – set bara þeim mun meira af frosnum berjum í ýmsum útgáfum. Kreistið hálft lime út í og skerið hinn helminginn í sneiðar sem einnig fara í könnuna. Tætið slatta af myntulaufum og bætið þeim við. Fyllið síðan upp í með Sprite og perusíder í jöfnum hlutföllum.

Glettilega góðar blöndur. Báðar tvær. Lofa.

Heyrumst.

Dec 27, 2014

Par exelans.


Þessi jól hafa verið með ljúfasta móti. Róleg og notaleg í senn. Svefnmynstur mitt er orðið eins og hjá hvítvoðungi. Neyslumynstrið líka. Tveir daglúrar. Í það minnsta. Og ef ég er ekki lúrandi þá ligg ég einhversstaðar með galopið ginið og bíð þess að einhver fylli það kræsingum. 

Kósíheit par exelans.




Þessi fékk óþarflega mikið af fjarstýrðum tryllitækjum. Þar á meðal þyrlu sem hann flaug inn í hárið á mér í gærkvöldi. Með tilheyrandi öskrum og geðsýki. Það fór þó betur en á horfðist. Fáeinar hárlufsur féllu í valinn. Höfuðleðrið er blessunarlega enn á sínum stað. 



Undirrituð með rjómaskál í hönd. Algeng sjón á þessum árstíma.





Hið háglansandi jóladress. Keypt í Vila í haust.


Hefð sem ég elska. Og hata að elska.

Eftir miðnætti á aðfangadag er alltaf vel mæjónesaður kaffitími. Af því allir eru svo rosalega svangir. Eða ekki.



Heimalagaða kakóið hans pabba er grundvallaratriði í þessum kaffitíma. 



Pabbi jóðlaði öllum út á göngu á jóladag. Ég notaði aðdráttarlinsu í þessa myndatöku. Ég var stödd mjög neðarlega í brekkunni. Að gefa upp andann. Eins og nírætt gamalmenni með gangráð og göngugrind. 




Jæja. Ég er að hugsa um einn lúr eða svo. Búa til pláss fyrir kvöldmatinn.

Heyrumst fljótlega.

Dec 24, 2014

Jólahjól.


Síðustu dagar hafa farið i að undirbúa jólin. Á hraða ljóssins.


Einbeitt við innpökkun. Og vel hlébarðamynstruð. En ekki hvað. 




Ég næli mér alltaf í fáeina fiskikassa fyrir innpökkun. Það er jú með öllu óþolandi að pakka inn einhverju sem ekki er kassalaga. Bræður mínir fá til dæmis ávallt brækur í fiskikassa. Mjög lekker. 


Faðir minn, skötumeistarinn mikli. 


Skötu- og pylsuveisla í bígerð. 




Ég bauð upp á Ris a la mande í hádeginu í dag. Með glimmeri. Að sjálfsögðu.


Mágur og afkvæmi stauta sig fram úr samsetningu á fáránlega flókinni Legoþyrlu. 


Þetta er svo staðan í augnablikinu. Ullarteppi og sjóðandi kaffibolli. Rjúpnalyktin er að skríða út úr eldhúsinu. Konfektið í seilingarfjarlægð. Afkvæmið með ómyndaða galdrasýningu hérna á stofugólfinu. Allt eins og það á að vera.

Ég sendi ykkur hugheilar jólakveðjur héðan úr sófanum elskulegu lesendur. 

Njótið til hins ítrasta.

Heyrumst.

Dec 22, 2014

Bits & bobs.


Jæja. Þá er þessari vertíð lokið. Svo gott sem. Allar bókakynningar eru að baki. Ég ætla aldrei að handleika poppkorn aftur. Bara aldrei. Rúmlega 8000 skammtar af poppi í allskonar útgáfum. Ég legg ekki meira á ykkur. Eða mig. Almáttugur minn. 

Þarna er ég á Akureyrarflugvelli að óska þess að til væru tvö eintök af mér. Ég átti flug eldsnemma á síðasta laugardagsmorgun. Svaf að sjálfsögðu yfir mig. Keyrði Yaris inn í snjóskafl og festi hann þar. Mér lá svo á að ég hrifsaði bara töskuna mína og hljóp inn á flugvöll. Hvar bíllinn minn er núna, nei ég veit það ekki. Kemur í ljós. 


Jú, þið sjáið rétt. Hérna skarta ég atriði númer eitt á óskalistanum mínum. Já, ég rellaði. Rellaði þangað til ég var orðin blá í framan. Niðurstaðan var útskriftargjöf. Tekin út fyrirfram. Eins og allar mínar gjafir. Ég er ekki búin að ná misserinu þó. 

Seinni tíma vandamál. 


Ég er að horfa á Hell´s Kitchen þessa dagana. Slefandi. Bráðnandi. Hugsandi. Já, mjög dónalegar hugsanir.  Sjá hann Ramsay minn. Stórgert andlitið. Hrukkurnar. Úfna hárið. Úff, ég þarf stundum að slá mig utan undir. Mmm. Lendar mínar loga. Jájá. 


Alein á kaffihúsi á Akureyri. Að gæða mér á Irish Coffee. Eðlilega.


Stórfínn kjóll úr Gyllta kettinum. 3000 krónur. Við látum það vera.


Ég fór á tónleika með Bubba í gærkvöldi. Ég ætla ekki að skrifa neitt óviðeigandi hérna. Ekki neitt. Vesalings fólkinu við hliðina á mér hefur þó sennilega langað að löðrunga mig. Og það fast. Ekki veitti af sko. Ó, Bubbi. Bubbi minn, elsku Bubbi. 


Ég var svona hress í gærkvöldi.


Aðeins minna hress í morgun. Í kolvitlausu veðri að keyra austur frá Akureyri. Þetta er uppáhalds sjónarhornið mitt. Eina sjónarhornið þar sem ég virðist vera með brjóst.

Jæja. Ég þarf víst að fara að undirbúa þessi jól. Var búin að hlakka afskaplega til að snöflast aðeins með afkvæminu. Ég lýsti fyrir honum áðan öllu sem við ættum eftir að gera. Skreyta piparkökur, búa til piparkökuhús, baka og skreyta. 

,,Þú skalt bara. Ég ætla að kveikja á mynd og slaka á."

Áfram gakk.

Heyrumst.

Dec 17, 2014

Bestu kökurnar.


Uppáhalds smákökurnar mínar eru mömmukökur. Nenni samt ekki að baka þær. Ég mikla það alveg agalega fyrir mér að búa til smjörkrem og smyrja því á óteljandi kökur. Búa til samlokur. Voða vesen. Ég ét líka alltaf svo mikið af eintómu kreminu að það dugir ekki til. Þá þarf ég að fara að búa til meira. Djöfulsins bras sko.

Ég á hins vegar mína velgjörðarmenn sem ég færi ávallt tóman dunk fyrir hver jól. Dunkinn fæ ég síðan til baka sneisafullan af  himneskum mömmukökum. Mjúkum, ilmandi og unaðslegum. Sem ég borða upp til agna. Án þess að gefa með mér.


Þessar kökur eru einnig í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru úr kökublaði Gestgjafans frá árinu 2010. Þetta er því fimmta árið sem ég galdra þær fram úr erminni. Ferlega einfaldar og algjört hnossgæti. Eins og allt sem er með dálitlu hafrabragði. Mmm.

Hafrakökur með rúsínum & súkkulaði:

300 gr hveiti
375 gr sykur
150 gr haframjöl
1 tsk matarsódi
240 gr smjörlíki
2 dl rúsínur
125 gr suðusúkkulaði, saxað
2 egg
100 gr brætt súkkulaði, til skrauts


Blandið öllum þurrefnum saman og myljið smjörlíki út í. Hnoðið vel saman. Bætið rúsínum, súkkulaði og eggjum í skálina. Blandið vel. Búið til litlar kúlur úr deiginu og þrýstið á ofnplötu klædda bökunarpappír.

Ekki smakka deigið. Heilræði frá mér. 



Bakið kökurnar við 200° þangað til þær verða ljósbrúnar að lit. Kælið. Bræðið gott súkkulaði. Slettið yfir.



Mjólkurglas og tvær kökur. Fjórar samt helst. Mér skilst að það sé ljúffeng blanda. Ég drekk hins vegar ekki mjólk. 

Pepsi Max og fjögur stykki fyrir mig. Namm.

Heyrumst.