Oct 20, 2015

Áfram veginn



Ég hef alla tíð leitast við að vera hreinskilin hérna á blogginu. Fegra hlutina ekki um of. Eftir fremsta megni hef ég reynt að vera einlæg. Sem hefur kannski ekki alltaf tekist hérna í hörðum heimi internetsins. En þið vitið, ég reyni.

Takmark mitt hefur verið að vera manneskjuleg. Eðlileg. Ókei, ég verð sennilega aldrei talin sérstaklega eðlileg. Jæja. Ég hef í það minnsta haft það að leiðarljósi að vera einhver sem fólk getur samsamað sig við. Engar glansmyndir. Ekkert kjaftæði. Svona oftast.

Sem bloggari hef ég aldrei haft neitt sérsvið. Nema kannski kaldhæðni og kjánalæti. Og kaupsýki á köflum. Annars hef ég tekið dansspor á öllum sviðum. Förðun, matur, tíska, móðurhlutverkið, heimilið - nefndu það, ég hef tekið fáein dansspor. Skrifað misáhugaverðar færslur. Um allt og ekkert. Í heil þrjú ár. 

Mikið af skrifum mínum eru af persónulegum toga. Sama hvað ég skrifa um. Mér tekst yfirlett að troða hvers kyns persónulegum upplýsingum eða sögum inn í öll mín skrif. Stundum þykir fólki í kringum mig nóg um. Sumum finnst ég jafnvel segja of mikið. Að ég sé of persónuleg. En það er allt í lagi. Það mega allir hafa sína skoðun. Það er þó ég sem er við stýrið. Ég ræð. 

Ég líka þurft að læra að ég er ekki allra. Og sætta mig við það. Sem tók mig langan tíma. Óþolandi þetta helvítis skoðanafrelsi. 


Gott og vel. Hvað um það. Í þrjú ár hef ég skrifað um bæði sorgir mínar og sigra. Hæðir og lægðir. Lífið eins og það leggur sig. Þessi sneið mín af internetinu er því eiginlega orðin órjúfanlegur hluti af mér. Þess vegna þarf ég alltaf að skrifa um það þegar dregur til tíðinda í mínu lífi. Sama hvort tíðindin eru góð eða slæm. Stór eða smá. 

Mér finnst líka gott að skrifa mig frá hlutunum. Horfa á þá á blaði. Eða skjá. Og hætta að velta þeim um í höfðinu á mér. Ef svo má að orði komast.

Ókei, núna haldið þið sennilega að ég sé ólétt. Jafnvel að einhver sé dáinn. Nú eða að þið eruð löngu hætt að lesa af því ég er alltaf góðan klukkutíma að koma mér að efninu. 

Jæja. Here goes.

Ég missti vinnuna. Eða er að missa hana. Vegna ástæðna sem ég kem ekki til með að útlista nánar hér. Og viðbrögð mín við því hafa verið önnur en mig óraði fyrir.

Þetta átti sér stað fyrir tæpum mánuði. Ég vissi alveg í hvað stefndi. Eða hluti af mér hafði lúmskan grun. Og var ég handviss um að ég tæki þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Onwards and upwards, þið vitið. Ekkert mál. Ég er svo mikill nagli. Jújú. Einmitt.

Nei. Ekki alveg. Það hefur farið lítið fyrir naglanum í októbermánuði. Í fyrstu grenjaði ég. Ógeðslega mikið. Svo varð ég reið. Alveg bálreið. Síðan ætlaði einhverskonar höfnunartilfinning mig lifandi að drepa. Gjörsamlega steindrepa. Ah, svo var það skömmin já. Helvítis skömmin. Hún gerði aldeilis vart við sig líka. Þessu skyldi enginn fá að komast að. Aldrei. Nema kannski mínir allra nánustu.

Í gærkvöldi lá ég svo hérna í sófanum. Í einhverja fjóra klukkutíma. Í svakalegasta kvíðakasti sem ég hef fengið. Á tímabili hélt ég að ég væri að fá snert af taugaáfalli. Ef það er mögulegt. Þegar ég náði loks að henda reiður á hugsunum mínum þá helltust yfir mig allar þessar tilfinningar. Tilfinningar sem höfðu reglulega skotið upp kollinum síðustu vikur. En ég bægt jafnóðum í burtu. Og haldið áfram að vera hress. Hrikalega hress.

Þetta eru augljóslega tilfinningar sem ég þarf að gera upp. Og hefst uppgjörið með þessum skrifum. Ég veit að þannig verður þungi fargi af mér létt. Þetta er líklega ekki stærsta áfall sem ég á eftir að verða fyrir á lífsleiðinni. Ég veit það vel. Það er engu að síður vont að líða svona. Vont að úthúða sjálfri sér í sífellu. Vont að skilja ekki af hverju manni líður eins og hráka á Laugaveginum.

Ég er samt ennþá að reyna að skilja af hverju mér hefur liðið svona. Af því nú hef ég engar stórkostlegar áhyggjur af framtíðinni. Þannig séð. Ég á 38492 drauma sem ég á eftir að eltast við. Doktorsnám sem mig langar að klára. Mögulega eru fleiri námsleiðir þarna úti sem ég hef augastað á. Ein eða tvær. Eða fjórar. Ræðum það síðar.

Ah, þetta var gott. Þungt farg og allt það.

Onwards and upwards.

Heyrumst.

Oct 13, 2015

10 hlutir sem hressa mig við


Sumir dagar eru góðir. Aðrir dagar eru aðeins verri. Daganir sem þú færð synjun á kortið þitt í Bónus. Eða þegar þú reynir að kaupa 1500 króna kjól í Rauða krossinum. 

Dagarnir sem þú brýtur nögl og tyggjóið þitt hrekkur ofan í þig. Og þú gúgglar hvort það sé óhollt að gleypa tyggjó og ferð af hafa áhyggjur af krabbameini í brisi eða vélinda.

Dagarnir sem þú áttar þig á því í lok vinnudags að þú ert með skítugt hár og varalit á tönnunum. Eða spínat á milli framtannanna og það eru góðir fjórir tímar síðan þú ást helvítis salatið
.
Dagarnir sem þú áttar þig á því á miðnætti að það er gat á rassgatinu á buxunum þínum. Og þú fórst í þær um morguninn. Og skrappst á miðbæjarrölt, í Bónus og á virðulegan foreldrafund. Brókarlaus.

Dagarnir sem þér finnst þú einfaldlega vera ljót. Og 8000 þúsund króna meikið sem þú keyptir fyrir afmælispeningana frá mömmu og pabba er einfaldlega ekki að gera þér neina greiða.

Dagarnir sem þú ætlaðir í ræktina en endaðir á Dominos. Og svo á nammibarnum í Hagkaup. Af því þú varst hvort eð er búin að éta bróðurpartinn af 16“ pizzu. Og brauðstangir.

Það eiga allir svona daga. Vona ég.

(Og áður en virkir í athugasemdum fara að deila þessari færslu með orðunum ,,Vó, sú á við stór vandamál að stríða. Vona að henni svelgist ekki á dýra meikinu sínu á meðan hún þjalar á sér neglurnar og bíður eftir að pizzan kólni“, þá skulum við hafa á hreinu að þetta er til gamans gert. Textinn hér að ofan er að sjálfsögðu litaður kaldhæðni. Og núna er ég farin að útskýra mig. Það kann ekki góðri lukku að stýra. En já. Ég er vissulega meðvituð um að dagar eins og ég lýsi hér að ofan teljast ekki til slæmra daga – ef ræða á um svoleiðis daga af fullri alvöru).

Ókei, allavega.

Suma daga finnst manni afar fátt ganga upp. Smávægilegar uppákomur geta komið manni fullkomlega úr jafnvægi. Skapið verður snautlegt. Allt verður ómögulegt. Skítt og óskemmtilegt. 

Hérna eru 10 hlutir (eða leiðir) sem ég nota til þess að hressa mig við á slíkum dögum.


Ritföng af öllu tagi

Ég elska að handleika fallegar stílabækur. Dagbækur. Blýanta. Penna. Að skoða og skipuleggja mitt fáránlega stóra ritfangasafn veitir mér dálitla hugarró. Ég tala nú ekki um rúlla yfir dagbókina mína (dagbækurnar, ókei) og strika yfir þau verkefni sem ég er búin að ljúka. Fullnæging. 

Já, ég sagði það.



Jú, það er vissara að vera byrjuð að skipuleggja árið 2016.

Að keyra Reykjanesbrautina

Kannski það furðulegasta á þessu lista. Ég veit ekki. Ég hreinsa hugann hvergi betur. Og fyrir vikið fer ég óþarflega oft til Keflavíkur. Þegar ég var að skrifa bókina mína í fyrra keyrði ég stundum þangað tvisvar á dag. Sem var mjög heimskulegt. Og dýrt. En það er allt önnur saga.


Blindsker

Að hlusta á Bubba syngja Blindsker. Helst svo hátt að ég fæ hjartsláttartruflanir. Ég hlusta á það fimm til sex sinnum í röð. Tromma og jafnvel slamma í takt. Verð eins og ný manneskja á eftir.

Súpa

Góð súpa getur alveg lyft andanum aðeins. Gert mig dálítið hressari. Ég nenni reyndar aldrei að elda súpur. En bollasúpur virka líka alveg ágætlega. Stundum nenni ég ekki einu sinni að sjóða vatn. Og hræri þær bara beint út í heitt vatn. Það er ekkert rosalega gott. Einmitt já, allt önnur saga.


Nýþveginn þvottur 

Lykt af nýþvegnum þvotti. Eða aðallega af mýkingarefni. Mmm.

Hljómar kannski undarlega en gefum ímyndunaraflinu aðeins lausan tauminn. Þið opnið flöskuna. Stingið nefi að stút. Dragið að ykkur andann. Ahh. Blóm, fuglar og vinalegar býflugur. Ó, það er eitthvað þarna sem fær sálina til þess að syngja. Ókei, kannski blístra mjög lágt. En lyktin af mýkingarefni lyftir andanum örlítið. Og stundum þarf ekki meira.

Að hringja í mömmu

Já, ég hringi ennþá í mömmu út af öllum andskotanum. Og hún heyrir það á því hvernig ég segi hvort ég er hátt uppi eða langt niðri.

Að skrifa

Hvers kyns skriftir hressa mig alltaf við. Sama hvort það er fyrir bloggið eða pár í einhverja af mínum mörgu minnisbókum. Eða á pappírssnifsi. Sem eru úti um alla íbúð. Já, mér fylgir eiginlega skaðlegt magn af pappír.


Bingókúlur

Ekki segja mér að borða ekki yfir tilfinningar mínar. Ég ét það sem ég vil. Þegar ég vil. Og stundum þarf ég bara lúku af Bingókúlum og svellkalda dós af Pepsi Max. Og það er bara allt í lagi.


Að naglalakka mig

Það róar mig niður að naglalakka mig. Ég þarf að vanda til verks og gleymi öllu öðru á meðan. Að vísu er ég mögulega búin að þróa með mér krónískan höfuðverk vegna þess að ég er alltaf naglalakkandi mig. Stofan lyktar stundum eins og eiturefnaverksmiðja. Af því ég er að nota fjóra liti í einu. Og er jafnvel að fara þriðju umferð.

Kaffi

Góður kaffibolli getur lagað margt. Ekki það að Euro Shopper kaffið sem ég mata Senseo-vélina mína á geti nokkurn tímann talist góður bolli. Því fer fjarri. En ég læt það þó stundum duga. Sest fyrir framan stofugluggann. Glápi inn til nágrannanna. Eða þið vitið, út í garð. Gleymi stað og stund.

Úff, ég eftir að sakna Gunnarsbrautar. Mikið. Mjög mikið.

Jæja. ég er að fara að naglalakka mig, drekka kaffi og hlusta á Bubba.

Þrjár flugur í einu höggi.

Þíð finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Oct 10, 2015

Með Nutella og Oreorjóma


Mæðginin á Gunnars ákváðu að gera vel við sig á þessum fallega laugardagsmorgni. Eða ég ákvað það. Vegna þess að mig langaði að prófa þennan rjóma. Afkvæmið var meira í því að röfla. Og vola. Af því að vöfflubakstur og myndataka tóku góða klukkustund. 

Og vesalings barnið aðframkomið af hungri. Alveg að steindeyja að eign sögn. Lífsmörk hans voru þó eðlileg þegar hann loksins fékk að borða.


Ég mæti stundum ákaflega litlum skilningi sem bloggari. Sérstaklega hérna inni á eigin heimili. Myndir fyrst. Matast svo. Þetta eru nú ekki flóknar reglur. 

Jú, vissulega taka myndatökur mínar dágóðan tíma. Of langan tíma vilja sumir meina. Stundum fer ég í fýlu. Grýti frá mér myndavélinni. Kalla alla í kringum mig hömlulausar ofætur. Og þykist með engu móti skilja af hverju fólk getur ekki hinkrað í hálftíma, ókei þrjú korter, með að byrja að borða. 

Af því ég myndi pottþétt sýna slíku skilning. Pottþétt. Ég gæti alveg setið tímunum saman með kræsingar fyrir framan mig. Án þess svo mikið sem að snerta þær.

Einmitt já. 

Ókei. Að máli málanna. Vöfflur. Nutella. Og Oreorjómi.



Nei, ég get ekki gefið neina uppskrift af vöffludeigi. Nema þessa flösku. Og fjóra desilítra af mjólk.


Mölvum einn pakka af Oreokexi gróflega.


Hrærum varlega saman við þeyttan rjóma.

Ég setti örlítinn flórsykur út i skálina líka. Af því kexkökur og rjómi var bara ekki alveg nógu sætt.


Lífsgæði mín hafa aukist til muna eftir að ég verslaði þessar notuðu Iittala skálar. Ég get svo guðsvarið það.


Smyrjum vöffluna með Nutella. Fleygjum vænni slummu af rjóma ofan á.


Kexið mýkist í rjómanum. Mmm. Ég elska rjóma. Og Nutella. Og Oreo.

Þetta var gott.

Samt betra með sultu samkvæmt afkvæminu. En hann var auðvitað svo soltinn að hann hefur sennilega verið með óráði. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Oct 7, 2015

Í fínni kantinum


Hversu mikið getur ein kona fjasað um kjóla? 

Ehm, alveg ógeðslega mikið. Augljóslega. 

Kjólar. Af hverju kjólar? Alla daga, alltaf. (Ég ímynda mér að þið séuð að velta þessu fyrir ykkur. Þó sennilega standi flestum á sama hvort ég klæðist kjól, buxum eða klepruðum nærbuxum). 

Klepraðar nærbuxur. Oj. Þið finnið mig aldrei í slíku. Enda er ég almennt sjaldan í nærbuxum.
Hah, djók. Eða já. Nærbuxur eru óþægilegt fyrirbæri. Einmitt já.

Ókei. Kjólar. Ekki nærbuxur. 

Kjólar eru öryggisnetið mitt. Hafa verið það síðan ég var unglingur. Ég á auðvelt með að finna kjóla sem passa. Buxur eru allt annar handleggur. Eða hafa verið það í gegnum tíðina. Kjólar hafa svolítið verið vinir mínir í gegnum súrt og sætt. Þykkt og þunnt - bókstaflega. Ég hef alltaf getað smeygt mér í kjól, sama hvaða kona hefur mætt mér í speglinum hverju sinni. Buxur, tjah - þær hafa ekki alltaf verið mér hliðhollar. Bölvaðar. 

Kjólar eru líka eitthvað sem ég nota til þess að undirstrika að ég sé kvenmaður. Ég er svoddan helvítis bredda. Þokki minn er á pari við starfsmann á olíuborpalli. 


Ó, ég rakst á þennan um helgina. Í Vero Moda. Ég var að aðstoða systur mína við afmælisgjafakaup. Við keyptum auðvitað enga afmælisgjöf. Af því ég eyddi góðum 45 mínútum inni í mátunarklefa að rökræða við sjálfa mig. 

Ég er mjög léleg aðstoðarkona. 

Ég er talsvert betri í rökræðum. Sérstaklega við mig sjálfa. Ég sannfærði mig einfaldlega um að ég ætti ekki nóg af fötum í fínni kantinum. Ég er ágæt í hversdagsdeildinni. En fínni deildin - hana má bæta. 

Það var eins og við manninn mælt. Kjólinn var seldur. Settur í poka. Ég húrrandi hress. Systir mín eitthvað minna. 


Róleg, Tyra Banks.


Þetta er það sem við í bransanum köllum bedroom eyes.

Já, sambýlismaðurinn er stálheppinn maður.



Og að öllu gríni slepptu - dásamlega fallegur kjóll. Sem kjólablætiskerlingin á olíuborpallinum er ferlega ánægð með. 

Þið finnið mig á bæði Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Oct 6, 2015

Gott grín

Í dag lenti ég í afar vandræðalegri uppákomu. Ó, hún var vandræðaleg. Svo ógeðslega vandræðaleg. Sviti á bakinu. Saur í brók. Óbragð í munni. Tár á hvarmi. Þið skiljið sneiðina.

Ég sótti afkvæmið í skólann. Við komum hérna heim. Vorum að rusla okkur út úr bílnum þegar ég sé glitta í eitthvað á girðingunni við bílastæðið. Girðingunni hjá nágrönnunum. Sem ég hef ósjaldan brúkað í myndatökur. Í fullkomnu leyfisleysi.


Girðingin. Sem ég á ekkert í.

Fáeinar myndatökur hafa farið fram í bílastæðinu undanfarið. Af því að enginn í mínu húsi virðist eiga slátturvél. Og ekki tími ég að kaupa slíkan búnað. Þannig að garðurinn er í órækt. Og er ógeð. Hvernig sem á það er litið. Svo að bílastæðið hefur verið fýsilegasti kosturinn. Ókei, svo er þessi girðing bara hrikalega lekker. Og garðurinn allur. Alveg eins og úr bandarískri bíómynd.

Gott og vel. Við göngum að húsinu og ég rýni í þetta sem hangir á girðingunni. Sem reynast vera skilaboð til mín.


Ég fékk taugaáfall. Hypjaði mig inn í flýti svo enginn sæi viðrinið. Helvítis bloggarann. Sem notar garða í leyfisleysi og níðist á börnum á netinu. Ég gekk upp stigann og byrjaði að skipuleggja brottflutning af Gunnarsbraut. Strax á morgun. Eða allra helst í kvöld. Í skjóli myrkurs. Nú og ef ég fyndi enga íbúð í snatri þá færi ég heim. Alla leið til mömmu og pabba. Þar sem ég gæti farið huldu höfði. Færi að vinna í fiski hjá pabba. Og enginn kæmist að glæpunum sem ég hefði framið á Gunnarsbrautinni.

Ég ætlaði að byrja á því að hringja í sambýlismanninn. Lengst út á haf. Og segja honum frá vonda fólkinu í næsta húsi. Svo ætlaði ég að hringja í mömmu. Grenja og boða komu mína. Svo ætlaði ég að hætta að blogga. Henda því. Eyða öllum ummerkjum um að ég hefði nokkurn tímann komist á internetið.

Ég staldraði aðeins við. Hugsaði málið. Nú hafði ég loksins gengið of langt. Sært einhvern. Misboðið einhverjum. Hvað átti ég til bragðs að taka? Líf mitt orðið rjúkandi rúst á einu augnabliki. Þið vitið, kalt mat. Sem var svolítið brenglað á þessum tímapunkti.

Ókei. Ég lagði aðeins á ráðin. Fyrst afsökunarbeiðni. Svo myndi ég að pakka niður. Nei, fyrst þyrfti ég að taka til á blogginu. Eyða því út þegar ég talaði um að krakkarnir í næsta húsi hefðu verið að glápa á einhverja myndatökuna. Og ég hefði ullað á þau. Done and done. Svo var það afsökunarbeiðnin.

Ó, hún var auðmjúk. Og einlæg. Í gegnum Feisbúkk, auðvitað. Ég baðst afsökunar á því hafa brúkað garðinn í fullkomnu leyfisleysi. Lofaði að leggja aldrei svo mikið sem fingur á girðinguna aftur. Játaði á mig að vera alltaf með kaldhæðnina að vopni og vita stundum ekki hvenær ætti að stoppa. Sagðist miður mín yfir því að hafa sært börnin og ummæli mín hefðu vissulega ekki átt að vera niðrandi.

Ýtti á send. Skoðaði leiguvef Morgunblaðsins á meðan ég beið í von og óvon. Kæmi einhver yfir til þess að klára þetta? Kýla mig. Kyrkja mig. Kála mér með öllu. Ég yrði ekki lengur kölluð bloggari. Heldur barnahatari og böðull. Þúsund hugsanir sóttu á mig.

Þarna var ég búin að blanda öðrum nágranna mínum í málið. Sem reyndi að stemma stigu við geðshræringu minni. Með litlum árangri.

Jæja, síminn pípar. Skilaboð frá fólkinu sem vildi mig feiga. (Að ég hélt).

,,Æ, krakkarnir ákváðu bara að skrattast aðeins í þér.“

Einmitt. Allt í plati. Og ég búin að deyja tólf dauðdögum á örfáum mínútum.

Elskulegir nágrannar mínir (sem ég þekkti nota bene ekkert fyrr en í dag) ákváðu að fokka aðeins í mér. Allt til gamans gert. Ég stal garðinum, girðingunni og gantaðist með krakkana á netinu. Og þau hefndu sín tífalt. 

Gott á mig! Almáttugur minn. Þetta var grín Guðrún Veiga. Grín.

Ógeðslega gott grín. Sko eftir á að hyggja.

Ég hérna já. Já. Ég á það til að oftúlka hlutina aðeins. Mála dálítið marga skratta á vegginn.
Þegar ég kom til baka úr bæði geðshræringu og fasteignaleit þá hló ég. Á milli þess sem ég kafnaði úr vandræðalegheitum yfir viðbrögðum mínum.


Elsku börnin færðu mér svo kökur í sárabætur. Ég átti það nú alveg inni. Enda hársbreidd frá því að verða útgerðarkona á Eskifirði. Undir öðru nafni en mínu eigin. Það átti auðvitað að fara í ruslið ásamt blogginu.

Guð á himnum. Ég þarf stundum að taka chillpill. Ef svo má að orði komast.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


Oct 5, 2015

The Body Project


Einhverjir muna væntanlega eftir því þegar ég fór á brókinni um gjörvallt internetið. Ekki verða spennt. Ég ætla að vera fullklædd í dag. Á internetinu sem og annarsstaðar. 

Mig langaði hins vegar að segja ykkur frá því að núna er komið að líkamsmyndarnámskeiðinu - The Body Project. Sem ég ræddi um í vor. Og verða slík námskeið haldin í öllum framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins. 


Námskeiðið er ætlað til þess að efla gagnrýna hugsun ungra kvenna. Og auka sátt þeirra í eigin skinni. Þetta námskeið hefur reynst hafa verulega jákvæð áhrif á líkamsmynd og marktækt fækkað átröskunartilfellum. Sem er stórkostlegt. 

Ég skora á stúlkur í framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins að skrá sig á þetta námskeið. Ég skora á þær af öllu hjarta. Ég vona að allsstaðar verði fullt út úr dyrum. Segjum brengluðum útlitsviðmiðum stríð á hendur. Fokkum upp óraunhæfum kröfum. Í sameiningu. 


Ah, þarna er 18 ára gömul Guðrún Veiga. Hún hefði þurft á svona námskeiði að halda. Eftir að hafa rifið sjálfa sig niður í mörg ár. Og verið rifin niður úr öllum áttum. Svo fór allt til fjandans. Beinustu leið. Út af því að hún þráði fátt heitar en að passa í kassann. Falla undir einhver óraunhæf viðmið. 

Ókei, ég ætla ekki að fylla þessa færslu af dramatík. Eins og ég geri alltaf þegar ég ávarpa málefni af þessu tagi. 

Ég vildi að ég gæti gengið í hús til þess að ítreka mikilvægi þessa námskeiðs. 

likamsmynd@gmail.com

Áfram gakk. Skráðu þig til leiks. Eða dóttur þína. Barnabarn. Vinkonu. Fjarskylda frænku. Alla heimsbyggðina.

Heyrumst.

Oct 3, 2015

Í pylsubrauði


Það eru margir kostir við hleypa fólki inn á Snapchat. Mjög margir. Ég fæ til dæmis mörg snöpp úr ýmsum áttum. Aðallega af mat. Furðulegum mat. Og súkkulaði sem keypt er í Ikea. Að vísu fæ ég svolítið af vídjóum líka. Af börnum. Ókunnugum börnum. Sem er skrýtið. Og mér líður eins og stórglæpamanni þegar ég horfi á slík myndbrot. 

Um daginn var ég að borða einhverskonar túnfiskkássu. Með kotasælu. Eplum. Lauk. Og kartöflukryddi. Að venju var ég að blaðra eitthvað á Snapchat á meðan ég sat að snæðingi. Sem ég geri orðið alltof mikið af. Eftir að sambýlismaðurinn fór. Og ég hef engan til þess að tala við. Nema átta ára gamalt afkvæmi. Sem virðir mig yfirleitt að vettugi.  

Jæja, hvað um það. Að loknu túnfiskkássuáti fékk ég sendar ýmsar hugmyndir. Sem sneru að því hvernig snæða mætti túnfisk. Þar á meðal var þessi stórkostlega tillaga. Sem kom frá Elínborgu vinkonu minni. Sem er matgæðingur og snillingur. 

Túnfisksalat. Pylsubrauð. Og Ritzkex. 



Nei, túnfisksalat myndast aldrei vel.


Byrjum á því að búa til túnfisksalat. Eða kaupa það. Hvað sem fleytir ykkar bát. 

Opnið eitt stykki pylsubrauð upp á gátt. Og verið með fallegt naglalakk. Alltaf.


Fyllum brauðið vel af salati. Troðum í það.


Röðum fáeinum kexkökum ofan í.



Ó, boj. Brakandi gott sko. Alveg brakandi. Kexið gefur þessu ómótstæðilegt krönsj. 

Mjúkt brauð. Vel majonesað salat. Brakandi saltað kex. 

Mmm. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Oct 1, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ég keypti þessa fallegu seríu í Söstrene Grene um helgina. Hún kostaði rétt rúmlega þúsundkall. Látum það nú alveg eiga sig. 

Ókei, 1179 krónur fyrir þá sem aðhyllast ekki námundun af neinu tagi.


Hún gengur fyrir rafhlöðum. Sem er stórkostlegt. Fyrir fólk eins og mig sem býr í húsi sem var byggt áður en Ingólfur nam land. Eða svo gott sem. Hérna liggja snúrur út um allt. Að einu innstungunni í íbúðinni. Allt í lagi, þær eru mögulega þrjár eða fjórar. Ekki fleiri. Og fokking fjöltengi út um allt. Hrikalega ólekker. 



Já, hún er búin að fá að flakka aðeins um íbúðina. Sambýlismaðurinn gat auðvitað ekki staðið orðlaus hjá.

,,Til hvers varstu að kaupa seríu ef þú veist ekkert hvar þú ætlar að hafa hana?"

Æ, stundum skilur hann ekki kauphegðun mína. Ég keypti seríuna af því að hún var sæt. Ekki af því ég fékk einhverja sérlega hugljómun um það hvar hún gæti mögulega tekið sig vel út. Nei, það var seinni tíma vandamál. Kannski þess vegna sem ég á fulla skápa af allskonar drasli. Ég hugsa aldrei nógu langt. Whatever. 


Ég fór til tannlæknis um daginn. Sem er ekki í frásögur færandi. Nema að ég var send heim með þennan verulega mjúka tannbursta. Ultra soft. Sem hentar helst fyrir viðkvæma góma í ungabörnum.

Af hverju?

Af því ég fer aldrei milliveginn í neinu. Ég geri hlutina annað hvort af öllu hjarta eða gjörsamlega fyrir aftan rassgatið á mér. Að tannbursta mig er eitthvað sem ég geri mikið af. Og af öllu hjartans afli. Svo miklu að ég er búin að valda varanlegum skemmdum á tannholdinu. Bursta það frá tönnunum. Og núna má ég ekki bursta mig nema með þessari bómull. Og þarf að halda stórundarlega burstunardagbók. 


Æ ókei, þessi mynd er eiginlega ekki af ungbarnaburstanum. Heldur nöglunum á mér. Sem eru íðilfagrar og ískrandi langar þessa dagana. Þökk sé töfralakkinu sem ég ræddi um hérna


Ef ég væri jólasveinn þá væri ég kölluð prufusníkir. Ég fer stundum í verslunarmiðstöðvar. Eða Hagkaupsverslanir. Gagngert til þess að sníkja prufur. Þykist sjúklega áhugasöm um hinar ýmsu vörur. Passa að lenda ekki í fanginu á sama starfsfólkinu tvisvar. Brosi mínu blíðasta. Og held yfirleitt heim á leið með dálítið góðgæti. 

Oh, þetta augnkrem frá Bobbi Brown. Ég vakna yfirleitt fáránlega þrútin. Þökk sé poppáti og stöku rauðvínsglasi. Stundum opnast augun á mér ekki fyrr en um hádegi. En þetta krem sko, algjör bjargvættur. Af því ekki vil ég hætta að éta popp. Eða drekka rauðvín. 

Næst ætla ég að kaupa það. Ekki sníkja prufur. Sverða. Gefa aðeins til baka út í kosmósið. Fyrir utan það að mér yrði sennilega neitað um prufurnar. Af því þetta eru ekki fyrstu tvær. Eða þrjár. 

Einu sinni var mér og systur minni eiginlega vísað út úr snyrtivörudeild í ónefndri Hagkaupsverslun. Mögulega af því við vorum búnar að væflast þar í tvo tíma. Að mála okkur. Og kremsmyrja. Og þefa. En já, það er önnur saga. 


Jú, það þarf alltaf að vera eitthvað sælgæti í fimm hlutum. Þessar lakkríspillur keypti ég í Söstrene. Eins og seríuna. Ávanabindandi andskoti. Ferlega gott. 


Einmitt já, ég var búin að sýna ykkur fínu neglurnar mínar.


Betra er að hafa á hreinu að þessar pillur innhalda talsvert magn af sorbitoli. Sem er mjög hægðarlosandi. Ekki borða heila dós og lesa svo innihaldslýsinguna. Sumir hafa lent illa í því. Ekki ég sko. Sumir sagði ég. 



Er ég byrjuð að versla props fyrir myndatökur í brúðkaupsveislunni minni? Jú, það má vel vera. Er ég gengin af göflunum? Nei, það vil ég ekki meina.

Þetta snýst allt um hagsýni. Dreifa kostnaði. Ég get alveg verið djöfulli hagsýn þegar ég tek mig til. Á sumum sviðum. Einhverjum sviðum. Örfáum sviðum. 

Jæja, ég er að fara að undirbúa brúðkaupstertubakstur. Nei, ég er ekki að baka fyrir neinn. Bara æfa mig fyrir mitt eigið brúðkaup. Finnst ykkur það vera ótímabært? 

Nei, ég hélt ekki. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga 85.

Heyrumst.