Oct 1, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi



Ég keypti þessa fallegu seríu í Söstrene Grene um helgina. Hún kostaði rétt rúmlega þúsundkall. Látum það nú alveg eiga sig. 

Ókei, 1179 krónur fyrir þá sem aðhyllast ekki námundun af neinu tagi.


Hún gengur fyrir rafhlöðum. Sem er stórkostlegt. Fyrir fólk eins og mig sem býr í húsi sem var byggt áður en Ingólfur nam land. Eða svo gott sem. Hérna liggja snúrur út um allt. Að einu innstungunni í íbúðinni. Allt í lagi, þær eru mögulega þrjár eða fjórar. Ekki fleiri. Og fokking fjöltengi út um allt. Hrikalega ólekker. 



Já, hún er búin að fá að flakka aðeins um íbúðina. Sambýlismaðurinn gat auðvitað ekki staðið orðlaus hjá.

,,Til hvers varstu að kaupa seríu ef þú veist ekkert hvar þú ætlar að hafa hana?"

Æ, stundum skilur hann ekki kauphegðun mína. Ég keypti seríuna af því að hún var sæt. Ekki af því ég fékk einhverja sérlega hugljómun um það hvar hún gæti mögulega tekið sig vel út. Nei, það var seinni tíma vandamál. Kannski þess vegna sem ég á fulla skápa af allskonar drasli. Ég hugsa aldrei nógu langt. Whatever. 


Ég fór til tannlæknis um daginn. Sem er ekki í frásögur færandi. Nema að ég var send heim með þennan verulega mjúka tannbursta. Ultra soft. Sem hentar helst fyrir viðkvæma góma í ungabörnum.

Af hverju?

Af því ég fer aldrei milliveginn í neinu. Ég geri hlutina annað hvort af öllu hjarta eða gjörsamlega fyrir aftan rassgatið á mér. Að tannbursta mig er eitthvað sem ég geri mikið af. Og af öllu hjartans afli. Svo miklu að ég er búin að valda varanlegum skemmdum á tannholdinu. Bursta það frá tönnunum. Og núna má ég ekki bursta mig nema með þessari bómull. Og þarf að halda stórundarlega burstunardagbók. 


Æ ókei, þessi mynd er eiginlega ekki af ungbarnaburstanum. Heldur nöglunum á mér. Sem eru íðilfagrar og ískrandi langar þessa dagana. Þökk sé töfralakkinu sem ég ræddi um hérna


Ef ég væri jólasveinn þá væri ég kölluð prufusníkir. Ég fer stundum í verslunarmiðstöðvar. Eða Hagkaupsverslanir. Gagngert til þess að sníkja prufur. Þykist sjúklega áhugasöm um hinar ýmsu vörur. Passa að lenda ekki í fanginu á sama starfsfólkinu tvisvar. Brosi mínu blíðasta. Og held yfirleitt heim á leið með dálítið góðgæti. 

Oh, þetta augnkrem frá Bobbi Brown. Ég vakna yfirleitt fáránlega þrútin. Þökk sé poppáti og stöku rauðvínsglasi. Stundum opnast augun á mér ekki fyrr en um hádegi. En þetta krem sko, algjör bjargvættur. Af því ekki vil ég hætta að éta popp. Eða drekka rauðvín. 

Næst ætla ég að kaupa það. Ekki sníkja prufur. Sverða. Gefa aðeins til baka út í kosmósið. Fyrir utan það að mér yrði sennilega neitað um prufurnar. Af því þetta eru ekki fyrstu tvær. Eða þrjár. 

Einu sinni var mér og systur minni eiginlega vísað út úr snyrtivörudeild í ónefndri Hagkaupsverslun. Mögulega af því við vorum búnar að væflast þar í tvo tíma. Að mála okkur. Og kremsmyrja. Og þefa. En já, það er önnur saga. 


Jú, það þarf alltaf að vera eitthvað sælgæti í fimm hlutum. Þessar lakkríspillur keypti ég í Söstrene. Eins og seríuna. Ávanabindandi andskoti. Ferlega gott. 


Einmitt já, ég var búin að sýna ykkur fínu neglurnar mínar.


Betra er að hafa á hreinu að þessar pillur innhalda talsvert magn af sorbitoli. Sem er mjög hægðarlosandi. Ekki borða heila dós og lesa svo innihaldslýsinguna. Sumir hafa lent illa í því. Ekki ég sko. Sumir sagði ég. 



Er ég byrjuð að versla props fyrir myndatökur í brúðkaupsveislunni minni? Jú, það má vel vera. Er ég gengin af göflunum? Nei, það vil ég ekki meina.

Þetta snýst allt um hagsýni. Dreifa kostnaði. Ég get alveg verið djöfulli hagsýn þegar ég tek mig til. Á sumum sviðum. Einhverjum sviðum. Örfáum sviðum. 

Jæja, ég er að fara að undirbúa brúðkaupstertubakstur. Nei, ég er ekki að baka fyrir neinn. Bara æfa mig fyrir mitt eigið brúðkaup. Finnst ykkur það vera ótímabært? 

Nei, ég hélt ekki. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga 85.

Heyrumst.


1 comment: