Dec 31, 2012

Áramót.






Þetta er alveg að bresta á. Ég er meira að segja nokkuð klár í kvöldið - alveg á mettíma. 


Eigið dásamlegt kvöld. Sjáumst á nýju ári!

Waiting for tonight.

Gamlárskvöld er eitt af mínum uppáhalds. Bara af því að þá get ég sturtað á mig glimmeri að vild. Sem ég geri nú að vísu við öll tilefni - en fyrir þetta kvöld er svo sannarlega leyfilegt að fara yfir strikið. Að minnsta kosti hvað glimmerið varðar.

Ég get ekki beðið eftir að klukkan slái sirka tvö. Þá helli ég mér kampavíni í glas og hefst handa við að gera sjálfa mig ómótstæðilega. Áramótaundirbúningur hefst ávallt klukkan tvö. Þá er ég passlega klár í slaginn þegar maturinn hefst klukkan sex. Já þetta ferli tekur fjóra tíma.

Ég skipti yfirleitt um föt allavega fimm sinnum á þessum fjórum tímum. Fer svo nokkrum sinnum að grenja yfir því að eiga engin föt. Geri um það bil tíu hárgreiðslutilraunir og fer svo að grenja yfir því að vera með ömurlegt hár.

Stundum er ég búin að mála mig en fæ svo kast og þríf allt af andlitinu á mér. Úff, svo ekki sé minnst á þegar ég hefst handa við að koma gerviaugnhárunum á - þá fyrst verður fjandinn laus! Þetta endar yfirleitt með grenji yfir því hvað ég sé misheppnuð og kunni ekki að mála mig.

Gamlársdagur er sennilega sá dagur ársins sem sambýlismaðurinn elskar mig hvað minnst.

En nóg um það! Hérna er smá innblástur fyrir kvöldið:












Eigið góðan gamlársdag. Ekki spara glimmerið. Það er aldrei of mikið af glimmeri. ALDREI segi ég!

Dec 30, 2012

Árið 2012.

Frá janúar fram í maí miðaðist allt okkar líf við að vinna og safna fyrir þriggja mánaða dvöl og  spænskuskóla á Tenerife. Það var fátt annað sem komst að. 


Þann 19.maí 2012 rann loksins hinn langþráði dagur upp. 


Ferðin hófst með tveggja daga dvöl í London. Þrátt fyrir að hafa dvalið nánast við hliðina á Gatwickflugvelli sem er lengst frá öllu almennilegu mannlífi tókst mér samt sem áður að þefa upp H&M.  Sambýlismanninum fannst mjög skemmtilegt að ég skyldi hefja þriggja mánaða ferðalag á svæsinni verslunarferð. 


Syninum leiddist lítið þetta sumarið.


Ég gekk verulega á kartöflubirgðir heimsins með frönskuáti. Helvítis franskar. Franskar kartöflur tvisvar á dag í þrjá mánuði er ekki eitthvað sem ég mæli með.  Rassinn á mér mun aldrei bíða þess bætur.


Nachos. Bölvað nachos-ið. Þetta var kvöldsnarlið. Minnst þrisvar í viku. Mér brá samt alveg agalega þegar ég kom heim sjö kílóum þyngri en ég var þegar við fórum út.


Fjallmyndarlegur. Eins og móðir sín.


Lífið var ekkert rosalega erfitt.


Ég var brún. Ógeðslega brún. Núna er ég svo hvít að ég nánast glói í myrkri. 


Við studdum vel og vandlega við spænska hagkerfið með vínkaupum. Það mátti að sjálfsögðu ekki ofþorna í hitanum. Það eru engar ýkjur að við drukkum líklega mun meira af víni heldur en vatni þessa þrjá mánuði.


Við fórum út að borða 89 kvöld í röð. Ég eldaði eitt skipti. Það vildi engin borða eggin mín né bökuðu baunirnar. Nema ég. Þannig að við tókum þá ákvörðun að það væri líklega best að fara bara út að borða á hverju kvöldi.  






Þann 10.ágúst voru síðustu hvítvínsglösin á Tenerife sötruð.




Það var hræðilega erfitt að segja bless við alla sem við kynntumst. Ég var óhuggandi í tvo daga. Eða alveg þangað til ég komst í fríhöfnina á Íslandi og gat farið að versla mér vín og snyrtidót. 

Dásamlegt ár að baki. Sumarið stendur svo algjörlega upp úr að ég nenni ekki einu sinni að leita af myndum sem teknar voru á öðrum tímum. Mér þykir nokkuð líklegt að við kíkjum í heimsókn til Tene árið 2013. Bara smá heimsókn. Sjöunda sumarið í röð. 

Ég er bara svo hrædd um að spænska hagkerfið bíði þess ekki bætur ef að ég birtist ekki til þess að styrkja það að minnsta kosti einu sinni á ári.

Ég hef góða tilfinningu fyrir 2013. Mjög góða.

Dec 29, 2012

Lúxusvandamál.

Mikið er pirrandi að búa einhversstaðar þar sem maður getur ekki bara skroppið í bæinn og verslað sér fáeinar flíkur. Mig vantar hræðilega einhver klæði fyrir áramótin. Það er víst ekki í boði að vafra um og versla á internetinu. Það er orðið alltof seint.






Þessir kjólar fást allir hérna. Ég er yfir mig ástfangin af þeim öllum. 

Það er að vísu ein fatabúð hérna á Reyðarfirði. Já alveg ein! Ég skottaðist þangað áðan með von í hjarta en kom bara út með svartar diskóbuxur. Mjög flottar. En ekkert áramótadress samt sem áður. 

Tjah, nema að ég verði ber að ofan í diskóbuxum. Treð bara á mig einhverju risastóru hálsmeni og fer í flotta skó. Þá tekur enginn eftir því að ég sé bara á júllunum.


Mint Green.



               





Myntugrænn er alveg dásamlegur litur. Mikið sem mig langar í þennan hreindýrshaus hér að ofan. Myntugrænt hreindýr með glimmerhorn - það er svo sannarlega eitthvað að mínu skapi. 

Þessi haus færi alveg afskaplega vel inni í svefnherbergi hjá mér. Ég gæti notað hornin undir hálsmen og fleiri fínheit. 

Ég held reyndar að ég lumi á svona hreindýrahornum einhversstaðar. Kannski tek ég þau bara og skelli óhóflegu magni af glimmeri á þau. Ég get svo bara hengt þau upp. Þá slepp ég við að eyða deginum í að finna út hvar ég get keypt þennan hreindýrshaus. Og slepp við að eyða peningum í hann. 

Já ég á mína sparsömu hlið líka. Hún nær bara alltof sjaldan að skjóta upp kollinum.

Dec 28, 2012

Útsala Vol.2.

Hólímólí. Útsala á skóm. Það er ekki hægt að láta slíkt framhjá sér fara, er það? Mæli með að þið kíkið við hérna.

Ég er að íhuga fáein pör. ÍHUGA sko - ekki kaupa. Það er alls ekki það sama.






Kannski að ég kaupi mér eitt par. Ég gef mér það bara í afmælisgjöf.

Ég á að vísu ekki afmæli fyrr en í apríl en það eru engar útsölur þá. Þannig í raun og veru er ég að spara ef ég kaupi mér skó núna en ekki í apríl. 

Neeeei. Ég má ekki kaupa. Ég var að versla mér föt í gær. Á útsölu samt - sparnaður sko. 

Ég keypti mér líka smá naglalakk í dag. Og snyrtidót. Andskotinn.

Ég ætla að sofa á þessu.