Nov 30, 2015

1500 kall


Á síðasta föstudag héldu þó nokkrar verslanir hinn ameríska Black Friday hátíðlegan. Einhverjir sáu ástæðu til þess að röfla yfir því. Auðvitað. Fari það grábölvað að fá afslátt rétt fyrir jólin. Til andskotans með það bara. 

Jú, eitthvað var rætt um að afslátturinn væri víðast hvar frekar nískulegur. Blablabla. Fyrir marga getur skipt máli að spara örlítið. Þó það sé ekki nema þúsundkall. Sérstaklega á þessum árstíma. 

Það gefur manni enginn þúsundkall. Eins og amma mín myndi segja. 

Ekki röflaði ég. Ég röfla aldrei.

Ég sat heima með dollaramerki í augunum. Enda orðin svo skratti amerísk. Black Friday og allt það. Ég beið salíróleg alveg þangað til klukkan fimm. Þá átti sambýlismaðurinn að fara aftur á sjó. Og ekki versla ég með hann heima. Ekki þessa dagana. Hann heldur að ég sé að spara. Eða við já. Hann heldur að við séum að spara. 

Af því hann vill ekki að við verðum eldri borgarar á leigumarkaði. Svo neitar hann líka að gifta sig í jakkafötunum sem hann keypti fyrir skírnina hjá afkvæminu árið 2007. Það var einmitt sparnaðarráð sem undirrituð lagði til. Ég hugsa alltaf í lausnum sko. Lausnum sem ég græði á.

Og hann hlustar aldrei á mig. 

Jæja. Hvað um það. Ég sat spök þangað til að ég gat fleygt Jóakim Aðalönd um borð í grænlenskan frystitogara. 

Ég reykspólaði svo af bryggjunni. Eins og óð kona. Brunaði sem leið lá í Gyllta köttinn. Þar sem allir vintage kjólar voru á 1500 krónur í tilefni dagsins. Ömurlega ameríska dagsins. Hóst. 



Ég geng aldrei í bleiku. Tjah, fyrir utan þarna náttsloppinn minn. Sem ég er eiginlega alltaf í. Ég geng aldrei í bleikum kjólum. Svona réttara sagt.

En þessi. Þetta snið. Fölbleikur og fagur. Og á einungis fimmtánhundruð kall. 

Ég varð að fá hann.

Ókei. Og tvo aðra.

Whatever. 


Note to self: slepptu svarta brjóstahaldaranum næst. 

Þessi myndataka kostaði mig nota bene 1100 krónur. Já, afkvæmið er hætt að þiggja sælgæti og sykrað morgunkorn fyrir að mynda móður sína. Það er af sem áður var.

Ætli hann biðji ekki um brennivín og kvennafar næst. 

Djók.

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst. 

Nov 28, 2015

Auðveldari leiðin


Ég er löt. Mjög löt. Og skammast mín lítið fyrir það. Ef það er til styttri og auðveldari leið, þá fer ég styttri og auðveldari leiðina. Ekkert kjaftæði. Ekkert vesen. 

Smákökubakstur er þar engin undantekning. Ég nenni ekki að standa grenjandi ofan í misheppnað smákökudeig. Been there. Done that. Ég nenni ekki að vigta, sigta og hinkra eftir því að einhver deigklumpur jafni sig í ísskáp yfir nótt. 

Ég tek ofan hattinn fyrir öllum þeim sem baka fleiri en eina sort frá grunni. Ég er reyndar með mjög stóran haus. Og finn aldrei hatta sem passa á mig. En þið vitið, ég er með ímyndaðan hatt. Og veifa honum í allar áttir. Hneigi mig og beygi. Í mikilli auðmýkt.


Ah, tilbúð smákökudeig. Ég er ennþá að veifa hattinum. Núna fyrir þeim sem settu þetta fyrirbæri á markað. Í vikunni prófaði ég þrjár tegundir frá Kötlu. Og ó, boj. Hvílíkt hnossgæti. Bara eins og mamma hafi bakað þetta. Og mamma mín bakar kökur upp á tíu. Ef ekki tólf. 


Þetta er svo auðvelt í framkvæmd að ég hefði getað bakað með bundið fyrir augun. Eða blindfull. 

Klippa umbúðir. Skera deig. Inn í ofn. Voilá - þú ert búin að baka eina sort. 


Kökur með hvítu súkkulaði. Mmm.




Uss, þessar lakkrískökur sko. Þær urðu að vísu dálítið fáar. Ég át nefnilega megnið af deiginu. Af því það var á bragðið eins og mjúkar Bingókúlur. 



Þessar fá fullt hús stiga.


Ég átti von á fólki í kaffi um kvöldið. Fólki sem þurfti ekkert að vita að það hefði tekið mig klukkutíma að fleygja í þrjár sortir. Þannig að til þess að gefa kökunum örlítið heimatilbúnari brag þá skvetti ég yfir þær súkkulaði. Ó, blekkingavefurinn.

Ekki ætla ég að skemma ímynd mína. Ég er eldhúsgyðja. Í hjartanu. 




Mjólkursúkkulaði yfir hafrakökurnar. Sem voru unaðslegar.




Hrikalega lekker. Og ég hrikalega ánægð með mig. Og afraksturinn.

Ég hef fengið þó nokkrar spurningar um þessa ágætu krukku. Hún fæst í Rúmfatalagernum. Ég splæsti í hana síðast þegar sambýlismaðurinn var á sjó. Af því að ég er skápakaupfíkill. Og reyni að miða allar mínar verslunarferðir við fjarveru hans. 


Þessar kökur fá mín meðmæli. Og það eru góð meðmæli.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Nov 24, 2015

Brúðkaup, börn og fasteignaverð

Það er undarleg tilfinning að ranka allt í einu við sér sem rígfullorðin manneskja. Allt í lagi, rígfullorðin eru mögulega svolitlar ýkjur. En þið vitið, ég ýki. Ég á það til.

Ég er þrítug. Ég veit það vel. Ég er það samt ekki. Ekki í hjartanu. Ekki ennþá. Þar er ég rétt tæplega 18 ára. 18 ára ung stúlka sem fær reglulega aðsvif þegar hún hittir aðra 18 ára einstaklinga. Af því hún passaði þessa einstaklinga þegar þau voru lítil. Og núna eru þau á sama skemmtistað og hún. Að drekka bjór. Koma jafnvel svífandi í fangið á kornungri konunni, ,,Hey, ert þú ekki Guðrún Veiga? Þú passaðir mig þegar ég var lítil!“

Taugaáfall. Yfirlið. Dauði. Eða svo gott sem.

Þessu hef ég lent í oftar en einu sinni. Og oftar en tvisvar. Nokkuð fljót að jafna mig þó. Enda ógeðslega góð í að gleyma því sem ég kæri mig ekki um að muna. Sem er einstakur hæfileiki.


Ég hef samt aldrei vaknað eins háöldruð og í gærmorgun. Almáttugur. Við sambýlingarnir fórum á jólahlaðborð á laugardagskvöldið. Sem var gott og blessað. Og vel rauðvínsmarínerað. Sökum aldurs var rauðvínið ennþá að yfirgefa líkama minn í gær. Með tilheyrandi vanlíðan. Og það tæplega tveimur dögum eftir neyslu. Slíkar þjáningar eiga sér ekki stað þegar þú ert að skríða á tvítugsaldurinn.

Uss, þá gastu tekið þriggja (ókei, fjögurra) daga verslunarmannahelgi og mætt í vinnu á fimmta degi. Alveg eins og ný úr kassanum. Sást ekki högg á vatni. Í dag fæ ég mér rauðvínstár (í fleirtölu) á laugardagskvöldi og á mánudagsmorgni lít ég út fyrir að hafa étið 12 kíló af salti. Og sex diska af reyktu hangkjöti. Og svolítið eins og flutningabíll með fimm tengivagna hafi keyrt yfir mig. 

Án þess að ég vilji vera að ýkja sko. 

Í gærmorgun gat ég rétt rúllað mér fram úr rúminu. Og gat svo með engu móti staðið upp af helvítis klósettinu. Nei. Ekki að ræða það. Svo þjökuð var ég af harðsperrum. Fór ég í spinning snemma á laugardaginn? Áður en ég fór fimm ferðar á forréttarborðið á Grand Hótel?

Nei.

Ég dansaði hins vegar við tvö eða þrjú lög seint á laugardagskvöldið. Tók fáeinar sveiflur. Og þurfti nánast að ganga við göngugrind í gær. Allt í lagi. Það hefur sennilega lítið að gera með aldur minn. Og meira að gera með líkamlegt ástand.

Poteitó. Potató.

Í gær fór ég líka að velta fyrir mér hvað ég hefði hitt mikið af skemmtilegu fólki. Svo fór ég að rifja upp samræður okkar. Sem snerust að mestu leyti um brúðkaup og börn. Svolítið um kórastarf og kennsluaðferðir. Jú og auðvitað fasteignaverð og hvað allt væri fokdýrt á barnum.

Nei, ég er augljóslega ekki 18 ára. Svo langt því frá.

Á fertugsaldri fer líka að verða andskoti freistandi að brúka það sem kallað er BeautyCam þegar teknar eru myndir á snjallsímann. Eins og ég gerði á laugardagskvöldið. Án þess svo mikið sem að skammast mín. Hrukkulausir, háaldraðir og lukkulegir sambýlingar. 

Gjörið þið svo vel. 



Jæja. Ég ætla að fara í bað. Fá mér svo flóaða mjólk og fleygja mér í stórar Sloggi nærbuxur.

(Ps. ég er vissulega mjög þakklát fyrir það að fá að eldast. Höldum því alveg til haga).

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Nov 20, 2015

Laugateigur


Jæja. Við erum flutt. Mögulega hafa átt sér stað tuttugu rifrildi og tólf næstum því sambandsslit undanfarna daga. Give or take. Sennilega hefði komið til ofbeldis á einhverjum tímapunkti - ef sambýlismaðurinn væri ekki svona andskoti seinþreyttur til vandræða. 

Síðustu sex dagar hafa verið skrautlegir. Mjög skrautlegir. Guð á himnum. Ég hef ítrekað hótað sambýlismanninum að kveikja í öllum fötunum hans. Og setja klór í kaffið hans. Eitthvað hefur hann líka röflað um að kveikja í hárinu á mér. Og klippa alla kjólana mína. 

Á milli innantómra hótana tókst okkur svo að bora í gegnum rafmagnslögn. Og þar af leiðandi gera allar íbúðir í húsinu rafmagnslausar. Á sama tíma rifum við í sundur ljósleiðara. Og þar af leiðandi urðu allar íbúðir í húsinu internet- og sjónvarpslausar. 

Æ, við höfum svo sem aldrei verið vinsæl á meðal nágranna okkar. Engin ástæða til þess að byrja á því núna. 

Já, svo skreytti ég jólatréð í gærkvöldi. Og þurfti að fela allar ferðatöskur í húsinu í kjölfarið. Annars hefði sambýlismaðurinn látið sig hverfa. Að eilífu. 




Hér á okkur eftir að líða vel. Ég finn það á mér. 


Íbúðin er dásamlega hlýleg. Og nýleg. Og ég elska hana. Og hitann sem er í eldhúsgólfinu. Almáttugur minn. 





Ég fann þessa glæsilegu ávaxtaskál í Ikea um daginn. Ég elska hana líka. 


Brot af eldhúsinu. Sem er ekki alveg tilbúið.


Að sjálfsögðu leynist Bingókúlupoki á eldhúsbekknum þegar betur er að gáð. 


Að halda spila- og ostakvöld á þriðja degi í flutningum er ekki skynsamlegasta ákvörðun sem við höfum tekið. 


Við vorum hvorki búin að kaupa borð né stóla. Þannig að boðið var upp á japanska stemningu og kræsingar á sjónvarpsskenk.



Jæja. Ég má ekki vera að þessu. 

Ég er að fara á jólahlaðborð á morgun og á ekki svo mikið sem eina spjör til þess að klæðast. Ekki eina. Ég fékk veður af gulum kjól í F&F. Og það er opið allan sólarhringinn í Skeifunni. Þetta steinliggur. Ég er farin. 

Þið finnið mig bæði á Instagram og Snapchat - gveiga85.

Heyrumst.

Nov 11, 2015

Milljón hlutir á miðvikudegi


Allt í lagi, ekki milljón hlutir. Ekki alveg. Meira svona fjórir hlutir. Það er nærri lagi. Mér hættir til að ýkja, þið vitið. 

Númer eitt. Efst á blaði. Mál málanna. Takk fyrir alla tölvupóstana eftir síðustu færslu. Og skilaboðin. Og snöppin. Bölsýniskonan með örsmáa hjartað felldi jafnvel fáein tár yfir hugulseminni. Bara fáein. Örfá. 

Já, nóg um það. Feikinóg. Almáttugur, ég get grenjað eins og glorhungraður hvítvoðungur stundum. Bara stundum. 

Númer tvö. Ég er ekki hætt að blogga. Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort ég hafi einfaldlega lagst í bólið eftir síðustu færslu. Og sé ekki staðin upp ennþá. En svo er nú ekki. Ég er búin að taka út alla þá angist sem ég þarf. Ég þurfti bara dálítinn tíma fyrir sjálfa mig. Aðeins að týna mig saman. Átta mig á því hvað ég vil. Og hvert ég er að fara. 

Æ, ég er aðeins að ýkja. Já, aftur. Ég er ekki búin að eyða síðustu þremur vikum í að strjúka sjálfri mér blíðlega. Þó ég hafi vissulega gert nóg af því. Ég hef eytt dágóðum tíma í Snapchat undanfarnar vikur. Ehm, með dágóðum tíma á ég við öllum mínum tíma. Svo gott sem. Á milli þess sem ég hef strokið mér. Á viðeigandi stöðum sko. 

Já, Snapchat virðist henta mér ákaflega vel. Af því ég get blaðrað endalaust. Um ekki neitt. Og stendur yfirleitt nokkuð á sama hvort einhver sé að hlusta eður ei. 

Ég áttaði mig samt nýlega á því að þetta ágæta smáforrit er svolítið að stela frá mér blogginu. Af því ég segi allt sem ég þarf að segja þar. Og meira til. Miklu meira. Þannig að ég ætla að finna jafnvægi. Milli snappsins og bloggsins. Ég hlýt að hafa nóg að segja fyrir báða staði. 

Er það ekki?

Jú. Jújú.


Númer þrjú. Gunnarsbrautin er í sögulegri óreiðu. Við erum að flytja. Og mig langar svolítið að reka sambýlismanninn á hol. Eða rispa hann örlítið með flugbeittu vopni. Ekki beint myrða hann. Bara meiða hann. Mjög smávægilega bara. Ekkert alvarlega. 

Hann skrapp austur á rjúpnaveiðar. Fyrir 10 dögum. Fyst sótti hann pappakassa. Grýtti þeim hingað inn. Og óskaði mér góðs gengis við niðurpökkun. 

Áætlað var að hann kæmi heim um helgina. Þegar við flytjum. En hann mun renna í hlað hérna á Gunnars á hverri stundu. Ekki af því ég hef verið með öllu óalandi og óferjandi síðustu 10 daga. Þvert á móti. Ég er ekki þessi týpa sem röflar og ropar þar til hún fær sínu framgegnt. Þið vitið það. 


Brúðkaupsundirbúningur er í blússandi farvegi. Sem er efni í aðra færslu. Von er á henni innan skamms. Ó, já. Hérna að ofan má sjá krukkusafnið mitt. Mér skilst að ekki nokkur maður gangi í það heilaga nema nóg sé af krukkum. Í hverjum krók og kima. 

Ég smellti í krukkusöfnun á Snapchat. Og hér hefur fólk bankað í tíma og ótíma til þess að gefa mér krukkur. Sem er stórkostlegt. Fyrir utan þá staðreynd að ég hugsaði þessa söfnun ekki nema hálfa leið. Ég hef svo sem aldrei verið þekkt fyrir að hugsa lengra en það. 

Ég á enga geymslu. Og hef ekki aðgang að geymslu. Og þetta safn er frekar plássfrekt. Og ég labbaði á það um daginn. Og datt. Ofan á herlegheitin. Alveg kylliflöt. Það var bara bölvuð lukka að ég er í mýkri kantinum og krukkurnar brotnuðu ekki undan mér. Annars væri ég væntanlega dáin. Steindáin. 



Númer fjögur. Síðast en ekki síst. Ég elska súkkulaðið sem fæst í Ikea. Eins og ég hef svo margoft sagt frá. Ég er samt ómeðvitað farin að hamstra þetta helvítis súkkulaði. Af því það er svo déskoti langt úr miðbænum yfir í Garðabæ. Í gærkvöldi þurfti ég að minna mig á að fresta tíma hjá lækni. Á sófanum var súkkulaði. Á símaborðinu var súkkulaði. Á eldhúsbekknum var súkkulaði. 

Ég var fljótari að finna súkkulaði til þess að hnipra á heldur en pappír. Æ, whatever. Poteitó, potató. 

Jæja, ég þarf að taka fagnandi á móti sambýlismanninum. Ehm, fagnandi já. Mjög fagnandi.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.