Dec 29, 2013

2013.




Ég átti góða daga á Akureyri í upphafi árs.





Ég átti fullt af dásamlegum dögum á Seyðisfirði. Mínum uppáhalds stað.

 
Eftir bandbrjálaðan aprílmánuð og alþingiskosningar fannst mér ég eiga fyllilega skilið að eyða eins og einni helgi í Kaupamannahöfn. Ferðina pantaði ég undir því yfirskini að hún væri þrítugsafmælisgjöf handa sambýlismanninum. Eða þetta var afmælisgjöf - þið vitið. Þó eitthvað sem framkvæmt var með mínar langanir í huga og gefið meira af sjálfselsku en góðmennsku. Já þið skuluð forðast í lengstu lög að stofna til sambúðar með mér.





Ég mixaði ófáa drykkina.


Já og drakk þá líka.




Tenerife naut nærveru minnar sjöunda árið í röð. Þetta var síðasta skiptið. Lofa.




Nóg var af veislum og gleði. Innpökkunarblætið fékk heldur betur að njóta sín.






Ekki vantaði speglamyndirnar. Nú eða kjólana.







Ó, ég bjó til og borðaði misfurðulega hluti á þessu ágæta ári.




Með haustinu tók lífið ákveðna U-beygju. Ég fluttist frá Reyðarfirði í Breiðholtið og tókst á við lífið á nýjum forsendum.


Meistararitgerðarskrif gengu upp og ofan. Allt skreið þetta þó heim og saman núna í desember eftir mikla bugun og ófáar svefnlausar nætur. 


Ég fór í ákaflega eftirminnilega fjöruferð með þessum. Meira um það hér.


Ekki var ég ónaglalökkuð á árinu. Nei það fór eitthvað minna fyrir því.


Kaup ársins voru svo sannarlega stellið mitt fagra úr Gullabúinu á Seyðisfirði.


Frekar undarlegt ár að baki. En að mörgu leyti svo ágætt. Ég kveð árið með einhverskonar trega sem ég get ekki beint lýst. Mér finnst eins og ég eigi eitthvað eftir óklárað - eiginlega líkt og ég sé að skilja við hálfklárað verk. Eða eitthvað. Ég veit það ekki. 

Furðuleg tilfinning.

Engu að síður, 2014 heilsar eftir rúma tvo daga hvort sem mér líkar betur eða verr. Ég gæti jú logið og sagst hafa dásamlega tilfinningu fyrir nýju ári og fullviss um að allt verði fallegt og gott. 

Nei. Sú tilfinning er ekki beint að kæfa mig. Ég er fremur tilfinningalaus hvað yfirvofandi áramót varðar. Aldrei slíku vant ber ég nákvæmlega engar væntingar til komandi árs. Ég ætla bara að fara inn í það án væntinga. Engar væntingar. Engin vonbrigði.

Já, það er góður möguleiki að ég sé í örlítilli andlegri lægð í augnablikinu. En það er mér eðlislægt svona korter í áramót. 

Ég verð orðin eldhress áður en klukkan slær tólf á gamlárskvöld. Lofa.

Takk fyrir árið. Án ykkar væri þetta ekki blogg til.

Heyrumst fljótlega.

Dec 27, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.

Það er föstudagur. Ég veit. En hver áttar sig svo sem á hvað dögunum líður yfir svona hátíðir?


Þessir kertastjakar prýða stofugluggann hjá foreldrum mínum. Ég er mikið búin að reyna að sannfæra þau að gefa mér að minnsta kosti annan - ég held nefnilega að þetta væru stórfín rauðvínsglös. Ég kæmi heilli flösku í eitt glas. Það myndi henta mér ó svo vel.



Fallegu, fallegu skórnir sem leyndust í jólapakkanum frá foreldrum mínum. Þau eru nú sennilega farin að þekkja sína. Ég hef nefnilega átt það til að skipta gjöfum já. Nú eða heimta að velja þær einfaldlega sjálf. Bæði foreldrar og fyrrum sambýlismaður hafa haft orð á því að það sé vonlaust að gera mér til hæfis.

En fjólubláir Dr.Martens með gulum reimum hittu svo sannarlega í mark og gott betur en það.


Ég er haldin alveg hrikalegu matarstellsblæti. Ég elska falleg stell. Elska þau og elska. Mamma mín á þessa dásemd. Ég veit ekki hvort ég á að leggja mig fram við að vera í uppáhaldi hjá henni eða hreinlega reyna að stela því. En stellið verður mitt - hvaða leið sem farin verður að því.



Uppáhalds tertan mín í öllum heiminum. Vel súkkulaði- og sýrópsbaðað Rice Krispies, rjómi, kokteilávextir og mjúkur svampbotn. Það þarf engin orð yfir þessa dýrð. Betri en allt. Já, líka rauðvín.


Í augnablikinu er ég að smyrja mig með glimmeri. Jafnvel örlitlu brúnkukremi ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég er líka með klósettpappírsrúllur í hárinu því ég gleymdi krullujárninu mínu fyrir sunnan. Ferlega smart. Nei ég ætla ekki að mynda það. Nei. 

En ég verð smart á jólaballi í kvöld. Það er á hreinu.

Heyrumst.

Dec 26, 2013

Staðan.


Staðan núna. Ég, sófinn, sængin og bölvaður konfektdunkurinn. Á meðan þessu stendur er ég að lesa fréttir um biðraðir fyrir framan World Class í morgun og ræktarstatusa á Facebook. Ég ætla að nota bene að henda öllum út sem settu inn einn slíkan í dag. Hvað er að ykkur? Þessi hjarðhegðun hlýtur að flokkast sem guðlast. 

Ég skal fyrirgefa hvers kyns heilsubótagöngur. En að gera sér ferð í ræktina á öðrum degi jóla? Nei. Á svona dögum á ekki að lyfta neinu öðru en konfektmolum. Eða hnífapörum. 








Fáeinar myndir af stöðunni síðustu daga. Nei, mér veitir sennilega ekkert af ræktarferð. Ég myndi þó fremur stilla mér upp fyrir framan aftökusveit heldur en að leggja í ræktarferð í dag. 

Ég var að ljúka við rjúpnaafganga í verulega rjómalagaðri sósu, makkintossmoli númer tólf er að bráðna á tungunni á mér og það er tæplega klukkutími í næsta matarboð.

Ljómandi alveg hreint.

Heyrumst.