Það er föstudagur. Ég veit. En hver áttar sig svo sem á hvað dögunum líður yfir svona hátíðir?
Þessir kertastjakar prýða stofugluggann hjá foreldrum mínum. Ég er mikið búin að reyna að sannfæra þau að gefa mér að minnsta kosti annan - ég held nefnilega að þetta væru stórfín rauðvínsglös. Ég kæmi heilli flösku í eitt glas. Það myndi henta mér ó svo vel.
Fallegu, fallegu skórnir sem leyndust í jólapakkanum frá foreldrum mínum. Þau eru nú sennilega farin að þekkja sína. Ég hef nefnilega átt það til að skipta gjöfum já. Nú eða heimta að velja þær einfaldlega sjálf. Bæði foreldrar og fyrrum sambýlismaður hafa haft orð á því að það sé vonlaust að gera mér til hæfis.
En fjólubláir Dr.Martens með gulum reimum hittu svo sannarlega í mark og gott betur en það.
Ég er haldin alveg hrikalegu matarstellsblæti. Ég elska falleg stell. Elska þau og elska. Mamma mín á þessa dásemd. Ég veit ekki hvort ég á að leggja mig fram við að vera í uppáhaldi hjá henni eða hreinlega reyna að stela því. En stellið verður mitt - hvaða leið sem farin verður að því.
Uppáhalds tertan mín í öllum heiminum. Vel súkkulaði- og sýrópsbaðað Rice Krispies, rjómi, kokteilávextir og mjúkur svampbotn. Það þarf engin orð yfir þessa dýrð. Betri en allt. Já, líka rauðvín.
Í augnablikinu er ég að smyrja mig með glimmeri. Jafnvel örlitlu brúnkukremi ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég er líka með klósettpappírsrúllur í hárinu því ég gleymdi krullujárninu mínu fyrir sunnan. Ferlega smart. Nei ég ætla ekki að mynda það. Nei.
En ég verð smart á jólaballi í kvöld. Það er á hreinu.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment