Jul 28, 2015

Salat sem ég gæti lifað á


Hér er ekki um að ræða hefðbundið salat. Nei. Hélduð þið kannski að ég hefði loks snúið við blaðinu? Væri nú með háleit markmið um að lifa á kálblöðum og krúttlegum kokteiltómötum? Jafnvel gengin til liðs við kolvetnafasista og sykurleysingja?

Nei. Ó, nei. Að vísu er ég að gæla við hveiti- og sykurlausan ágústmánuð. En það er bara sökum þess að ég var spurð að því hvort ég væri ófrísk um helgina. Ef vúdú-galdrar mínir hafa borið einhvern árangur er spyrjandinn ekki lengur á meðal vor. 


Þetta salat inniheldur beikon. Majones. Kartöflur. Og er stórkostlegt með öllu.

Sambýlismaðurinn á allan heiðurinn af þessu salati. Þegar ég útbý eitthvað matarkyns fyrir bloggið mynda ég venjulega allt ferlið. Treð að minnsta kosti tuttugu myndum inn í færsluna. 

Ljósmyndirnar sem fylgja þessari færslu eru hins vegar fátæklegar. Enda stóð aldrei til að skrifa um þetta ágæta salat. Fyrr en ég smakkaði það. Sem ég hef að vísu oft gert áður. Var bara búin að gleyma um hvurslags hnossgæti væri að ræða. 


Kartöflusalat

1 kíló kartöflur
1 bréf beikon (200 grömm plús)
1 rauðlaukur
1 paprika
vænn brúskur af spergilkáli
1 dós sýrður rjómi (10%)
1 lítil dós majones
2 teskeiðar dijon sinnep
Dill
Sítrónupipar
Salt
Pipar
Örlítið karrí

Skrallið kartöflurnar og sjóðið þær. Leyfið þeim að kólna alveg áður en þær eru skornar í bita. Sjóðið spergilkálið í 4-5 mínútur. Þerrið það vel. Saxið það smátt ásamt lauknum og paprikunni. Steikið beikonið þar til það er orðið stökkt, látið kólna og saxið smátt.

Blandið saman majonesi, sýrðum rjóma og dijon sinnepi í skál. Kryddið og smakkið ykkur til. Smellið svo kartöflum, beikoni og grænmeti ofan í blönduna og hrærið vel saman. 


Ég gæti étið (borðað) þetta salat beint upp úr skálinni. Með skeið. Alla daga. Alltaf. 

Heyrumst.


No comments:

Post a Comment