Jul 31, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.




Ó, Sbarro. Pizzurnar, brauðstangirnar - almáttugur minn. Mig dreymir oftar um slíkar dásemdir en mök við Bubba. Svo ekki sé minnst á brauðstangasósuna. Guð á himnum. Vinkona mín stóð upp og gekk út af staðnum þegar ég hófst handa við að moka henni upp í mig með skeið. 


Uppáhalds lakkið mitt þetta sumarið. Frá Barry M að sjálfsögðu. Ein umferð og maður er klár í miðbæinn. Eða messu. Hvað sem er. 


Ég fæ mér ís svona einu sinni í viku. Ókei, fjórum sinnum. Ég elska ísinn sem fæst í Snæland Video í Hafnarfirði. Eins og að sleikja léttfrystan rjóma. Með ljósri karmelludýfu - mmm. Eins og mök við bragðlaukana. 


Besta sjoppa á Íslandi. Ég hef jú heimsótt þær margar. Það má treysta mér.

Ungó í Keflavík. Ég kynntist henni þegar ég bjó þar árið 2008 og var daglegur gestur. Nammibarinn, maður lifandi. Sá allra ferskasti. Snyrtilegheitin, starfsfólkið - allt. Dásamlegt alveg hreint.


Karamelludýrin í ofangreindum nammibar. Til þess að deyja fyrir! 

Já. Ég keyri frá Breiðholti til Keflavíkur fyrir þessi karamelludýr. Mig langar að líkja þeim við mök við einhvern en ég vil ekki ofgera ykkur. 

Heyrumst.

Ps - ykkur er velkomið að fylgja mér á Instagram, @gveiga85. 

Jul 30, 2014

Þingvellir.


Loksins kom sólin.

Af því tilefni heimsótti ég Þingvelli í dag. Í fyrsta skipti síðan ég var 14 ára. Þá gekk ég sennilega um með lokuð augun af því ég var að kafna yfir því að mamma og pabbi skyldu haldast í hendur á meðan gönguferð okkar stóð. Blíðuhót foreldra á almannafæri? Oj bara. 




Þessi smekkmaður í bol við hæfi. 


Það eru ansi fáar tennur eftir í þessum litla munni.

Á mánudaginn datt enn ein og á þriðjudagsmorgun var grenjað í góðan hálftíma. Tannálfurinn á Reyðarfirði gefur nefnilega alltaf 500 krónur en fátæki álfurinn í Breiðholti gaf bara 100 kall. Helvítis tannálfur.




Ég hef átt betri daga. Útlitslega séð. Stokkbólgið andlit, sokkin augu og þetta stórfína glóðurauga. Ekki beint upp á mitt besta.





Dásamlegur dagur.

Jæja, ég ætla að rífa mig úr fötunum í ellefta sinn í dag. Skima hvern einasta blett á mér. Já, ég er búin að lesa yfir mig af allskonar upplýsingum um skógarmítla. Kem ekki nálægt trjám eða hvers kyns gróðri án þess að það fylgi ákaflega ítarleg líkamsskoðun í kjölfarið. 

Heyrumst.

Jul 28, 2014

Dásamlegt Snickerssalat.



Ég gaf uppskriftina af þessu stórkostlega salati í Fréttablaðinu um helgina og var búin að lofa henni hingað inn líka. Þetta er sko svo gott að manni langar að flytja búferlum ofan í helvítis skálina. 

Já. Ég veit það er mánudagur og við erum öll í megrun. En ég ætla samt að láta flakka.

Snickerssalat:

1 pakki vanillubúðingur (Helst frá Jello)
1 bolli köld mjólk
1/2 líter rjómi
6 stykki Snickers
3 rauð epli
Jarðaber eða kiwi til skrauts.

Leysið upp búðingsduftið í mjólkinni. Þeytið rjómann og blandið honum varlega saman við búðingsblönduna. Saxið Snickers og epli og hrærið saman við. Skreytið með ferskum ávöxtum.



Einfalt, fljótlegt og fáránlega gott!

Heyrumst.

Jul 24, 2014

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Hefur þú matað Geir Ólafs? Eða látið hann mata þig?

Þið megið vera spennt fyrir þessum þætti. Hann jaðrar eiginlega við að vera klám. 



Ó, ég borðaði svo ljómandi fínan tælenskan mat fyrir stuttu. Á Ban Kúnn sem staðsettur er á Völlunum í Hafnarfirði. 1490 krónur fyrir þrjá rétti og þrjú kíló af hrísgrjónum.

Ég er tilbúin að keyra til Hafnarfjarðar fyrir það. Já ókei, ég er búin að keyra þangað nokkrum sinnum.
Djúpsteiktu rækjurnar - maður lifandi. Þær má deyja fyrir. 


Uppþvottavélin í Breiðholti er með stæla. Hér er því snætt af pappadiskum og drukkið úr plastglösum. Sama hvort það eru gestir eða ekki.

Vaska upp? Nei. Ekki að ræða það. 


Ég var að taka til um daginn. Þá sjaldan. Gróf upp leigusamninginn minn sem ég var búin að sannfæra mig um að væri í gildi til 1.október 2014. Ó, heldur betur ekki. Ég á að vera búin að yfirgefa Breiðholtið í næstu viku.

Eftir talsverðar hjartsláttartruflanir og 400 árangurslaus símtöl í leigusalann vissi ég hvað beið mín. 
Forsíða DV - ,,Býr í 15 ára gömlum Yaris." Ég var búin að þræða hverja einustu auglýsingasíðu og ekkert. Jú, sturtulaus íbúð í miðbænum á 100.000 - ,,sundlaug í næsta nágrenni." Ég ætti ekki annað eftir. Ég þoli ekki sundlaugar. Frekar þvæ ég mér með þvottapoka í aftursætinu á Yaris. 

Jæja. Þetta fór betur en á horfðist. Í bili. Ég smjaðraði örlítið. Samingurinn rennur því ekki út fyrr en 1.nóvember. 

Ég ætla að finna mér mann sem á fasteign fyrir þann tíma. 


Þarna er afkvæmið staðsett alla daga. Alltaf. 

Jæja. Ég á rauðvínslögg í þessum ágæta ísskáp síðan um síðstu helgi. Það er best að svolgra henni í sig sem snöggvast.

Heyrumst.

Jul 22, 2014

Þriðjudagur.


Ó, það er svo notalegt að vakna með þetta litla skinn alveg upp við nefið á sér á hverjum morgni. Hann nappaði af mér svefngrímunni sökum birtu í herberginu. Ferlegt vesen að eiga móður sem er með öllu ófær um að setja upp gardínur. 


Jájá. Ég treð sinnepi á allt. Líka morgunmatinn minn.




Hádegisverður í bakaríi áður en við urðum fyrir hrottalegri mávaárás við Reykjavíkurtjörn. 


Mávarnir voru ákaflega hrifnir af litla stráknum með brauðhleifinn. Þarna gerði hann heiðarlega tilraun til þess að fela brauðið fyrir aftan bak.


Þessi var aldeilis glöggur og tók sprettinn á eftir afkvæminu. Sem fór að grenja og hljóp í áttina að götunni. Ég rigsaði á eftir mávadruslunni eins og óð kona, baðandi út öllum öngum og öskrandi af örvæntingu
,,LOSAÐU ÞIG VIÐ BRAUÐIÐ!" 
Já. Svona eins og hann væri með mannskæða sprengju í höndunum. Slík voru tilþrifin. 

Jæja. Afkvæmið stoppar og lætur brauðið detta við fæturnar á sér. Neinei, það er ekki alltaf hægt að vera skærasta peran í seríunni. Koma þá ekki svona átta þúsund mávar (give or take) svífandi á hann. 

Ég gat honum enga björg veitt í þessum aðstæðum. Enda lafhrædd við allt sem ekki er viti borið og gengur upprétt. Barnið stóð bara stjarft í þessum lífsháska þangað til svona fjögurra ára pjakkur óð sparkandi inn í mávaþvöguna. 

Móðir ársins. Enn og aftur.

Í sárabætur féllst ég á að fara með hann í bíó. Á Tarzan. Aftur. Jú við fórum líka á hana í síðustu viku. Það voru svona 10 mínútur liðnar af myndinni þegar afkvæmið þarf að pissa. Auðvitað. Ég nennti svo aldeilis ekki að fara að klöngrast með hann í myrkrinu og ónáða fullan sal af fólki þannig að ég laug að það væri alveg að koma hlé. Góðum fimm mínútum síðar gólar hann:

,,Mér er svo illt í typpinu af því þú nennir ekki með mig að pissa!"

Nei. Honum liggur ekki lágt rómur. Höfum það á hreinu. 


Til þess að ljúka þessum degi og fagna því að bæði afkvæmið og æxlunarfærin á honum væru í heilu lagi fengum við okkur pizzur. Ljómandi fínar alveg. 

Bingókúlur í eftirrétt. 

Já, heilbrigði lífstíllinn gengur vel. Mjög svo.

Heyrumst.

Jul 21, 2014

Mögulega hollari týpan af hamborgara.


Eggjaborgari!

Ég lofaði víst upp í ermina á mér í gær að reyna að lifa heilbrigðara lífi. Mig langaði samt í hamborgara í kvöld. Þessi lífstílsbreyting verður auðvitað tekin í hænuskrefum. Öðruvísi geri ég ekki hlutina. Hægt en örugglega. Það er minn stíll. 

Djöfull sem mig langaði í franskar með þessu líka. Sjoppufranskar sko. Einn vel djúpsteiktan skammt. Með mikið af kryddi. Dýfa hverri einni og einustu í tómatsósu og láta þær leika um mjúkar varir mínar. 

Nei. Ég borða ekki kokteilsósu. Ótrúlegt en satt. Það er fyrirbæri sem er mér með öllu óskiljanlegt.

Aftur að þessum fína hamborgara.


Ég borða heldur ekki hamborgarasósu. Oj bara. Það fer alltaf tómatsósa og sterkt sinnep á minn borgara. Nema það sé bernaisesósa í boði. Þá alltaf bernaise. 


Allt í lagi. Hollustan fór kannski smá til fjandans með þessu sósumagni. Ég á ferlega erfitt með að hemja mig í sósunum. Ég vil allt vel sósubleytt. 


Tvö spæld egg í staðinn fyrir hamborgarabrauð. Brauð er auðvitað rót alls ills í heiminum. Að mér skilst. Grænmeti og kjöt á milli.


Æ, ég setti nú líka smá ost á borgarann. Tvær agnarsmáar sneiðar. Ég er nú ekki steindauð að innan þó ég þrái hollara líferni. 


Ah, ljómandi gott. 

Eitt egg hefði sennilega alveg dugað. Ég er gjörsamlega afvelta eftir þennan snæðing.

Samt langar mig ennþá í franskar.

Heyrumst.

Jul 20, 2014

Sunnudagsmaski.

Ég lít út eins og ósofinn fermingarstrákur á miðju kynþroskaskeiði þessa dagana. Ég er öll í bólum, þurrkublettum og öðrum ófögnuði. Að ógleymdum baugunum sem ná nánast niður að geirvörtum.

Kannski, bara kannski á ég einhverja sök á þessu útliti mínu. Ég borða drasl. Annað er undantekning. Ég drekk aldrei vatn. Bara aldrei. Mér finnst miklu skemmtilegra að vaka en sofa - þannig að ég geri alltof lítið af því. Stundum sofna ég líka kafmáluð. Jájá. Ég viðurkenni það aftur opinberlega. Það skeður samt bara stundum. Þegar ég er afar lúin. Nú eða rauðvínsmaríneruð.  

Ég ætla að fara að hugsa betur um mig. Frá og með núna. Þetta gengur ekki. 
Ég skarta líka orðið sjö hrukkum. SJÖ!

Jæja. En að máli málanna - dásamlega góðum heimatilbúnum maska sem fór á mitt illa leikna andlit fyrr í kvöld.



Ég maukaði saman hálft avacado, væna skvettu af hunangi og fáeina vatnsdropa með töfrasprota.



Mixtúrunni er smellt inn í ísskáp í svona 10 mínútur áður en hún fer á andlitið.


Maskinn má vera á andlitinu alveg í góðan hálftíma.


Ég er ennþá bólótt. Með bauga. En mjúk eins og silki get ég sagt ykkur. 

Svínvirkar.

Heyrumst.