Jul 22, 2014

Þriðjudagur.


Ó, það er svo notalegt að vakna með þetta litla skinn alveg upp við nefið á sér á hverjum morgni. Hann nappaði af mér svefngrímunni sökum birtu í herberginu. Ferlegt vesen að eiga móður sem er með öllu ófær um að setja upp gardínur. 


Jájá. Ég treð sinnepi á allt. Líka morgunmatinn minn.




Hádegisverður í bakaríi áður en við urðum fyrir hrottalegri mávaárás við Reykjavíkurtjörn. 


Mávarnir voru ákaflega hrifnir af litla stráknum með brauðhleifinn. Þarna gerði hann heiðarlega tilraun til þess að fela brauðið fyrir aftan bak.


Þessi var aldeilis glöggur og tók sprettinn á eftir afkvæminu. Sem fór að grenja og hljóp í áttina að götunni. Ég rigsaði á eftir mávadruslunni eins og óð kona, baðandi út öllum öngum og öskrandi af örvæntingu
,,LOSAÐU ÞIG VIÐ BRAUÐIÐ!" 
Já. Svona eins og hann væri með mannskæða sprengju í höndunum. Slík voru tilþrifin. 

Jæja. Afkvæmið stoppar og lætur brauðið detta við fæturnar á sér. Neinei, það er ekki alltaf hægt að vera skærasta peran í seríunni. Koma þá ekki svona átta þúsund mávar (give or take) svífandi á hann. 

Ég gat honum enga björg veitt í þessum aðstæðum. Enda lafhrædd við allt sem ekki er viti borið og gengur upprétt. Barnið stóð bara stjarft í þessum lífsháska þangað til svona fjögurra ára pjakkur óð sparkandi inn í mávaþvöguna. 

Móðir ársins. Enn og aftur.

Í sárabætur féllst ég á að fara með hann í bíó. Á Tarzan. Aftur. Jú við fórum líka á hana í síðustu viku. Það voru svona 10 mínútur liðnar af myndinni þegar afkvæmið þarf að pissa. Auðvitað. Ég nennti svo aldeilis ekki að fara að klöngrast með hann í myrkrinu og ónáða fullan sal af fólki þannig að ég laug að það væri alveg að koma hlé. Góðum fimm mínútum síðar gólar hann:

,,Mér er svo illt í typpinu af því þú nennir ekki með mig að pissa!"

Nei. Honum liggur ekki lágt rómur. Höfum það á hreinu. 


Til þess að ljúka þessum degi og fagna því að bæði afkvæmið og æxlunarfærin á honum væru í heilu lagi fengum við okkur pizzur. Ljómandi fínar alveg. 

Bingókúlur í eftirrétt. 

Já, heilbrigði lífstíllinn gengur vel. Mjög svo.

Heyrumst.

1 comment:

  1. HAHAHA - ég dýrka þetta barn þitt. Hefði ég verið í bíósalnum og heyrt krakka segja svona, þá hefði ég gefið honum nammi. Verður að verðlauna svona einlægni og dásamlega fyndni!
    Er hann svona alla daga? (Glæsilegur í Pollapönk outfitti, með eitthvað matarkyns í annari lúkunni? Ímynda mér það :)

    xx H

    ReplyDelete