May 30, 2015

New shoes


Allt í lagi, ég finn mig knúna til þess að segja frá þessum skóm. Af því þeir eru fallegir. Og voru ódýrir. Og ég elska allt sem er ódýrt. Og kaupi alltaf allt sem er passlega billigt. Aurasálin sem ég er.

Jájá, afskaplega þversagnakennd aurasál. Meðvituð um það. Ég tel mig ákaflega sparsama. Af því að allt sem ég versla er ódýrt. En á móti er ég alltaf andskotans verslandi. Nú heyri ég rödd móður minnar í öðru eyranu. Og sambýlismannsins í hinu.

Safnast þegar saman kemur Guðrún Veiga. Safnast þegar saman kemur.

Dýrasta skópar sem ég á kostaði 13.000. Langdýrasta parið. Sem ég hef fleygt peningum í sjálf sko. Það eru einhverjar jóla- og afmælisgjafir í skóhillunni. En þær teljast ekki með. Aldeilis ekki. 

Safnast þegar saman, blablabla. Þetta gæti verið verra. Miklu verra. 



Ég og vinkona mín flögruðum um hálft höfuðborgarsvæðið fyrir stuttu. Í leit að svona skóm. Með hálfu höfuðborgararsvæðinu á ég við að við fórum í Topshop og Hagkaup. Þar voru til áþekk skópör en ekki eitt einasta par fyrir bífurnar sem ég skarta. Í stærð 40-41. Ömurleg stærð. Og á báðum stöðum kostuðu skórnir um og yfir 6000 krónur. 

Fáeinum dögum síðar var ég að rúlla yfir Instagram. Þar sem ég fylgist með allt og öllum. Fólki, bloggum, búðum - nefndu það. Ég rek augun í mynd af svona skóm. Sé að myndin tilheyrir einhverju sem heitir favor.isSem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Af því ég fylgi bara hinu og þessu. Hingað og þangað. 

Jæja, ég slæ þessari slóð inn í tölvuna. Þá er þetta búð á Akureyri. Sem átti til skó í minni stærð. Og það á 3.990 krónur. Selt. Selt og slegið. Klárt mál. 



Það eru til svona hvítir líka. Skjannahvítir. Eins og nýfallin mjöll. Óskrifað blað. Syngjandi sætir. Ó, mig langar. En eitt par er nóg. Er það ekki? Jú, feikinóg. 

Jæja, ég er búin að eyða 45 mínútum í að slá skópari gullhamra. Komið gott.

Ég er farin í Kolaportið. Að versla bækur. Harðfisk. Og skonsur. 

Þið getið fundið mig á Instagram og Snapchat - @gveiga85.

Heyrumst.

May 26, 2015

Helst í fréttum

Ef ég læt líða fleiri en þrjá daga á milli þess sem ég blogga verður allt ómögulegt. Ég verð ómöguleg. Pirruð. Kvíðin. Ég fer öll að iða. Finnst ég hugmyndalaus. Með greindarvísitölu á við eldspýtustokk. Pirringurinn eykst svo bara. Og eykst. Og nær slíku hámarki að ég verð pirruð við sjálfa mig fyrir það eitt að vera pirruð. Allt út af einhverju bloggi. Þráðurinn verður stuttur. Pirringurinn við suðumark. Ég næ mér ekki niður. Finn ekki rónna eða hvatann til þess að blogga. Algjör vítahringur. Skrýtinn vítahringur. 

Á sjöunda degi bloggleysis hringir mamma yfirleitt. Skammar mig fyrir að hringja aldrei. Þó ég hafi hringt í hana kvöldið áður. Svo spyr hún. Ertu hætt að blogga? Ég verð pirruð. Skelfilega pirruð. Ber fyrir mig að vera í andlegri lægð. Að loknu símtali er ég harðákveðin í að hætta. Að þetta sé komið gott.

Svo ligg ég í rúminu og reyni að sofna. Þá hrekkur allt í gang. Bölvaður heilinn hættir ekki. Hann stílfærir hverja einustu hugsun yfir í bloggfærslu. Gerir mig brjálaða. Og ég hætti við að hætta. Snarhætti.

Þetta er sérkennilegt. Hvernig það getur togast á í mér uppgjöf, einskær vilji til þess að gera gveiga85 bara að góðri minningu. Og svo þörfin fyrir að halda áfram, að gveiga85 sé hluti af mér sem ég geti ekki sleppt svo auðveldlega. Um leið og ég hætti hellist þörfin yfir mig. Þörfin til þess að skrifa. Þó að það sé ekki um neitt sem mögulega getur talist merkilegt. Ég bara þarf. Verð.

Undarlegt.


Ég hef hætt að blogga sjötíu sinnum síðan ég byrjaði. Give or take. Og hér er ég enn. Fer sennilega ekki langt. Verð bloggandi steingervingur. Pissfullur og akfeitur steingervingur. 


Í fréttum er fátt. Ég byrjaði að safna augabrúnum í síðustu viku. Skotgengur. Ég er að brúka einhvern sérlegan vaxtarvökva frá Gosh. Sem ég keypti árið 2013. Jú, allar mínar fjárfestingar gera gagn á endanum. Eins og ég segi sambýlismanninum í sífellu. Sem nota bene er ennþá siglandi á Grænlandsmiðum. Eða einhversstaðar. Sex vikum síðar. 


Þessi kjóll var búinn að liggja inni í skáp með vel vænt gat á rassinum í mörg ár. Eitt kvöldið var ég að kafna úr framtakssemi. Sem er nokkuð óvenjulegt. Ég reif fram nál og tvinna. Stoppaði í gatið eins og ég hefði aldrei gert neitt annað. 


Fleygði mér í kjólinn daginn eftir. Klappaði sjálfri mér á bakið. Hvílik myndarlegheit. Hagsýni og endurvinnsla. Hver þarf ný föt? Ekki ég. 

Ég rúllaði svo til Keflavíkur að dæma í bollakökukeppni. Sat við hliðina á Jóa Fel og fann hvernig mitt eigið handbragð byrjaði að bregðast mér. Svona á milli þess sem ég þefaði af honum. Í laumi. 

Við hverja hreyfingu stækkaði gatið. Við skulum hafa á hreinu að mér finnst einkar óþægilegt að vera í nærbuxum þegar ég skarta þykkum nælonsokkabuxum. Þannig að já. Já. Jájá. 

Þessi saga er svo óþægileg að ég ætla ekki einu sinni að klára hana. Blessunarlega, fyrir bæði mig, Jóa og aðra gesti, var dimmt þarna inni. Að ég held. Meðvitund mín fjaraði eiginlega út á einhverjum tímapunkti. Sykurvíma. Rakspíravíma. Bert rassgat á stól í Keflavík. Þetta var of mikið.

 Ég hljóp svo hratt út í bíl að loknum dómarastörfum að ég sá ekki hvort það var nótt eða dagur. Sumar eða vetur. Vissi ekki hvort ég væri almennt lífs eða liðin. 

Nóg um það. Feikinóg.



Sambýlismaðurinn hringir reglulega þarna frá Grænlandi. Noregi. Færeyjum. Hvar sem hann er. Til þess eins að minna mig á að fara með Yarra í viðgerð. Það straujaði einhver af honum hliðarspegilinn fyrir stuttu. Mögulega gerði ég það sjálf. Get ekki svarið fyrir það.  

Það er jú bæði ólekker og hættulegt að hafa hliðarspegilinn hangandi ónofhæfan á hurðinni. En ég er bara búin að redda þessu. Hjálparlaust. Okkur að kostnaðarlausu. Tjah, einangrunarlímbandið kostaði 990 krónur. Látum það eiga sig. 

Ég get bæði saumað föt og gert við bíla. Hvílíkt kvonfang.

Jæja. Svona vill þetta enda eftir langa þögn. Þá tala ég út í eitt. Kann mér ekki hóf. Get ekki hætt.

Ókei, hætt.

Heyrumst.

May 16, 2015

Laugardagslokan


Ég er að lepja dauðann úr skel hérna. Í orðsins fyllstu. Ég er með kvef upp í enni. Missi dálitla heyrn í hvert skipti sem ég snýti mér. Pissa aðeins í mig við hvern hnerra. Og ber orðið mikla virðingu fyrir svokölluðum eyrnabörnum. Þetta er eins og að vera með tannpínu í eyrunum. Andskotinn hafi það.

Ég reyndi við óhefðbundnar lækningar hérna í gærkvöldi. Sauð saman baneitraða hvítlauksolíu og hellti henni inn í eyrun á mér. Vel spilað. Ég lykta eins og úldið hvítlauksbrauð. Sem búið er að liggja í ruslatunnu í 12 daga. Koddinn minn lyktar eins. Og sængin. Og svefnherbergið almennt. 

Afkvæmið neitar að koma nálægt mér af því það er fýla af mér. 

Þetta kukl mitt bar nota bene engan árangur. 


Mig langaði í snakk í morgunmat. Af því ég er lasin. Og vorkenni mér meira en orð fá lýst. 

Mér fannst samt skrambi langt gengið að éta það beint upp úr pokanum. Allt í lagi, borða það beint upp úr pokanum. Whatever. Þannig að ég tróð því inn í samloku. Sem var gott. Hrikalega gott. 

Þetta er einfalt. 2 brauðsneiðar. Skinka. Ostur. Snakk að eigin vali. Mitt var með grillbragði. Mmm. 




Raða öllu hráefni vel og vandlega. Borða fimm flögur eða svo. 


Nóg af snakki. Af því ég er lasin. Og það er laugardagur.


Já, ég er vísvitandi að troða puttunum á mér inn á allar myndirnar. Ég er með svo fínt naglalakk.


Ég á ekki samlokujárn.


Nei, ég nennti ekki að þrífa vöfflujárnið áður en ég brúkaði það. Ég er lasin. 



Stórkostleg loka. Stökkt snakk löðrandi í osti og unaði. 

Gott, gott, gott. 

Jæja. Ég ætla í bað. Áður en afkvæmið lætur mig flytja búferlum út í kofann sem er í garðinum. 

Heyrumst.

May 12, 2015

Fallegasta. Flík. Í. Heimi.


Já. Hún er fundin. Fallegasta flík í heimi. Fagurt hlébarðamynstur, fáein blóm og fullt af litum. 

Ég þurfti nánast skyndihjálp þegar við hittumst fyrst. Það slapp þó blessunarlega til. Enda enginn hér til þess að veita mér nokkra lífsbjörg. Afkvæmi mitt er svo utan við sig að hann tæki ekki eftir því þó að 17 villtir hestar myndu jafna mig við jörðu. Hérna á stofugólfinu. Beint fyrir framan nefið á honum.

Jú, mögulega myndi hann átta sig á að ekki væri allt með felldu. Svona þegar hann færi að tala fyrir daufum eyrum. Þegar engin væru svörin við hans ó svo mörgu og misgáfulegu spurningum. 

Má ég fá eitthvað að borða? Hvað er í matinn? Ertu að elda? Hvenær ætlar þú að elda? Má ég fá eitthvað að borða? Má fá kók á þriðjudögum þegar pabbi er ekki heima? Ert þú að drekka kók? Hvað ert þú að tyggja? Ertu með nammi? Er til nammi? Hvað eru margir dagar þangað til það kemur nammidagur? Má ég fá eitthvað að borða? Eigum við að spila? Hvað eru margar mínútur þangað til ég á að fara að sofa? En sekúndur? Hvað er klukkan í Kína? Má ég fá eitthvað að borða? Af hverju færð þú að vaka lengur? Borðar þú nammi þegar ég er sofnaður? 

Já. Það eru þrjár vikur síðan sambýlismaðurinn fór. Þrjár. 

Namaste. Innri friður og allt það. 


Snúum okkur aftur að flíkinni. Fallegu, fallegu flíkinni. Eins og hún sé hönnuð með mig í huga. 


Þessi stórglæsilegi kimono er hannaður og saumaður af fyrrum nágranna mínum, hinni afar hæfileikaríku Báru Atladóttur.



Við mæðginin voru í miklu stuði hérna í gærmorgun. Afkvæmið að sjáfsögðu á bak við myndavélina. Lifandi sig inn í ljósmyndarastörfin. Dansaðu mamma, dansaðu. 

Þess má geta að engin var greiðslan fyrir þessa myndatöku. Ég hótaði honum bara að hann fengi engan kvöldmat. Í þrjá daga. 

Svínvirkaði.

Djók.


Ekki nóg með að þessi kimono sé fegurri en nokkuð annað þá er verðmiðinn líka skínandi fínn. Níu þúsundkallar. Fyrir blóm, hlébarðamynstur og undursamlega litadýrð. Selt. Við fyrsta hamarshögg. 

Ég mæli með því að þið gluggið á úrvalið hjá Báru. En, to, tre!

Þess má einnig geta að hún er með opið hús á fimmtudaginn næstkomandi. Í Fífuselinu okkar góða. Þar verður hægt að gera reyfarakaup. Nánari upplýsingar hérna.

Jæja, afkvæmið heimtar kvöldkaffi á milli þess sem hann volar yfir þriggja vikna gömlu sári. 

Namaste.

Heyrumst.

May 11, 2015

Brjóst & salsa


Það er búið að vera ferlega bjart yfir mér í dag. Svo gott veður. Svo góð helgi að baki. Allt í plús. Ég og afkvæmið eyddum helginni að mestu leyti í Sundhöll Reykavíkur. Sem var stórkostlegt. Fyrir utan mistökin sem ég gerði við sundfatakaup. 

Ég keypti mögulega topp í skálarstærð D. Höfum á hreinu að ég er í A. Mínus A sennilega. Toppurinn sem ég keypti er eiginlega með svona útblásin brjóst í stærð D. Efnið leggst ekkert að mínum brjóstum neitt. Nóbb. 


Allt í lagi. Þetta gæti alveg verið skálastærð C. Eða eitthvað. Þetta er að minnsta kosti miklu stærra rými en mínir dyrahnappar þurfa. Svo er mjög augljóst að ekki er um alvöru brjóst að ræða. Bara bringa og svo tvær kúlur. Lekker. Hrikalega lekker. 

Jæja. Ég ætlaði ekki að tala um júllurnar á mér í dag. Eða aðkeyptu júllurnar mínar. Heldur salsa. Jarðarberjasalsa. Sem er bjart og gott. Litríkt og ljúffengt. 


Jarðarberjasalsa:

2 litlar lárperur
1 box jarðarber (250 grömm)
1-2 chili-aldin
1/2 rauðlaukur
safi úr 1/2 lime
1/2 teskeið salt
1/4 teskeið hvítlauksduft
kóríander eftir smekk (eða bara mikið, ógeðslega mikið)


Söxum allt niður og blöndum saman í skál.


Kryddum og kreistum lime-ið yfir. Hrærum allt varlega saman.



Virkilega gott. Súrt, salt, sætt - stórkoslegt bragðlaukadjamm. 


Gott með söltuðu nachos-i. Eða bara með skeið. Og beint upp í munn. 

Mmm.

Heyrumst.

May 9, 2015

Flower Power


Stundum hitti ég fólk sem les bloggið mitt. Og þekkir mig alveg merkilega vel. Veit nákvæmlega hvernig á að fá hjarta mitt til þess að taka aukaslag.

Ég var einmitt á kaffihúsi fyrir stuttu. Ásamt afkvæminu. Auðvitað. Hann gæti jú nánast verið búsettur í legi mínu ennþá. Allavega. Við vorum með okkar hefðbundnu pöntun. Kakó fyrir börn (lítið af kakói - mikið af rjóma) og tvöfaldan cappucino. 

Þegar ég ætla að borga segir stúlkan sem er að afgreiða: ,,Það er sko til ostakaka. Með Oreokexi. Þú verður eiginlega að smakka hana."  

Ég var auðvitað ægilega upp með mér. Baðaði mig í frægðarljóma. Sveiflaði hárinu. Leit í kringum mig. Skimaði eftir fleiri aðdáendum. Nei, allt í lagi. Það var bara þessi eini. Frægðarsólin lækkaði á lofti. Hratt og örugglega. 

Æ, ég hef glettilega gaman að svona uppákomum. Ég játa. Það er bara svo gaman að hitta fólk. Fólk sem les það sem ég skrifa. Ég verð alltaf svo uppveðruð. Montin og meyr. 


Já. Snúum okkur að næstu sögu. Ég var á einhverju flandri um Kringluna á fimmtudaginn. Væflaðist minn venjulega hring. Vero Moda, Vila, örstutt viðkoma á Nammibarnum. Svo eitthvað sé nefnt. 

Ég var með nefið á kafi í einhverjum skyrtum í Vila þegar þessum fallega kimono er veifað fyrir framan mig. Svo heyrist: ,,Þetta ERT þú". Ó, naglinn á höfuðið þar. Þetta mál þurfti ekki að ræða neitt frekar. Ég læsti krumlunum um herðatréð og þakkaði fyrir mig. 



Þessi blóm. Ég er svo veik fyrir öllu blómamynstruðu. Svo afar veik.


Allt í lagi. Þessi samfestingur var keyptur í sömu ferð. Fáránlega þægilegur. Dálítið fleginn en því má bjarga. Með bol eða fallegum topp. Svona ef maður skartar engri skoru. Bara alls engri. 

Sambýlismaðurinn hringdi áðan. Einhversstaðar af Grænlandsmiðum. Eða hvar sem hann nú er. Í samtalinu sagði hann meðal annars: ,,Erum við ekki að spara svakalegan pening núna? Svona þegar ég er ekki heima. Þið borðið nú varla mikið?"

,,Kuuuuurrrrrrrr, halló, halló - ég heyri ekkert í þér ástin mín. Sambandið er að slitna."

Svo skellti ég á. 

Já, ég er fullmeðvituð um hvar ég enda við lífslok. 

Heyrumst.

May 8, 2015

Fimm hlutir á fimmtu(föstu)degi



Almáttugur, ég gerði svo góð kaup í Tiger um daginn. Allt í lagi, kannski ekki góð kaup. En skemmtileg. Virkilega skemmtileg. Ég get gleymt mér yfir þessari litabók tímunum saman. Lita, lita og lita. Eins og Van Gogh á góðum degi. Svona næstum. 

Ég hef samt reglulega fengið verk fyrir hjartað síðan þessi kaup voru gerð. Stundum kemur afkvæmið nefnilega og vill lita með. Móðir ársins kemur sér fimlega undan þeirri bón. ,,Hey, hérna er blað. Lita þú á það. Ókei?" Brjóstverkurinn orsakast af því að ég get ekki hugsað mér að það verði litað út fyrir í bókinni minni. Get bara ekki hugsað þá hugsun til enda. Þá yrði allt ónýtt. Ég þyrfti að fleygja henni og kaupa nýja. 

Fínhreyfingar mínar brugðust mér einmitt í gærkvöldi. Ég litaði aðeins út fyrir. Bölvaði mér í sand og ösku og ætlaði að grýta skruddunni í ruslið. Á ögurstundu áttaði ég mig á að ég gat lagað mistök mín með dekkri lit. Guði sé lof. 


Vinkona mín sá sig knúna að upplýsa mig um einhvern netmarkað hjá Forlaginu. Hellingur af bókum á innan við þúsundkall. Það var eins og við manninn mælt. Ég var mætt. Tætti í körfu eins og trítilóð kona. 

Ég er bara að gera gagn. Einhver þarf að versla bækur. Stemma stigu við þessari bölvuðu rafbókaþróun. Ég endurtek orð mín frá því í haust: Ég er ekki hrifin af fyrirbærum á borð við rafbækur eða Kindle. Hvað sem þetta kallast nú. Ótrúlega lítið sjarmerandi - þó ég geti vel skilið þægindin. Ég vil þukla á blaðsíðum. Finna lyktina. Ah, stilla bókunum upp í hillu. Fátt fegurra. 

Punktur. Ég elska bækur. Með blaðsíðum. Og bókalykt. 


Þetta á að vera meistaraverk. Ég er bæði spennt og kvíðin.

Á níræðisafmæli sínu ákveður sögumaður þessarar bókar - þekktur pistlahöfundur og óforbetranlegur piparsveinn - að veita sér munað: eldheita nótt með hreinni mey. 

Þetta kallar á fáeinar lúkur af Nóa kroppi og hálft rauðvínsglas. 


Ég kom auga á þetta á afgreiðsluborðinu í BodyShop um daginn. Einn skammtur af andlitsmaska. Dugir samt tvisvar. Að minnsta kosti á mitt granna og fíngerða fés. 

Þetta er sniðugt ef þú vilt ekki splæsa í heila krukku án þess að prófa maskann fyrst. Nú eða ef þú tímir bara ekkert að splæsa í krukku yfir höfuð. Eins og ég. 

Já, ég spara á furðulegustu stöðum. 


Besti morgunverður í heimi. Þessa dagana að minnsta kosti. Hummus frá Sóma (af því ég nenni ekki að búa til minn eigin), reykt skinka og soðið egg. Ofan á stinna og fína sneið af Finn Crisp. 

Gott. Mjög gott. 


Týpísk morgunstund á Gunnarsbrautinni. Ég að snæða, smyrja nesti og rífa út úr uppþvottavélinni - allt um leið. Enda fór afkvæmið nestislaust í skólann í dag. Ég stakk nestinu hans upp í skáp og lét tómt box flakka í töskuna hans. 

Ekki í fyrsta skipti. 

Jæja. Daprar hórur og Nóa kropp. Og rauðvínstár.

Það má finna mig og elta á bæði Snapchat & Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

May 6, 2015

Miðvikudagur


Að fá afkvæmið til þess að gera sér greiða er svipað og að reyna að semja við smálánafyrirtæki. Get ég ímyndað mér. Eða einræðisherra. Það er ekkert gefið eftir. Engin miskunn. 

Eftirfarandi samingaviðræður áttu sér stað í morgun:

Ég: Getur þú tekið nokkrar myndir fyrir mömmu á eftir?
Afkvæmi: Nei.
Ég: Æ, ekki láta svona. Gerðu það. Fyrir mömmu.
Afkvæmi: Á ég að taka myndir af þér?
Ég: Já.
Afkvæmi: Ég ætla ekki að gera það úti í garði eins og þú lætur pabba gera. Ég vil ekkert að fólk sjái mig vera að taka einhverjar myndir af þér sko.
Ég: Eh, nei. Neinei. Bara hérna inni.
Afkvæmi: Tvær. Ég tek tvær myndir. Og ég fæ Lucky Charms í morgunmat.
Ég: Selt og slegið.
Afkvæmi: Og kjötbollur í kvöldmat.


Sjö kíló af sykri í morgunmat. Já, stundum sel ég sálu mína. 



Ég fékk myndir. Ég svífst einskis fyrir myndir. Stofna jafnvel tannheilsu og holdafari afkvæmsins í stórhættu. 

Snúum okkur að kjólnum. Kjóllinn já. Þetta er þægilegasti kjóll sem ég hef átt. Ég keypti hann í Vila í febrúar. Hef vart farið úr honum síðan. Ég er nokkuð viss um að vinnufélagar mínir eru sannfærðir um að ég eigi einungis þessa einu spjör. 

Svo kostaði hann líka bara einn bláan. Rétt rúmlega. 

Ég tók minn í XL. Þessi bossi þarf sitt pláss. 


Gulir skór. Af því það er ekkert gaman að vera bara í bláu og svörtu. 


Já, hendum rauðu naglalakki inn í jöfnuna líka. Fínt. Stórfínt.


Ég er ennþá að réttlæta leðurjakkakaupin fyrir mér. Þannig að ég geng í honum við allt. 

Ég þarf líka að eiga nóg af myndum af mér í honum. Til þess að sýna sambýlismanninum hvað ég er búin að nota hann ógeðslega mikið. Svona þegar hann kemur heim í júní. Og áttar sig á því að ég hef verið eftirlits- og eirðarlaus í heilar sex vikur. 

Almáttugur, ég var að eignast svo fallegt kimono í dag. Þarf að sýna ykkur það við tækifæri. Einmitt, já. Hlakka rosalega til að fá sambýlismanninn heim. Æ, hann verður sennilega bugaður af söknuði og sorg. Tekur ekkert eftir því hvort hann er að rífa mig úr nýjum eða gömlum fötum. Sér það ekki fyrir greddu og gleðitárum.

Djók.

Ég á líka eftir að segja honum að ég hafi farið um gjörvallt internetið á nærbuxunum í síðustu viku. 

Ég míg í mig úr tilhlökkun bara. 




Jæja. Ég ætla að eiga fáeinar mínútur með sjálfri mér. 

Áður en ég greiði skuld mína við einræðisherrann og hefst handa við kjötbollugerð. 

Heyrumst.