May 9, 2015

Flower Power


Stundum hitti ég fólk sem les bloggið mitt. Og þekkir mig alveg merkilega vel. Veit nákvæmlega hvernig á að fá hjarta mitt til þess að taka aukaslag.

Ég var einmitt á kaffihúsi fyrir stuttu. Ásamt afkvæminu. Auðvitað. Hann gæti jú nánast verið búsettur í legi mínu ennþá. Allavega. Við vorum með okkar hefðbundnu pöntun. Kakó fyrir börn (lítið af kakói - mikið af rjóma) og tvöfaldan cappucino. 

Þegar ég ætla að borga segir stúlkan sem er að afgreiða: ,,Það er sko til ostakaka. Með Oreokexi. Þú verður eiginlega að smakka hana."  

Ég var auðvitað ægilega upp með mér. Baðaði mig í frægðarljóma. Sveiflaði hárinu. Leit í kringum mig. Skimaði eftir fleiri aðdáendum. Nei, allt í lagi. Það var bara þessi eini. Frægðarsólin lækkaði á lofti. Hratt og örugglega. 

Æ, ég hef glettilega gaman að svona uppákomum. Ég játa. Það er bara svo gaman að hitta fólk. Fólk sem les það sem ég skrifa. Ég verð alltaf svo uppveðruð. Montin og meyr. 


Já. Snúum okkur að næstu sögu. Ég var á einhverju flandri um Kringluna á fimmtudaginn. Væflaðist minn venjulega hring. Vero Moda, Vila, örstutt viðkoma á Nammibarnum. Svo eitthvað sé nefnt. 

Ég var með nefið á kafi í einhverjum skyrtum í Vila þegar þessum fallega kimono er veifað fyrir framan mig. Svo heyrist: ,,Þetta ERT þú". Ó, naglinn á höfuðið þar. Þetta mál þurfti ekki að ræða neitt frekar. Ég læsti krumlunum um herðatréð og þakkaði fyrir mig. 



Þessi blóm. Ég er svo veik fyrir öllu blómamynstruðu. Svo afar veik.


Allt í lagi. Þessi samfestingur var keyptur í sömu ferð. Fáránlega þægilegur. Dálítið fleginn en því má bjarga. Með bol eða fallegum topp. Svona ef maður skartar engri skoru. Bara alls engri. 

Sambýlismaðurinn hringdi áðan. Einhversstaðar af Grænlandsmiðum. Eða hvar sem hann nú er. Í samtalinu sagði hann meðal annars: ,,Erum við ekki að spara svakalegan pening núna? Svona þegar ég er ekki heima. Þið borðið nú varla mikið?"

,,Kuuuuurrrrrrrr, halló, halló - ég heyri ekkert í þér ástin mín. Sambandið er að slitna."

Svo skellti ég á. 

Já, ég er fullmeðvituð um hvar ég enda við lífslok. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment