Nov 30, 2012

Eplakaka fyrir eldhúshamlaða.

Ég fann agalega einfalda uppskrift af eplaköku áðan. Bara fjögur hráefni - passlega mikið fyrir minn litla eldhúsheila. Þessi útgáfa af eplaköku er nú líka dálítið hollari en sú hefðbundna. Það er að minnsta kosti ekkert bras með smjör eða olíu í þessari uppskrift.


Eplakaka.

3 epli - ég notaði tvö græn og eitt rautt
3 egg
1 bolli hveiti
1 bolli sykur - ég notaði hrásykur, einungis til þess að telja samviskunni trú um að kakan sé meinholl

Ofninn er hitaður í 200°. Eplin skorin gróft niður. Eggjum, sykri og hveiti er hrært vel saman. Eplum hent út í. Skellt í form - samkvæmt uppskriftinni er best að nota 20 cm hringform en ég átti það að sjálfsögðu ekki til. Kakan er bökuð í 20 mínútur við 200° svo er hitinn lækkaður niður í 160° og kökunni leyft að malla í 20 mínútur í viðbót. Hún gæti þó þurft pínulítið lengri tíma - hún á að vera blaut en samt ekki hrá. Það er fínt að pota í miðjuna á henni með tannstöngli þegar bökunartímanum er lokið. Mín var inni í rúmlega 45 mínútur.

Stórfín kaka get ég sagt ykkur. Það voru tvær veglegar sneiðar í hádegismat á þessu heimili. Verst að það var ekki til vanilluís með - það hefði nú alveg verið draumur!



Bookfetish.

Ég er með mikið blæti fyrir bókum og fallegum bókahillum.










Þessar neðstu eru draumurinn. Ég elska svona stigabókahillur í öllum útgáfum. Ó hvað er auðvelt að detta í dagdrauma þegar raunveruleikinn lítur svona út:


Ég stal öllum myndunum héðan. Nema auðvitað þessari hérna fyrir ofan. Hún sýnir blákaldan veruleika minn klukkan 05:40 í morgun!


Nov 29, 2012

Ekki kaup vikunnar.

Ég ætlaði nú að dekra pínulítið við mig og kaupa mér sjampó til þess að reyna að lífga aðeins upp á hárið á mér. Það er búið að vera í einhverju hálfgerðu lamasessi undanfarið.


Ég keypti þetta sjampó og næringu frá John Frieda. Þetta er auðvitað ekkert nýtt á markaðnum en ég notaði fyrir löngu einhverjar krulluvörur frá þessu merki og man ekki betur en mér hafi líkað nokkuð vel. Það var nú ekki raunin í þetta sinn. Þetta sjampó á að láta hárið líta út fyrir að vera þykkra og gefa því aukna fyllingu. Ég féll að sjálfsögðu fyrir þeim loforðum.


En því er nú heldur betur öfugt farið. Ég er búin að vera eins og ég sé með dauðan fugl á hausnum alla vikuna. Fyrst hugsaði ég ekkert út í að þetta gæti mögulega verið sjampóið, hélt bara að hárið á mér væri með meiri stæla en venjulega. En nei, ég notaði mitt venjulega sjampó í gær og hárið varð eðlilegt aftur. Eins eðlilegt og það getur orðið að minnsta kosti. Það lítur út eins og gamall strákofi þessa dagana og þetta bévítans sjampó bætti ástandið svo sannarlega ekki. 

Ætli ég þurfi svo ekki að kaupa mér sjampó á 200 kall úr Bónus næst. Sambýlismaðurinn fer nefnilega örugglega að skammta mér pening bráðum. Visakortið mitt er einmitt horfið úr úlpuvasanum mínum á einhvern undarlegan hátt - en ég hlýt að ná að tæla hann til þess að láta mig hafa það aftur. Hann hefur ekki hingað til staðist töfra mína.


BUSTED!


„Ég sé sko allt sem þú er alltaf að kaupa 

á blogginu þínu!"

Ástarsamband mitt stendur á brauðfótum þennan fimmtudaginn. Sambýlismaðurinn hefur gripið mig glóðvolga. Það er best að fara í betri fötin og setja upp andlitið. Það dugir ekkert nema some good lovin' til þess að koma sér út úr þessu!

Að næra sálina.

Ég er ekki að fara að skrifa neinn djúpan pistil um hvernig skuli næra sálina - ó þvert á móti. Hinsvegar get ég  sýnt ykkur hvað nærði mína sál þessa vikuna:




Þetta fékk ég inn um bréfalúguna á máudaginn. Ég pantaði þessi fínheit héðan. Ég hef tvennt að segja mér til varnar. Í fyrsta lagi þá var ennþá 20% afmælisafsláttur í þessari búð - eins og síðast þegar ég pantaði þaðan. Ég elska afslætti og get með engu móti staðist þá.

Í öðru og síðasta lagi þá fékk ég mér örlítið hvítvínstár á síðasta föstudag og þessi pöntun átti sér stað á glasi tvö. Meira hef ég ekki um málið að segja.


Nov 28, 2012

Uppáhalds í prófatíð.



Þegar lífið snýst um prófalestur er ákaflega mikilvægt að skipta út eðlilegum kaffibolla fyrir risakaffibolla. Þetta er uppáhalds próflestrarbollinn minn. Þessi bolli er samt held ég upphaflega ætlaður undir súpu. En það skiptir ekki öllu - málið er að hann tekur við fimmföldu magni á við venjulegan kaffibolla. Það er þó ekki í miklu uppáhaldi að drekka of marga svona. Stundum er ég farin að þjást af hjartsláttartruflunum í kringum kvöldmatartíma ef þessi elska hefur verið brúkaður of mikið. 


Þegar ég er ekki að svolgra í mig kaffi þá drekk ég kók. Mikið af kóki. Og það verður að vera úr dós, Annað væri hneisa!


Það á enginn að fara í gegnum prófatíð án þess að smjatta á nokkrum svona pokum! Bingókúlur eru bestar. Ég set alltaf svona 4-6 kúlur upp í mig í einu - þess má geta að neysla þeirra fer fram í leyni. Ég vil auðvitað alls ekki að sambýlismaðurinn sjái hvernig ég lít út þegar ég er búin að troða fullri lúku af kúlum í andlitið á mér. Hann hefur séð mig eiga barn en hann má alls ekki sjá mig borða Bingókúlur. 


Þegar ég er komin með illt í tennurnar af Bingókúluáti þá tekur þessi dásemd við. Ég elska þetta tyggjó. Ég fer með fjóra til fimm pakka á góðum degi. Það er hið mesta kraftaverk að ég skuli yfir höfuð haldast í kjálkalið þessa dagana. 


Síðast en ekki síst - varasalvi! Nóg af varasalva. Ég get ómögulega einbeitt mér nema að varirnar á mér séu vel smurðar. Kannski þess vegna sem ég er alltaf með krónískan varaþurrk. 

Ég neita að hlusta á einhvern þvætting um að borða bara hollt og gott á meðan maður lærir fyrir próf. Nóg af kaffi, kóki og Bingókúlum og ég er klár í slaginn!


Nailpolish Vol.5.

Ég er óstöðvandi þessa dagana. Sérstaklega þegar ég á að vera að einbeita mér að einhverju allt öðru en að naglalakka mig.


Ég er mjög skotin í þessum lit. Ég er eitthvað minna skotin í þessum furðulega feitu puttum sem ég skarta. En því fæ ég víst ekki svo auðveldlega breytt.


Það var við hæfi að þessi myndataka færi fram á skólabókinni. Samviskan er talsvert betri þegar ég þykist læra um leið og ég naglalakka mig. 


Þetta lakk er frá L'Oréal  og er númer 602. Það er ótrúlega flott áferð á því þegar það er komið á. Svo glansandi og fínt. Burstinn í því er líka einstaklega góður fyrir fólk sem er með tíu þumalputta. Það fór bara ekkert út fyrir hjá mér - aldrei slíku vant. Ég er einmitt að fara að vinna í dag og það er aldrei að vita nema að ég kippi með mér eins og einu stykki naglalakki frá L'Oréal til viðbótar. Það er svo bölvað álag á mér þessa stundina að ég á það alveg skilið!



Nov 27, 2012

PomPoms.




Þetta finnst mér fallegt. Fæst hérna og kostar eina tölu!



Smekklega námskonan.

Ég hef nú alltaf álitið mig nokkuð smekklegan einstakling. Nema þegar ég húki heima að læra. Þá er orðið smekklegt ekki til í mínum orðaforða.

Í upphafi annar:


Í gær:


Í dag:


Ekki veit ég hvernig Guðmundur getur haldið sér við efnið í vinnunni allan daginn vitandi af konunni sinni heima svona útlítandi. Það hlýtur að taka mikla sjálfstjórn að hlaupa ekki heim til þess að næla sér í piece of this!


L'Oreal Miss Candy.





Allir þessir litir eru svo gleðilegir fyrir augað. Ég veit samt ekki hvort mig langar meira í snyrtivörurnar eða þessar bévítans frönsku makkarónur sem eru að þvælast á öllum myndunum! Ég hugsa að makkarónurnar hafi vinninginn - bumban er alltaf í fyrsta sæti.



Nov 26, 2012

Vaseline-world.

Af hverju bý ég ekki einhversstaðar þar sem Vaseline er meira móðins?









Ó hvílíkt úrval. Ég þarf að fara að komast til útlanda. Af hverju er ég að skoða Vaseline á netinu þegar ég á að vera að læra undir próf? Við þeirri spurningu eru ekki til nein gáfuleg svör.

Ætli ég geti pantað Vaseline á Ebay?  

Jólapeysur Vol.2.

Ég VERÐ að eignast þessa peysu!


Hún er hreint út sagt dásamleg. Fæst hér - veit samt ekki hversu mikið lengur því ég er að vinna í því að hún verði mín!

Working Class Hero.

Í síðustu viku var ég að leysa aðeins af í Lyfju. Það var voðalega notalegt að koma þangað aftur eftir meira en árshlé. Ég áttaði mig samt á að ég kem aldrei til með að verða rík á því að vinna í apóteki. Kaupalkar eiga alls ekki að vinna í kringum fullt af naglalökkum og snyrtivörum. Það er svona álíka gáfulegt og að opna bar á Vogi og láta vistmenn vinna þar.


Þetta fór til dæmis með mér heim í poka á síðasta föstudag. Það gefur því auga leið að ég aflaði mér engra tekna þennan vinnudag. Ég hlýt að koma til greina fyrir fálkaorðu. Ég á alveg minn þátt í að halda hagkerfi þjóðarinnar gangandi. 

Í dag bíður mín fjögurra tíma vinnudagur. Ég ætla peningalaus og allslaus í vinnuna. Það veldur mér þó örlitlu veseni að starfsmenn hafa möguleika á að setja í reikning. Það gengur ekki alveg upp fyrir mig að ætla að hafa sjálfstjórnina eina að vopni.


Nov 25, 2012

Helgin í myndum #2.


Notaleg helgi að baki. Næstu helgar fara í próflestur og að öllum líkindum mun ég kafna í eigin ælu. Það verður einkar spennandi að sjá hver statusinn á geðheilsu minni verður þann 14.desember næstkomandi. 

Nailpolish Vol. 4.

Ég þjáist illa af naglalakksfíkn þessa dagana. Ég er verri en venjulega. Ef að það er mögulega hægt.


Fallega fallega glimmer! Ekta áramótanaglalakk. 


Þetta naglalakk er frá Alessandro. Nýja uppáhalds tegundin mín. Þornar á ljóshraða. Lakkið heitir City Picknick. Tvær umferðir og neglurnar glitra eins og diskókúla.


Ég fékk það úr þessum pakka, þrjú glimmerlökk saman - ekki hægt að slá höndinni á móti svona fínheitum. Þau fást hér!


Lúxusmorgunverður.

Þessi morgunmatur er örlítið meiri fyrirhöfn heldur en að hella sér kornflexi í skál. En þetta er samt fljótlegt, hollt og gott!


Morgunlummur:

1 bolli hafrar
1 bolli ab mjólk
1 egg
2 msk olía
1/4 bolli spelt
1 tsk hunang 
1 tsk lyftiduft
kanill eftir smekk
glás af rúsínum

Það er ekkert sérstakt trix við að koma þessu saman. Bara hræra þangað til þetta lítur út eins og grautur. 


Svo er einni góðri skeið smellt á heita pönnu. Ekki pressa ofan á lummuna fyrr en þið snúið henni við. 


Mér tókst að sjálfsögðu að brenna eitt stykki vel og vandlega. Ekki fara að horfa á sjónvarpið á meðan þið eruð að baka þær. Það þarf að fylgjast nokkuð vel með þeim.


Sko! Þessi líka dýrindis morgunverður. Lummurnar eru agalega góðar með smjöri og osti. Líka gott að hafa bara fullt af hnetusmjöri á þeim. En hnetusmjör er auðvitað gott með öllu. Ég hef engar útskýringar fyrir þessari kókdós á myndinni. Ég er fíkill.