Jun 30, 2015

Klassíkerar í sólbaðið


Allt í lagi. Ég er ekki að fara að tala um neitt sem mögulega getur talist til klassískra bókmennta. Enda les ég lítið af slíku. Kaupi alveg eitthvað. Sem telst fágað og móðins. Stilli upp í hillu. Og þar með endar sú saga.

Æ, jú. Ég les alveg allskonar bækur. Gef öllu sjéns. Að minnsta kosti einn. Hendi sumu hratt og örugglega aftur upp í hillu. Þræla mér í gegnum annað. Til þess eins að koma því að í samræðum. Ah, já. Einmitt. Ég hef lesið hana. Monta mig af visku minni og vitsmunalegum glæsileika. 

Þegar ég er ekki að þykjast vera Egill Helgason les ég léttmeti. Og sumar bækur hef ég ferjað með mér fram og til baka. Lesið aftur og aftur. Liggjandi á sólbekk. Með rautt nef og rjúkandi hársvörð. Sveitt og sæl. Sjúgandi ódýran bjór með röri.


Æ, þessi er ferlega góð. Ég hef lesið hana ótal sinnum. Mæli þó frekar með því að lesa ensku útgáfuna. Eins mikið og ég elska okkar ástkæra ylhýra. Hin útgáfan er bara betri. Hnyttni vill oft týnast í þýðingu. Að mér finnst.



Ég hef verið skotin í Tobbu Marínós síðan hún var bloggari. Ég myndi hugsanlega reyna við hana á förnum vegi. Á fjórða glasi. Ég hef líka dálítið verið að leggja línurnar að því hvernig ég get orðið vinkona hennar. Án þess að verða eltihrellir. Ef ég ætlaði að eltihrella einhvern á Íslandi þá yrði Tobba fyrir valinu.

Nei djók. Bubbi. Svo Tobba.


Vel þvældar og marglesnar.


Me Before You eftir Jojo Moyes.


Þessi bók hefur farið ofan í þó nokkrar töskur. Augljóslega. Yndislega fyndin. Dásamlega væmin. Maður skellir upp úr og gleypir sín eigin tár í leiðinni. Mömmu minni fannst hún hörmung. Alltof langdregin. Passlega leiðinleg. Enda hefur mamma mín bara smekk fyrir snaróðum og vel blóðugum glæpasögum á borð við Stephen King. Ekkert vol og væl.

 Ég stakk henni (bókinni, ekki mömmu) ofan í tösku hjá systur minni fyrir stuttu. Hún elskaði hana. Ég elska hana. Góð bók. Sama hvað mamma mín segir.


Það fóru bara tvær nýjar bækur með mér út að þessu sinni. Önnur þeirra var bókin eftir Mindy mína Kaling. Konuna sem ég myndi yfirgefa sambýlismanninn fyrir. Ef hún gæfi mér auga. Ég elska hana. Og hló upphátt yfir þessari bók. Það er sjaldgæft. Mjög sjaldgæft.


Þessi er einnig ný. Ég er bara búin að horfa á bíómyndina. Með öðru auganu. Eins og staðan er núna er ég búin með Mindy, tvennuna hennar Tobbu og er að ljúka við Manstu mig? Hefst handa við þessa á morgun.

Afkvæmið er bara frekar þreytandi. Leyfir mér ekkert að lesa stanslaust í friði. Og er sífellt að leiða mér það meira og meira fyrir sjónir að ég er að ala upp einkabarn. Sem er að missa sinn helsta hæfileika - að hafa ofan að fyrir sér sjáfur. Sem hann var einu sinni fullfær um. Og núna heldur hann í alvöru að ég nenni statt og stöðugt að leika við hann ofan í einhverri sundlaug. 

Sem ég sé börn hnerra í í tíma og ótíma. Og þurfti að loka í gær af því að eitthvað krakkarassgat skeit í hana. Kúkaði, fyrirgefið þið. Það var ógeð. Sambýlismaðurinn bannaði mér að taka mynd af því. Bölvaður.

Jæja. Ég er að fara að snæða. Svo sofa. Útsölur hefjast hérna á morgun. Borgar sig að vera úthvíld fyrir það helvíti.

Heyrumst.

Jun 28, 2015

Í útlöndum


(Þessi mynd er af sambýlismanninum að raka hárin af tánum á sér - alls ótengd efni þessarar færslu. Hún var bara of góð til þess að sleppa.)

Ég er alltaf að reyna að vera einhverskonar lekandi ljúffeng þokkagyðja í útlöndum. Sem valsar um útitekin. Geislandi. Með óaðfinnanlegt hár. Skoppandi sætar krullur. Í glænýjum kjól. Á krúttlegum skóm. Helst með demöntum. Og glimmeri. Af því það má í útlöndum. 

En nei. Ég er týpan sem labbar um eins og hjólbeinóttur húsvörður. Með hjólbörur. Af því ég fæ krónísk nuddsár á innanverð lærin. Sem er ógeð. Hárið á mér er eins og á Monicu í Friends. Þegar þau fóru til Bahamas. Helvítis krullur. Svo ekki sé minnst á túrbaninn sem ég þarf að vefja utan um hausinn á mér á hverjum degi. Af því ég brenn svo í hársverðinum.


Ég lykta líka alltaf eins og fótboltamaður eftir 90 mínútna leik. Plús framlenging. Svo ég sé fullkomlega hreinskilin. Og ógeðsleg. Jafnvel þó ég gangi með vini mína Nivea og Dove í rassvasanum.  

Ah, já. Sólarexemið sem ég virðist þjást af. Og er bara bundið við fæturnar. Við skulum ekki gleyma því. Kreminu á kökunni. Þannig að nú verð ég að ganga í sokkum. Alla daga, alltaf. Og lít út eins og miðaldra þýskur landkönnuður fyrir vikið.

Ó, fötin sem ég klæðist. Ég bara kann ekki að klæða mig í þessu lofslagi. Er iðulega í skærgulum stuttbuxum. Í skræpóttum bol. Með grænan (og hlébarðamynstraðan, auðvitað) túrban í hárinu. Svo finnst mér skrýtið að götusalarnir hérna kalli mig Lady Gaga. Stundum kallar þeir mig líka Rambó. En við skulum láta það eiga sig. 

Sambýlismaðurinn átti afmæli í síðustu viku. Ég fleygði mér í falleg föt. Ekki kjól. Enda með blæðandi svöðusár á lærunum.


Ég klippti skóna mína út af myndinni. Þeir voru ljótir. Mjög ljótir.


Ég keypti þessar stórkostlega fallegu stuttbuxur í H&M.



Andskotinn. Ég gat ekki klippt skóna út af þessari mynd. Ég var í flip flops. Fokking flip flops.




Afmælishöldin voru þó falleg og góð. Ljúffeng og lostafull. 

Internetið hérna á Tenerife er eins og einhverskonar dial-up internet frá árinu 1999. Mér til mikilla ama. Ég held þó að ég sé búin að finna kaffihús sem á heima á árinu 2015. Ég reyni að vera duglegri hérna.

Þið finnið mig bæði á Instagram og Snapchat - @gveiga85.

Heyrumst.

Jun 23, 2015

Nautnaseggir


Þegar tveir nautnaseggir koma saman. Nú eða þrír. Þar sem afkvæmi okkar virðist vera banvæn blanda af okkur báðum. Almáttugur.

Við erum ekki fólkið sem fer í langar skoðunarferðir. Hleypur meðfram ströndinni. Baðar sig í sjónum. Blandar geði við innfædda. 


Nei, við erum fólkið sem þræðir matsölustaði. Matvörubúðir. Matvælamarkaði. Fólkið sem þarf að smakka alla íspinnana á spjaldinu. 




Fyrr í dag sátum við einmitt  á svölunum hjá okkur. Að slafra í okkur ostum. Súpandi rauðvín. Ræðandi málin. 

Ég var alveg sótbrjáluð. Eða þið vitið, í örlítið verra skapi en venjulega. Nýkomin úr H&M. Með glænýjar stuttbuxur í poka. Í stærð 44. Og hreint ekki parhrifin af því. Ég er nefnilega í stærð 42. Fjörtíu og fokking tvö. 

Ég hélt magnþrungna ræðu. Fyrir minn eina áheyranda. Þar sem ég líkti spænskum konum við hobbita. Sem væru 12 merkur að þyngd. Og þess vegna væru allar fatastærðir hérna bjagaðar. Útfærðar með örsmáa spænska rassa í huga. Ekki vel nærða íslenska bossa. Svo röflaði ég eitthvað um að konur færist ekkert upp um fatastærð bara en, to, tre. Þó þær borði á við sjö í fáeina daga. 

Ég man ekki ræðuna nákvæmlega. En hún var góð. 

Sambýlismaðurinn horfði á mig sljóum augum. Enda kvenmannsföt ekki hans sterkasta hlið. Samanber þegar hann gaf mér húrrandi fallegan gallajakka hérna um árið. Í stærð 36. Það var dagurinn sem hann týndi næstum lífi. Ef líkamlegur styrkur minn væri ekki á pari við hagamús þá væri hann dauður. Steindauður. 



Örlítil saga, alls ótengd mat: Ég er svo stórkostlega einföld. Svona af og til. Í dag var ég handviss um að ég hefði séð Wanye Rooney að snöflast hérna við sundlaugina. Á þriggja stjörnu hóteli. Á Tenerife. Sambýlismaðurinn bað mig vel að lifa. Eins og svo oft áður. Ég dröslaði honum að sólstólnum hjá Wayne. Ætlaði aldeilis að sýna honum í tvo heimana. 

Löng saga stutt: Þetta var ekki Wayne. Og ég er sennilega með gláku.

Fyrir nokkrum árum vorum við á öðru hóteli. Hérna á Tenerife. Sem var ógeð. Kakkalakkar í sundlauginni. Dauðir kettir undir svölunum hjá okkur. Hundaskítur á víðavangi. Kattaskítur í hverju horni. Sennilega mannaskítur líka. Þá var ég einmitt handviss um að Michael Bublé væri á meðal gesta. Og notaði það reglulega þegar sambýlismaðurinn röflaði yfir hótelinu. ,,Ef þetta er nógu gott fyrir Michael Bublé..."

Svo sýndi ég honum Michael Bublé.

Löng saga stutt: Þetta var ekki Michael Bublé. 



Jæja. Mér skilst að við séum að fara að huga að kvöldmat. 

Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

Jun 19, 2015

DAY OFF

Ég elska vefverslanir. Heitt og innilega. Ég vil geta verslað heiman frá mér. Spáð og spekúlerað. Á brókinni. Drekkandi kaffi. Eða rauðvín. Helst rauðvín. Án þess að vera áreitt. 

Ég fæ reyndar eitthvað lítið að væflast um á brókinni. Svona á þessum síðustu og verstu. Afkvæmið bókstaflega blánar ef mér svo mikið sem bregður fyrir í öðru en einhverskonar sóttvarnarbúning. Eins og heilbrigðisstarfsmenn klæðast þegar þeir meðhöndla sjúklinga með e-bólu. Verður bara stjarfur og sturlaður. 
Nei, það má helst hvergi glitta í bert hold.

Nú svo ekki sé talað um þegar hann sér foreldra sína sýna hvort öðru blíðuhót. Þá rífur hann fram krossinn og hvítlaukinn. 

 Skemmtilegur aldur.

Sagði enginn. Aldrei. 


Jæja, hvað um það. 

Vefverslanir. Ég ætlaði að tala um það fyrirbæri. Fyrir stuttu opnaði vinkona mín eina slíka. Day Off  heitir dýrðin. Þessi vinkona mín er fáránlega smekkleg. Smekklegri en ég. Fagurkeri fram í fingurgóma. Og þessi verslun hennar. Ó, boj. 



Oh. Ég elska sólgleraugu. Ég á aldrei nóg. Bubbi elskar líka sólgleraugu. Við eigum það sameiginlegt. Svo því sé haldið til haga. 



Day Off býður upp á vandað skart, verulega falleg sólgleraugu og tímabundin tattoo. Sem ég ætla að sýna ykkur betur síðar. Þegar sambýlismaðurinn fellst á það að hjálpa mér við ásetninguna. 


Fékk ég mér hlébarðamynstruð sólgleraugu?

Já. Ó, já. 


Átti ég 17 sólgleraugu fyrir?

Já. Ó, já.

En ég meina - misjöfn tilefni kalla á mismunandi sólgleraugu. Mismunandi klæðnaður. Mismunandi skap. Mismunandi veður. Mismunandi skór. Mismunandi naglalakk.

Ég gæti endalaust talið. 


Nú og rúsínan í pylsuendanum. Þetta box. Fyrirferðarmikið og óþolandi eins og önnur gleraugnahulstur.


Hah, nema það er hægt að smella þessu boxi saman. Stinga því í rassvasann. Nei, ekki stinga því þangað. Það er ógeð. Það á aldrei neitt að vera í rassvasanum. Aldrei. 


Æ, ég dáist að fólki sem lætur drauma sína rætast. Lætur vaða. Reimar bara á sig skóna og opnar eina verslun. Ekkert mál. 

Ég legg að sjálfsögðu til að þið fleygið ykkur inn á Feisbúkksíðu Day Off. Smellið á like. Af því að þetta er falleg búð. Og þið viljið fylgjast með henni. 

Jæja. Ég er að fara að naglalakka mig. Og raka á mér lappirnar. Mögulega eina umferð yfir handakrikana. Svo ætla ég til útlanda í nótt. Með fínu sólgleraugun mín. Og nýrökuðu leggina. Og spranga um á bíkini eins og ég andskotans eigi heiminn.

Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

Jun 17, 2015

Strigaskór


Ég hef nýlega tekið ástfóstri við strigaskóm. Af öllum stærðum og gerðum. Eða nei. Ekki í öllum stærðum. Bara stærð 40-41. Á mínar stærstu bífur í heimi. Eða svo gott sem. 

Þetta ástfóstur kemur mér örlítið á óvart. Af því að venjulega kýs ég groddaralega leðurskó. Flatbotna í 97% tilvika. Vegna þess að ég er eins og sauðdrukkinn kúreki á hælum. Að dansa línudans. Með bundið fyrir augun. 


Fyrr í vikunni var ég að rúlla yfir Facebook. Þá sjaldan. Við mér blasir auglýsing. Frá skor.is. Allir Converse skór á 20% afslætti. Og mig, aumingja mig var búið að langa í slíkt skópar svo lengi. Svo rosalega lengi. Helst gula. En þeir voru ekki til. 

Ég keypti hvíta. Af því það var afsláttur. Og ég hef ekki taugar í að hafna afslætti af neinu tagi. 



Notagildið er óumdeilanlegt. Ég get svo guðsvarið það. Þeir passa við alla kjólana mína. Eins og ég útskýrði svo blíðlega fyrir sambýlismanninum í gærkvöldi. 


Ég er viss um að það sé gaman að taka myndir af mér. Handviss. Ég er alltaf í svaka sveiflu. Eins og fullur kúreki. Innskeif. Með úrið öfugt. Svo húðskamma ég ljósmyndarann alltaf fyrir lélegar myndir. Þær eru ekki mín sök. 

Enda er ég ávallt eins og Gisele Bündchen á góðum degi. Ávallt!

Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.

Heyrumst.

Jun 16, 2015

Yfir nótt


Ef það er eitthvað sem veldur sambýlismanninum velgju þá er það þegar ég hefst handa við að búa til morgunverð um miðjan dag. Til þess að snæða daginn eftir. Enda borðar hann til þess að lifa. Þveröfugt á við undirritaða. Sem lifir til þess eins að borða. Og hugsa um mat. Og búa til mat. Og versla mat. Og elska mat. Og hata mat. 

Jæja, burtséð frá velgju sambýlismannsins þá er þessi grautur (sem fær að standa í ísskáp yfir nótt) alveg einstaklega góður. Það veitir mér líka sérstaka sálarró að geta gengið að morgunmatnum mínum vísum. Þurfa ekki að leita að einhverju. Sjóða egg. Smyrja brauð. Vera svöng. Enda á fimm Bingókúlum í forrétt af því ég finn ekkert ætilegt. Fara að grenja. Borða fleiri Bingókúlur. Enda í tímaþröng. Ennþá svöng. Eyði þúsundkalli í 10-11 á leið í vinnunna. Óþolandi. 

Já, þessi grautur er allra meina bót. 


Grauturinn verður að vera í krukku. Annað er bara ekki lekker. 

Næturgrautur:

1 desilíter haframjöl
1 desilíter mjólk (tæplega)
1 stappaður banani
1 teskeið chiafræ
1 teskeið hampfræ
2-3 stöppuð jarðarber
Steviadropar með vanillubragði
kanill
fáein saltkorn


Það pirrar mig skelfilega að ég sé ónaglalökkuð á þessum myndum. Eðlilegt?

Nei.



Framkvæmdirnar eru ekki flóknar. Allt í krukkuna. Hræra vel. Mjög vel. Passa að grauturinn sé svolítið þykkur.




Eina ástæða þess að þessir dropar eru í fórum mínum er sú að ég var á LKL kúrnum í fyrra. Í góða fjóra klukkutíma eða svo. Ég nota líka oft kókosolíu í grautinn í þeirra stað. 



Lok, lok og læs. Inn í ísskáp með þetta. 


Dýrðin er svo toppuð með hnetusmjöri. Auðvitað. 


Mér þykja múmmínbollar skemmtilegt fyrirbæri. Eins og svo mörgum. Ennþá skemmtilegra finnst mér að sambýlismaðurinn er sá sem safnar þeim. Ekki ég. Þó ég hjálpi honum stundum við litavalið. Það er bara af hjálpsemi. Og örlítilli afskiptasemi. Engu öðru. Alls engu.

Stundum finn ég hann inni í eldhúsi. Að litaraða bollunum. Sem hann er nota bene búinn að hengja upp á vegg. Ferlega krúttlegt.

Heyrumst.