Jun 30, 2015

Klassíkerar í sólbaðið


Allt í lagi. Ég er ekki að fara að tala um neitt sem mögulega getur talist til klassískra bókmennta. Enda les ég lítið af slíku. Kaupi alveg eitthvað. Sem telst fágað og móðins. Stilli upp í hillu. Og þar með endar sú saga.

Æ, jú. Ég les alveg allskonar bækur. Gef öllu sjéns. Að minnsta kosti einn. Hendi sumu hratt og örugglega aftur upp í hillu. Þræla mér í gegnum annað. Til þess eins að koma því að í samræðum. Ah, já. Einmitt. Ég hef lesið hana. Monta mig af visku minni og vitsmunalegum glæsileika. 

Þegar ég er ekki að þykjast vera Egill Helgason les ég léttmeti. Og sumar bækur hef ég ferjað með mér fram og til baka. Lesið aftur og aftur. Liggjandi á sólbekk. Með rautt nef og rjúkandi hársvörð. Sveitt og sæl. Sjúgandi ódýran bjór með röri.


Æ, þessi er ferlega góð. Ég hef lesið hana ótal sinnum. Mæli þó frekar með því að lesa ensku útgáfuna. Eins mikið og ég elska okkar ástkæra ylhýra. Hin útgáfan er bara betri. Hnyttni vill oft týnast í þýðingu. Að mér finnst.



Ég hef verið skotin í Tobbu Marínós síðan hún var bloggari. Ég myndi hugsanlega reyna við hana á förnum vegi. Á fjórða glasi. Ég hef líka dálítið verið að leggja línurnar að því hvernig ég get orðið vinkona hennar. Án þess að verða eltihrellir. Ef ég ætlaði að eltihrella einhvern á Íslandi þá yrði Tobba fyrir valinu.

Nei djók. Bubbi. Svo Tobba.


Vel þvældar og marglesnar.


Me Before You eftir Jojo Moyes.


Þessi bók hefur farið ofan í þó nokkrar töskur. Augljóslega. Yndislega fyndin. Dásamlega væmin. Maður skellir upp úr og gleypir sín eigin tár í leiðinni. Mömmu minni fannst hún hörmung. Alltof langdregin. Passlega leiðinleg. Enda hefur mamma mín bara smekk fyrir snaróðum og vel blóðugum glæpasögum á borð við Stephen King. Ekkert vol og væl.

 Ég stakk henni (bókinni, ekki mömmu) ofan í tösku hjá systur minni fyrir stuttu. Hún elskaði hana. Ég elska hana. Góð bók. Sama hvað mamma mín segir.


Það fóru bara tvær nýjar bækur með mér út að þessu sinni. Önnur þeirra var bókin eftir Mindy mína Kaling. Konuna sem ég myndi yfirgefa sambýlismanninn fyrir. Ef hún gæfi mér auga. Ég elska hana. Og hló upphátt yfir þessari bók. Það er sjaldgæft. Mjög sjaldgæft.


Þessi er einnig ný. Ég er bara búin að horfa á bíómyndina. Með öðru auganu. Eins og staðan er núna er ég búin með Mindy, tvennuna hennar Tobbu og er að ljúka við Manstu mig? Hefst handa við þessa á morgun.

Afkvæmið er bara frekar þreytandi. Leyfir mér ekkert að lesa stanslaust í friði. Og er sífellt að leiða mér það meira og meira fyrir sjónir að ég er að ala upp einkabarn. Sem er að missa sinn helsta hæfileika - að hafa ofan að fyrir sér sjáfur. Sem hann var einu sinni fullfær um. Og núna heldur hann í alvöru að ég nenni statt og stöðugt að leika við hann ofan í einhverri sundlaug. 

Sem ég sé börn hnerra í í tíma og ótíma. Og þurfti að loka í gær af því að eitthvað krakkarassgat skeit í hana. Kúkaði, fyrirgefið þið. Það var ógeð. Sambýlismaðurinn bannaði mér að taka mynd af því. Bölvaður.

Jæja. Ég er að fara að snæða. Svo sofa. Útsölur hefjast hérna á morgun. Borgar sig að vera úthvíld fyrir það helvíti.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Elska Mindy Kaling bókina og bíð spennt eftir næstu einmitt, ég er með alvarlegt girl crush þar...er líka skotin í þér híhí

    ReplyDelete