Sep 29, 2015

Misheppnaðar myndatökur


Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum sem staldrar við á þessu bloggi að ég læt taka mikið af myndum af mér. Mjög mikið. Í flestum tilvikum er það sambýlismaðurinn sem smellir af. Þessi elska. Og gerir það með glöðu geði. Enda get ég táldregið hann á ýmsa vegu. Sem ég ætla ekki að útlista frekar hérna. 

Stundum smellir afkvæmið af. Sem er ekki eins mikil elska þegar kemur að myndatökum. Að fá hann til að taka myndir kostar bæði þolinmæði og peninga. Og margar skálar af sykruðu morgunkorni. Nei, hann vílar ekki fyrir sér að þiggja mútur. Fyrir allan andskotann.


Stundum neyðist ég til þess að leika af fingrum fram. Eins og ég hef sýnt ykkur áður. Það á aðallega við þegar sambýlismaðurinn er á sjó og ekkert lausafjár til á heimilinu til þess að greiða afkvæminu. Sem heldur að hann sé Saga Sig. Eða Nigel Barker. 

Svo er það fyrirsætan. Sem leikur nokkuð stórt hlutverk í öllum þessum myndatökum. Hún er, ehm, erfið. Kröfuhörð. Óþarflega meðvituð um sjálfa sig. Óþolinmóð. Með óteljandi fyrirskipanir. Boð og bönn. Og veit að sjálfsögðu langbest þó hún sé ekki með myndavélina í höndunum.

Mögulega má segja að hún sé á pari við Naomi Campell. Ekki í fegurð og þokka. Nei. Heldur í skapofsa og ofbeldishneigð. 

Regla númer eitt, tvö og þrjú hjá fröken Campell (já, ég ætla bara að kalla mig það) eru margar myndir. Það verður að vera nóg. Alveg glás. Hún verður að hafa úr nógu að velja sko. Aðallega af því að hún er aldrei sátt. Ef teknar eru hundrað myndir getur hún sætt sig við sirka fjórar. Give or take. 

Og Campell kennir ljósmyndaranum alltaf um þessar 96 sem voru slæmar. Hún á enga sök að máli. Enda ávallt glæsilegheitin uppmáluð. Fagmaður og fyrirsæta fram í fingurgóma.

Eða bara alveg alls ekki. Eins og sjá má ef við skoðum myndir sem teknar voru í sérlegri myndatöku um helgina. Campell í nýjum kjól og svona. Búin að táldraga sambýlismann sinn hálfa leið til Keflavíkur. Og útkoman? Talsvert verri en venjulega. Ekki ein nothæf mynd. Ekki ein.  


Skemmtilegt sjónarhorn. Með vindinn í fangið og vömbina út í loftið. 


Nei, ég var ekkert að átta mig á því að vindurinn var að líma kjólinn við mig. Svona stóð ég þó nokkrar myndir í viðbót. Fagmaðurinn sem ég er. 


Vindurinn búinn að feykja hárinu af skallablettinum. Já, ég er eins og nírætt gamalmenni. Ég þarf að greiða yfir. 


Ég var ekki að reka út úr mér tunguna. Nei, bara að tuða. Var að muldra setninguna sem ég læt flakka 390 sinnum í hverri myndatöku.

,,ENGA UNDIRHÖKU, ÞÚ MANST!"

Ennþá með vömbina út í loftið og vindinn í fangið. Og sambýlismaðurinn smellti bara og smellti. Þorði ekki öðru. Krafan um fáranlega margar myndir og allt það. 

Ég á auðvitað óteljandi svona myndir. Alveg óteljandi.



Þarna var ég að reyna við einhver glæsilegheitin.


Og flaug á rassgatið í kjölfarið.


Þetta hopp var endurtekið örugglega 15 sinnum. Alltaf leit ég út fyrir að vera með harðlífi. Einu harðsperrurnar sem ég hef fengið á árinu. Og örugglega tuttugasta skiptið sem sambýlismaðurinn hefur íhugað að yfirgefa mig á árinu. 

Jæja, sambýlismaðurinn er farinn á sjó. Campell ætlar að rífa fram litabækurnar og rauðvínið. Mmm. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Sep 26, 2015

Yfir rassinn


Ég er ekki að fara að sýna ykkur nýjan kjól. Aldrei slíku vant. Fæ prik fyrir það. 

Nei, ókei. Engin prik. Ég á ekkert einasta prik skilið. Spörum prikin. Þessi færsla inniheldur nýja skyrtu. Og trefil. Allt gult. Svo fallega gult. 

Mér líður vel í gulu. Afskaplega vel. Augljóslega. 

Æ, það er eitt sem pirrar mig. Frekar mikið. Svo ég vaði nú úr gulu yfir í annað. Alveg allt annað. Það pirrar mig hvernig ég segi stundum frá. Þið vitið. Ég get aldrei smellt í stutta bloggfærslu. Bara með tíu myndum og tveimur setningum. Nei. Ég þarf alltaf að segja einhverja sögu. Ferlega langa sögu. Sem er ógeðslega tímafrekt. Og það pirrar mig. Í rauninni dugar alveg:

 ,,Hæ. Ég keypti skyrtu og trefil. Allt gult og glimrandi glæsilegt. Takk og bæ."

Svo bara glás af myndum og allir sáttir. En nei. Ó, nó. Ég get það ekki. Ég finn strax þörfina til þess að byrja að segja ykkur hvernig ég lokkaði sambýlismanninn í Smáralindina af því mig vantaði sjampó. Allt í lagi, ekki frumlegasta lygin í stóru lygabókinni minni. 

Úff, sú bók sko. Þvílíkur doðrantur. En hún inniheldur samt bara hvítar lygar. Sem skaða ekki nokkurn mann. Að ég held. 

Nei, það var ekkert sjampó sem mig vantaði. Ég hafði fengið veður af gulum kjól kvöldið áður. Sem staðsettur var í Vila. Ég ætlaði bara aðeins að kíkja.

Og núna ætla ég að hætta. Sagan búin. Ég keypti föt. Við skulum skoða þau. Án frekari málalenginga. Andskotinn sko. Ég vildi að ég væri hnitmiðaðri. 



Trefill: Vila í Smáralind.

(hintmiðað, sko mig!)


Glætan. Þetta hnitmiðaða dæmi gengur ekki. Aldrei.

Tölum aðeins um rassinn á mér. Og þessa skyrtu. Sem ég keypti líka í Vila. Ég kaupi aldrei skyrtur. Á ekki eina einustu. Eða jú, eina. Karlmannskyrtu. Sem ég gaf sambýlismanninum í jólagjöf. Honum leið eins og háöldruðum kúreka í henni. Þannig að ég hirti hana. Og er eins og kornungur glæsifoli í henni. En það er önnur saga.

Ég nenni ekki skyrtum. Það er nefnilega afar sjaldgæft að þær passi yfir rassinn á mér. Ég get alveg hneppt þeim að ofan. Enda ekki nokkur fyrirstaða þar. Flatlendi eins langt og augað eygir. Svo koma neðstu tölurnar. Og þá fer að síga á ógæfuhliðina. Og ég verð eins og rúllupylsa sem er byrjuð að losna í annan endann. Eða já. Þið vitið. Vítt að ofan. Alltof þröngt að neðan. 

En ekki þessi. Strekkist ekki einu sinni yfir það eina sem ég á sameiginlegt með Kardashian-systrunum. 

Þessi mynd líka hérna að ofan. Mér finnst hún stórkostlega falleg. Jú, það má segja fögur orð um myndir af sjálfum sér. Það er líka bara svolítið hressandi. Svona ykkur að segja. 


Það þarf að strauja skyrtur. Allt í lagi. Duly noted.




Næsta blogg verður stutt, hnitmiðað og ekki um rassinn á mér. 

Núna ætla ég í Ikea. Og kannski Tiger. Og Söstrene. Og halda áfram að fylla íbúðina af brúðkaupsskrauti og kertum sem ekkert samræmi er í. 

Þið finnið mig á bæði Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Sep 24, 2015

Fimm hlutir á fimmtudegi


Ég hélt hádegisverðarboð um síðustu helgi. Sem ætlað var til þess að skipuleggja títtnefnt brúðkaup mitt. Brúðkaupið okkar já. Einmitt. Meinti það. Hádegisverðargestum fannst svo öll slík skipulagsvinna mjög ótímabær. Þannig að það var bara étið. Og farið. Jæja.

Hádegisverðurinn er að vísu ekki það sem ég ætlaði að tala um. Heldur þessi glæsilegi kökudiskur. Bleikur og rúllandi rómantískur. Með loki og öllu. Eða heitir þetta hjálmur? Whatever. 

Kostaði þúsundkall. Fannst á rölti um Rúmfatalagerinn fyrir stuttu. 


Tekur sig vel út á veisluborði. Alveg sallafínn, eins og amma mín myndi orða það. 



Ég bætti þessari kápu við fataskápinn um daginn. Þar hékk ein kápa fyrir. Sem er líka gul. Mér er bara ekki sjálfrátt þegar ég sé glitta í gult. Í dag valsaði ég einmitt út úr Vila með gulan kjól. Gula skyrtu. Og trefil. Með gulu ívafi. Auðvitað. En það er efni í aðra færslu. Allt aðra.

Ég tel talsverðar likur á því að ég verði stödd í nágrenni við Suðurskautslandið um miðja næstu viku. Af því sambýlismaðurinn mun taka mig með út á sjó. Ekki af því hann getur ekki hugsað sér sex vikur án snertingar minnar og skemmtilegheita. Nei. Heldur til þess að fjarlægja mig úr umhverfi freistinga og fásinnu. 

Ekki versla ég um borð í grænlenskum ísbrjót. Skilst reyndar að það sé sjoppa þar. Ég get alveg unnið með það. 


Ég bakaði vöfflur um daginn. Sem er ekkert merkilegt eitt og sér. Það sem ég sullaði ofan á þær var hins vegar nokkuð merkilegt. Karamellubúðingur. Rjómi. Og brætt Rolo. 

Stökk vaffla. Silkimjúkt Rolo. Sætur karamellubúðingur. Sælgæti par exelans. 



Og annað sælgæti par exelans. Af því ég elska sælgæti. Elska það, elska og elska. Þetta súra og sykurklístraða spaghetti er uppáhalds nammið mitt þessa dagana. Fyrir utan Bingókúlur. Og allar súkkulaðitegundirnar sem fást í Ikea. 


Mmm. Að sjúga fulla lúku af þessu. Draumur. Algjör draumur.


Þetta er líka draumur. Fyrir fólk með neglur. Sem vaxa bara ekki upp fyrir fingurgóma. Ef svo má að orði komast. Ég keypti þetta í Hagkaup fyrir löngu. Fleygði upp í hillu. Mundi eftir þessu fyrir stuttu og prófaði. Neglurnar hafa aldrei verið lengri. 

Og það hefur aldrei verið eins freistandi að fara að versla naglalökk. Fyrir löngu og fínu neglurnar mínar. En ég geri það ekki. Alveg alls ekki.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85. 

Heyrumst. 

Sep 22, 2015

Brúðkaupsundirbúningur: fyrsti hluti (af mörgum)


Ah, ef ég hef einhvern tímann fengið tækifæri til þess að leyfa minni mígandi manísku hegðun að blómstra. Ó, þá er það núna. Mikið sem þetta er töfrandi tímabil. Þessi undirbúningur. Fyrir mig sko. Enga aðra.

Á aðeins 10 dögum er ég búin að reyna verulega á andleg þolmörk minna nánustu. Og enn eru 9 mánuðir til stefnu. Systir mín er hætt að svara mér á Facebook. Sambýlismaðurinn telur niður dagana í næstu sjóferð. Biðlar reglulega til Guðs um að komast svo langt út á haf að ekkert verið símasambandið. Og að skipið landi aflanum í Rússlandi. Þannig að túrinn verði að minnsta kosti 12 vikur. 

Eins hefur hann eytt einni nótt á sófanum á þessu tímabili. Af því ég var að taka söngprufur fyrir hann. Inni í rúmi. Um hánótt. Og hafa áhyggjur af því hvar við fáum nógu mikið af hvítum jarðvegsdúk. Utan um stólana. Í veislunni sem ég veit ekki einu sinni hvar verður. 

Nei. Hann kærir sig ekki um að ég syngi fyrir hann í brúðkaupinu. Whatever. Ég syng kannski ekki vel. Eins og glöggir fylgjendur mínir á Snapchat hafa tekið eftir. En ég geri það af tilfinningu. Með fullt hjarta af gleði. Og ást. Og umhyggju. Og ég mun syngja í þessu brúðkaupi. Af lífi og sál. 

Mögulega er ég einnig búin að senda Leoncie vinkonu minni línu. Mögulega já.

Jæja, ekki nóg með nóttina á sófanum. Nei. Hann gekk á dyr um daginn. Lét sig hverfa í þó nokkra klukkutíma. Af því ég var alveg að fara að grenja úr örvæntingu. 

Og af hverju féllu tár niður fagurt andlit mitt í auðmjúkri örvæntingu?

Af því ég fann ekki nægilega skemmtilegt hashtag. Hashtag fyrir brúðkaupið okkar. Jú, brúðkaupið serm er 9.júlí næstkomandi. 

Það er september, Guðrún Veiga. Setning sem ég hef heyrt óþarflega oft undanfarið. Og eitthvað sem þið eruð sennilega að hugsa. Mér er að sjálfsögðu alveg andskotans sama. Ég er skipulagsfíkill og kvíðasjúklingur fram í fingurgóma. Ég er bara búin að æfa gönguna að altarinu tvisvar hérna á stofugólfinu. Eða þrisvar. Er nú ekki farin út fyrir nein velsæmismörk ennþá sko. 

Ókei. Ég er búin að kaupa svolítið af kertum. Og gulum umslögum. Og spreyja fáeinar niðursuðudósir. Annað ekki. Sver það.

Æ, svo pantaði ég eitthvað aðeins af Ali Express. Ekkert til að tala um. 



Ókei, að betri og bjartari hlutum. 

Blæti mitt fyrir hvers kyns ritföngum fær að blómstra óáreitt þessa dagana. Af því ég þarf að sjálfsögðu sérstaka minnisbók undir hvert og eitt atriði. Eða svo gott sem. Eina fyrir tónlistina. Eina fyrir matinn. Eina fyrir drykki. Eina fyrir skreytingar. Þrjár fyrir kjólinn. 

Almáttugur, þetta er svo fullnægjandi.



Gestalisti með kaffiblettum á. Sem stækkar og minnkar í takt við skapið í mér. 

Þetta er gaman. Ehm, enn sem komið er. Þó allar líkur séu á því að ég komi til með að standa ein eftir á stóra daginn. Vinalaus. Fjölskyldulaus. Brúðgumalaus. Og allslaus. 

Jæja. Ég geri mér þá glaðan dag. Í fínum kjól. Með Leoncie. Og tíu kössum af rauðvíni. Give or take.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Sep 18, 2015

Fleiri rendur



Allt í lagi. Hvar á ég að byrja söguna af þessum kjól? 

Sko. Já. Um daginn átti ég innilegar samræður við sambýlismanninn um snakkskálar. Eða um það hversu mikið okkur skortir slíkar skálar. Það er svo helvíti ólekker að hakka alltaf snakkið í sig beint upp úr pokanum. 

Í gærkvöldi sátum við svo hérna við eldhúsborðið. Að snæða fajitas. Sem kemur sögunni ekkert við. Allavega. Sambýlismaðurinn spyr hvort ég geti ekki skroppið fyrir sig og keypt klór. Ég hélt það nú. Kringlan opin til níu og svona. Ekkert mál að skottast fyrir hann í Hagkaup. Kaupa klór. Jafnvel svipast um eftir snakkskál í leiðinni. Svona fyrst ég var á annað borð að fara í Kringluna. Gráupplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Eins og mér einni er lagið.

Ég byrja á að koma við í Tiger. Í leit að skálinni sko. Jæja, ég finn afar laglega skál eftir litla leit. Sem kostaði 900 krónur. Ég rökræddi aðeins við sjálfa mig. 900 kall. Lét skálina frá mér. Úff. Ég get alveg kafað með lúkurnar ofan í snakkpokann eitthvað lengur. Níu hundraðkallar fyrir eina skál. Gleymdu þessu. 

Þar með var það afgreitt. Ég legg leið mína í Hagkaup. Með viðkomu í Gallerí 17. Sem ég fer afar sjaldan inn í. Af því ég er mjög langrækin. Og fyrirgef ekki neinum neitt. Ég lenti nefnilega einu sinni í mínu eigin Pretty Woman atviki inni í þessari verslun. Fyrir utan þá staðreynd að ég var 14 ára fermingarstelpa. Ekki vændiskona. 

Löng saga stutt: ég var of þung. Afgreiðslukonan sagði að ég fyndi sennilega ekkert í minni stærð hjá þeim. Ókei, 16 ár síðan. Ég veit. Sumt bara gleymist seint. Eða aldrei. 

Nóg af dramatík. Í gærkvöldi keypti ég ekki klór. Af því ég var viss um að ég gæti fengið hann ódýrari í Bónus. Og það var ekki opið þar þegar ég var á ferðinni. Eins neitaði ég mér um snakkskál á 900 krónur. 

En ég keypti kjól. Ó, svo fínan kjól. Í Gallerí 17. Sem kostaði mig, tjah, tíu snakkskálar. Rétt tæplega.




Já, hann er jafn þægilegur og hann er fallegur. Ef þið voruð að velta því fyrir ykkur.



Það er alltaf ein ristilkrampapósa í hverri myndatöku. Auðvitað. 

Leitt að ég náði ekki mynd af sambýlismanninum þegar ég kom heim eftir Kringluferðina. Ekki með klór. Né snakkskál. Af því ég var að spara. Sú mynd hefði átt heima í ramma.

Eigið góða helgi mín kæru.

Þið finnið mig bæði á Snapchat & Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Sep 16, 2015

Þrennt


Ég er ekkert sérstaklega hrifin af ís. Hef aldrei verið neitt óður aðdáandi. Ég er líka með krónískt tannkul. Fer að skæla ef ég dreg andann með opinn munn í minna en 10 stiga hita. Svona næstum. 

Ég get vissulega slafrað í mig öllum ístegundum. Ég er ekkert ómannleg. Ég ét ís ef einhver gefur mér ís. Með góðri lyst. Eins og allt annað ef út í það er farið. Ís er þó eitthvað sem ég kaupi sjaldan sjálfviljug. Nema kannski þegar ég horfi á Keeping Up With the Kardashians. Þá borða ég Yoyo ís. Eins og ég fái borgað fyrir það. Sem ég fæ samt ekki. Þetta er ekki kostað neimdropp. 

Jæja. Hvað um það. Ég er almennt ekki hrifin af ís. Ekki grimmur íshatari, nei. Bara ekki hrifin. Þannig séð. 

Undanfarnar þrjár vikur hefur þó átt sér stað einhver viðsnúningur. Undarlegur viðsnúningur. Ég hef ekki hugsað um annað en ís. Ís. Ís. Ís. Og gert fátt annað en að borða ís. Í öllum útgáfum. Ís er orðinn á pari við stórfenglegar samfarir. Ekki hægt að fá nóg. Skil þetta ekki. 

Í þessu dularfulla ástandi hef ég helst kosið vanilluís. Með viðbótum að eigin vali. Dularfullt ástand er ekki tilvísun í óléttu. Höfum það á hreinu. Held nú síður. Er að drekka rauðvín. Verulega laus við óléttu. Og allt sem henni fylgir. 

Ókei, ég er hætt að blaðra. Að efninu. 

Þetta þrennt hefur verið í uppáhaldi síðan ísfárið mikla hófst: 



Mér skilst að ég sé með þeim síðustu á jarðkringlunni til þess að bragða þessa blöndu. Ís og sterkt Hockey Pulver. Þetta er víst selt í ísbúðum. Já, ég er ekki alltaf með á nótunum. Mér til varnar þá er ég utan af landi. Þar eru engar ísbúðir. Og bara seldur ís í vél á sumrin. 

En þetta er gott. Galdrandi geggjað alveg hreint. Mmm. 


Íssósa búin til úr Rommý. Og já, við ætlum að hunsa þennan skítuga glugga þarna á bak við. Með öllu. Þið sjáið þetta ekki. Hver horfir svo sem út um eldhúsgluggann hjá sér? Ekki ég. Augljóslega.


Bræðum Rommý með rjómaslettu.



Það má vel sleppa andskotans ísnum og drekka bara sósuna. Þvílíkt hnossgæti.


Þá er það rúsínan í pylsuendanum. Hamingjan hjálpi mér. Ís með beikonkaramellu. Nei, ekki hætta að lesa. Þetta er yfirnáttúruleg blanda. Ástaratlot við bragðlaukana. 

Ég. Sver. Það.


Fleygið 4-5 beikonsneiðum inn í ofn á 200° í 15-20 mínútur. Leyfið því að kólna. Saxið smátt.


Fleygið eftirfarandi á pönnu:

1 1/2 bolli sykur
1 1/2 msk smjör
1 tsk salt
1/4 bolli vatn

Látið krauma við háan hita í tæplega 10 mínútur - eða þangað til blandan verður ljósbrún. Smellið beikoninu saman við og skvettið yfir fulla skál af ís. 


Karmellan verður stökk. Ah, að bryðja hana með mjúkum ísnum. Það eru engin orð. Sálin syngur. Lífið tekur nýjan lit. Ég elska beikon. Elska það. 

Og ís. Í augnablikinu.

Heyrumst.