Sep 26, 2015

Yfir rassinn


Ég er ekki að fara að sýna ykkur nýjan kjól. Aldrei slíku vant. Fæ prik fyrir það. 

Nei, ókei. Engin prik. Ég á ekkert einasta prik skilið. Spörum prikin. Þessi færsla inniheldur nýja skyrtu. Og trefil. Allt gult. Svo fallega gult. 

Mér líður vel í gulu. Afskaplega vel. Augljóslega. 

Æ, það er eitt sem pirrar mig. Frekar mikið. Svo ég vaði nú úr gulu yfir í annað. Alveg allt annað. Það pirrar mig hvernig ég segi stundum frá. Þið vitið. Ég get aldrei smellt í stutta bloggfærslu. Bara með tíu myndum og tveimur setningum. Nei. Ég þarf alltaf að segja einhverja sögu. Ferlega langa sögu. Sem er ógeðslega tímafrekt. Og það pirrar mig. Í rauninni dugar alveg:

 ,,Hæ. Ég keypti skyrtu og trefil. Allt gult og glimrandi glæsilegt. Takk og bæ."

Svo bara glás af myndum og allir sáttir. En nei. Ó, nó. Ég get það ekki. Ég finn strax þörfina til þess að byrja að segja ykkur hvernig ég lokkaði sambýlismanninn í Smáralindina af því mig vantaði sjampó. Allt í lagi, ekki frumlegasta lygin í stóru lygabókinni minni. 

Úff, sú bók sko. Þvílíkur doðrantur. En hún inniheldur samt bara hvítar lygar. Sem skaða ekki nokkurn mann. Að ég held. 

Nei, það var ekkert sjampó sem mig vantaði. Ég hafði fengið veður af gulum kjól kvöldið áður. Sem staðsettur var í Vila. Ég ætlaði bara aðeins að kíkja.

Og núna ætla ég að hætta. Sagan búin. Ég keypti föt. Við skulum skoða þau. Án frekari málalenginga. Andskotinn sko. Ég vildi að ég væri hnitmiðaðri. 



Trefill: Vila í Smáralind.

(hintmiðað, sko mig!)


Glætan. Þetta hnitmiðaða dæmi gengur ekki. Aldrei.

Tölum aðeins um rassinn á mér. Og þessa skyrtu. Sem ég keypti líka í Vila. Ég kaupi aldrei skyrtur. Á ekki eina einustu. Eða jú, eina. Karlmannskyrtu. Sem ég gaf sambýlismanninum í jólagjöf. Honum leið eins og háöldruðum kúreka í henni. Þannig að ég hirti hana. Og er eins og kornungur glæsifoli í henni. En það er önnur saga.

Ég nenni ekki skyrtum. Það er nefnilega afar sjaldgæft að þær passi yfir rassinn á mér. Ég get alveg hneppt þeim að ofan. Enda ekki nokkur fyrirstaða þar. Flatlendi eins langt og augað eygir. Svo koma neðstu tölurnar. Og þá fer að síga á ógæfuhliðina. Og ég verð eins og rúllupylsa sem er byrjuð að losna í annan endann. Eða já. Þið vitið. Vítt að ofan. Alltof þröngt að neðan. 

En ekki þessi. Strekkist ekki einu sinni yfir það eina sem ég á sameiginlegt með Kardashian-systrunum. 

Þessi mynd líka hérna að ofan. Mér finnst hún stórkostlega falleg. Jú, það má segja fögur orð um myndir af sjálfum sér. Það er líka bara svolítið hressandi. Svona ykkur að segja. 


Það þarf að strauja skyrtur. Allt í lagi. Duly noted.




Næsta blogg verður stutt, hnitmiðað og ekki um rassinn á mér. 

Núna ætla ég í Ikea. Og kannski Tiger. Og Söstrene. Og halda áfram að fylla íbúðina af brúðkaupsskrauti og kertum sem ekkert samræmi er í. 

Þið finnið mig á bæði Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

5 comments:

  1. Mér finnst einmitt þessar sögur þínar svo skemmtilegar og gera þitt blogg að ÞÍNU. Mér finnst þú líka skemmtilegur snappari :) Ekki fara að vera hnitmiðuð eins og "allar hinar" :)
    kv
    Sigrún

    ReplyDelete
  2. Sammála síðasta kommenti, þú segir svo skemmtilega frá! ;)
    Kv. Sólveig

    ReplyDelete
  3. Plís ekki verða hnitmiðuð eins og öll hin bloggin, þess vegna ert þú skemmtilegri :)
    Kv. Helga

    ReplyDelete
  4. Ég vil ekki sjá neitt stutt og hnitmiðað frá þér!!! :)
    Og mikið sem ég kannast við þetta flatlendi að ofan, og alltof þröngt að neðan!!!!

    ReplyDelete
  5. sammála öllum, mér líkar vel við hvernig þú segjir frá :)

    ReplyDelete