Sep 29, 2014

G J A F A L E I K U R.

Nú verður þetta barn mitt 2ja ára í október. Með barni á ég við bloggið. Tvö heil ár. Ég ætti eiginlega að baða sjálfa mig í gjöfum - ekki aðra. En jæja. 

Að því tilefni ætla ég nú mögulega að hafa einhverja gjafaleiki. Þeir eru skemmtilegir. Ég er reyndar afar löt við að taka þátt í þeim sjálf. Aðallega af því að ég vinn aldrei neitt. Aldrei. Hef einu sinni á ævinni unnið standandi bingó. Fékk risavaxinn körfuboltabúning og ferðatösku. Það telst ekki sem vinningur. Alveg alls ekki. 

Til að byrja með ætla ég að gefa það sem ég á mest af. Ekki ást, kærleik og gleði. Nei. Neinei. 

Naglalökk.


Ég heimsótti hana Sigríði Elfu mína í síðustu viku. Hún á þessa vefverslun. Sem ég hef jú svo oft talað um og dásamað. Ég heimsæki Sigríði reglulega og yfirgef svæðið oftast með svona þrjú lökk í poka. Ekki fór svo í þetta sinn. Ó, nei. Bölvuð haustlínan frá Barry M - svo guðdómlega fögur að mig langar að drekka hana. 

Ég gekk út með alla línuna. Sex naglalökk. Einmitt það sem mig vantaði. Sex ný naglalökk.



Þarna er ég búin að vera með lakkið í fimm daga. Ennþá alveg glansandi fínt. 


Mig langar í piparkökur þegar ég horfi á þessa mynd. Og hlusta á Jingle Bells. Og skreyta. Og drekka eggjapúns.



Jæja. Svo ég komi mér að efninu. 

Í samstarfi við fotia.is ætla ég að gefa einhverjum stálheppnum lesanda þrjú naglalökk úr haustlínunni. Að eigin vali auðvitað. 

Leikurinn er með hefðbundnu sniði:

1. Þið farið inn á síðuna hjá Barry M - Ísland og smellið í eitt læk.
2. Þið skiljið eftir comment hérna fyrir neðan færsluna. Hlekkurinn í gráa kassanum. Ef það virkar ekki þá getið þið skilið eftir línu á Facebook og ég set ykkur inn.

Einfalt mál.

Heyrumst.

Sep 27, 2014

Morgunstund.


Jah, þetta var nú eiginlega meira hádegisstund. Ég ætlaði á fætur klukkan sjö enda að drukkna í lærdómi og öðrum ófögnuði. En nei. Ég snúsaði frá sjö til tólf. Ég vaknaði á sjö mínútna fresti í fimm klukkutíma en tókst samt ekki að hafa rassgatið á mér fram úr rúminu. Það er að vísu í þyngri kantinum þessa dagana. Ég reiknaði það einmitt út í gær að síðustu fjóra mánuði er ég búin að borga 24 þúsund krónur fyrir einn spinningtíma. 

Jájá. Ég borga 6 þúsund krónur á mánuði fyrir líkamsræktarkort. Mæti ég í líkamsrækt? Nei. 

Eruð þið að velta því fyrir ykkur hvað er ofan í skyrdósinni? Ó, ég skal sýna ykkur.


Nælum okkur í eina dós af svona skyri. Bökuð epli. Mmm. Bill Spencer. Mmm. Já ég er að horfa á Glæstar með öðru auganu á meðan ég skrifa. 


Setjum sirka lúku af chiafræjum í lítið glas og svipað magn af vatni út í svo þau verði að hlaupi. 


Hendum fræjunum út í skyrið og hrærum vel saman.


Hnetusmjör. Alltaf hnetusmjör.


Tvær vænar skeiðar af því. Eða þrjár. Eða fjórar.


Algjört hnossgæti. Ég lofa!


Jæja. Áfram með smjörið. Lærdómurinn bíður. Alveg yfirdrifið nóg af honum.

Ég er ekki alltaf skarpasti hnífurinn í skúffunni. Því miður. Síðustu tvö ár hef ég stundað það að fresta þeim námskeiðum sem mér finnst hljóma leiðinlega. 

,,Æ, ég tek þetta á næsta misseri bara."
,,Oj, er svona löng ritgerð í staðinn fyrir próf - ugh, ég tek þetta næst bara."
,,Úff, 100% lokapróf - ég tækla þetta seinna."
,,Ritgerð úr lesefninu einu sinni í viku? Seinna, ég tek þetta seinna."

Ah, mannvitsbrekkan sem ég er. Síðasta misserið mitt (krossum fingur) og öll leiðinlegu námskeiðin eru á borðinu hjá mér núna. Öll í einu. Well played. Fullt af ritgerðum, lokaprófum og lestri. Jú og ein helvítis meistararitgerð er á þessu borði mínu líka. Ókláruð. 

Úff. 

Heyrumst.

Sep 24, 2014

Topp fimm.

Við erum ekki að fara að ræða um menn eða maskara á þessum lista. Ó, nei. 

Ég hef nú þegar sett saman tvo lista yfir menn sem rífa allar óviðeigandi hugsanir út á dansgólfið. Sjá hér og hér. Maskarar, já nei. Ég kann ekki einu sinni nöfn á fimm slíkum.

En sælgæti - ó, þar er ég á heimavelli.

Hér tölum við fyrir utan Bingókúlur og Reese´s Peanut Butter Cups. Það er eiginlega ekki nammi - meira svona eitthvað sem er alltaf til inni í skáp. Nei, ég segi nei. Ekki talið sem sælgæti. Bara hluti af daglegri fæðuinntöku.


Milka Oreo og Milka Caramel. Guð minn góður - þegar Milka Oreo lenti á Íslandi, svipuð tilfinning og að eiga barn. Sko eftir að barnið er komið í heiminn. Dálítið löngu eftir. Og maður er ennþá í örlítilli glaðloftsvímu. Hrein og tær hamingja. Mmm.


Súkkulaði og salt - blanda sem ég hef rætt svo margoft við ykkur. Hérna er karamella komin í sömu sæng. Þetta þarf ekki að ræða neitt frekar. 


Þetta er eiginlega búið að vera uppáhalds súkkulaðið mitt síðan ég man eftir mér. Föðursystir mín var að passa mig fyrir langa löngu og gaf mér svona stykki. Að öllum líkindum til þess að þagga niður í mér. Ég var mjög óþægilegur krakki og hugsaði aldrei áður en ég talaði. Í dag hugsa ég alltaf áður en ég tala. Alltaf.


Ég. Elska. Rommý. Ah, að finna það bráðna á tungunni og svo tekur fyllingin völdin. Algjör sæla. Minnir mig á langömmu mína sem átti alltaf til nóg af kóki í gleri og fullan skáp af Rommý.


Ég er búin að borða mjög ótæpilega af þessum sleikjóum yfir ævina. Kannski sælgæti almennt ef út í það er farið. Mér finnst þessir dökkbrúnu að vísu ekki góðir. Ég ét þá samt sko. Svipað og með Makkintoss, á endanum ét ég vondu molana. Svona þegar ég rekst á dunkinn inni í geymslu í mars eða apríl - fullan af appelsínugulum og rauðum molum. Sem eru jú ógeð en samt hugsa ég ,,neeehh, ég fer nú ekki að henda þessu."

Treð þeim svo í andlitið á mér án þess að blygðast mín. 

Hvað er uppáhalds nammið ykkar? 

Do tell.

Heyrumst.

Sep 21, 2014

Að blogga.

Ég fæ ótrúlega oft tölvupósta og skilaboð þar sem ég er spurð hvernig eigi að blogga. Tjah, svona inn á milli skilaboðanna frá stórundarlegum einstaklingum sem vilja hjúkra mér og bera á mig krem - well done Guðrún Veiga að viðra þetta á internetinu.

Jæja. Engu að síður - ég er oft beðin um einhverskonar bloggráðleggingar. Hvað þarf til þess að halda úti bloggi og fá fólk til þess að lesa það? 

Nú er ég mögulega að fara að tala út um rassgatið á mér. Ég geri það stundum. Þetta eru alfarið mínar persónulegu skoðanir. Hvernig ég upplifi það að blogga og hvernig best er að fara að því. Aðrir bloggarar gætu vel séð þetta í allt öðru ljósi. 


Að vera einlægur og persónulegur - við eigum bæði góða og slæma daga. Við erum öll mannleg. Höfum okkar kosti og galla. Ef við ætlum að viðra líf okkar á internetinu finnst mér mikilvægt að vera manneskjulegur. Koma til dyranna eins og maður er klæddur hverju sinni. Ekki bara mála sig inn í einhverja glansmynd - hún verður frekar einsleit og leiðinleg til lengdar. 

Það sem ég á við er að lífið er jú upp og niður - ég sem manneskja vil frekar lesa um allskonar daga hjá fólki heldur en endalaust bölvað kjaftæði um hvað lífið sé dásamlegt. Afsakið orðbragðið. Stundum er það dásamlegt. Stundum er það eins og að liggja allsber í holræsi. Með rottur að narta í sig. 

En auðvitað kæra sumir sig ekkert um að tala á persónulegu nótunum og það er vel skiljanlegt. Að sjálfsögðu ræður hver og einn hversu persónulegur hann vill vera á blogginu sínu.

Þetta veltur eiginlega allt saman á því hvaða sviði er bloggað á. 

Ég laðast að minnsta kosti frekar að bloggum þar sem bloggarinn hleypir mér örlítið inn. 
Ég les allskonar blogg - tískublogg, förðunarblogg og matarblogg. Allt eru þetta blogg sem vel geta borið sig án þess að það þurfi að gerast persónulegur. Mér finnst það samt alltaf skemmtilegra. Heimilislegra eiginlega. Mig langar að vita hvaða manneskja er á bak við kökuna, farðann eða fötin. 

Úff, ég tala alltaf svo mikið. Boðskapurinn: ekki vera feik. 

Myndir - þegar ég villist inn á blogg eru myndirnar það fyrsta sem grípur auga mitt. Þær þurfa ekkert að vera stórkostlegar þó mér finnist flestir bloggarar ansi metnaðarfullir þegar kemur að myndatöku. Ég vil bara minn texta með dálítið af myndum. Í fullri hreinskilni þá eru lélegar símamyndir í mörgum tilfellum fráhrindandi. Ég er ekki að segja að það þurfi að eiga 100 þúsund króna myndavél, þvert á móti. Það má taka góðar myndir á flesta síma og allskonar myndavélar. 



Hafa húmor fyrir sjálfum sér - æ, það þýðir ekkert að taka sjálfan sig of alvarlega. Hvorki á blogginu né annarsstaðar.

Gæði umfram magn - það er enginn tilgangur í að drita inn á bloggið bara einhverju bara til þess að blogga. Eins og það sé einhver skylda. Stundum er hægt að framleiða fínar færslur marga daga í röð. Aðra daga er maður með hugmyndarflug á við ljósastaur. Ekkert að ske. Og það er alveg allt í lagi. 

Málfar og stafsetning - ó, boj. Ég er sennilega á leiðinni út á hálan ís. Ég ætla samt að segja það. Lélegt málfar og stafsetningarvillur eru fráhrindandi. Munið - við erum að skoða þetta frá mínum bæjardyrum. Svona hlutir stinga mig í augun. Kannski ekki alla. En mig.

Jújú, við getum öll gert allskonar villur. Sjálf er ég þágufallssjúkari en góðu hófi gegnir. En það er um að gera að vanda sig.

Orðaforði - okkur hættir til að ofnota sum orð. Ég reyni að forðast það eins og ég get en fæ nú samt stundum hroll þegar ég les yfir gamlar færslur og sé orðið bara 412 sinnum í einni klausu. 

Að bæta orðaforðann er líka eitt af mínum sérlega undarlegu áhugamálum. Það geri ég til dæmis með því að lesa minningargreinar upp til agna. Þær eru stútfullar af allskonar orðum. Alveg hreint merkilegt fyrirbæri. 

Þolinmæði - það eignast enginn lesendahóp á einni nóttu. Í fyrstu eru það bara amma manns og mamma sem lesa. Á þessum tíma sem ég hef bloggað hef ég séð ótal blogg verða til og steindeyja stuttu síðar. Þessi iðja getur verið virkilega tímafrek. Erfið. Stressandi. Hundleiðinleg á köflum - prófið að taka myndir í kjallaraíbúð sem er gjörsneydd allri birtu. Andskotinn sko. 

Já - löng saga stutt: vera hreinskilinn, trúr og samkvæmur sjálfum sér. Skrifa um það sem maður hefur áhuga á og gera það vel. Vanda sig í einu og öllu. Muna að Róm var ekki byggð á einni nóttu - eða hvernig sem það orðtak hljómaði nú. 

Að byrja að blogga er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ef þig kitlar í puttana er ekki eftir neinu að bíða. 

Áfram gakk.

Heyrumst.

Sep 19, 2014

Bókamarkaður.

Ég elska bækur. Allskonar bækur. Ég safna þeim eins og ég safnaði sælgætisbréfum í gamla daga. Alveg sönn saga. Ég safnaði nammibréfum í lengri tíma en ég ætla að viðurkenna. Svo saumaði ég kjól úr þeim. Jájá. Tók meira að segja þátt í fatahönnunarsamkeppni. Ég man að fólk var mest hissa hver hefði étið allt þetta sælgæti. Jú það var ég. Bara ég. 

En bækurnar já. Ég hef alltaf lesið mikið. Það er hollt að lesa. Hollt fyrir bæði orðaforðann og ímyndunaraflið. Ég er ekki hrifin af fyrirbærum á borð við rafbækur eða Kindle. Hvað sem þetta kallast nú. Ótrúlega lítið sjarmerandi - þó ég geti vel skilið þægindin. Ég vil þukla á blaðsíðum. Finna lyktina. Ah, stilla bókunum upp í hillu. Fátt fegurra. 

Tilgangurinn með þessari færslu var að benda ykkur á dásamlegan bókamarkað hjá Forlaginu sem er í gangi núna. Ég sá einhverja auglýsingu í Mogganum og var mætt á svæðið á núll einni. Svona sirka. Markaðurinn er staðsettur í búð Forlagsins, Fiskislóð 39 nánar tiltekið. Mig minnir að ég hafi lesið að hann sé til 5.október. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti það.


Ég er mikil áhugamanneskja um fegurðarsamkeppnir.


Skyndibitar fyrir sálina. Það þarf jú að fóðra hana líka. Svona annað veifið.


Yfirborðskenndar ástarsögur. Jább. Ég er aðdáandi.

Ég á eftir að gera mér fleiri ferðir á þennan markað. Eftir mánaðarmót.

Sniðugt að versla jólagjafir þarna líka. Það er ekkert betra en að fá bók í jólagjöf. Mmm. Makkintoss, mjúkir sokkar og ný bók. Hangikjötslykt. Rjómasósa í munnvikinu. Jólaljós. Heimatilbúið rauðkál. Kakóið hans pabba.   

Ég. Get. Ekki. Beðið.

73 dagar.

Heyrumst.


Sep 17, 2014

Ég eldaði.


Ég var ekki að elda núna, nei. Bara í gær sko. Það eru ákveðin tíðindi vegna þess að í síðustu viku lofaði ég mér því að snerta aldrei eldhúsáhald aftur. 

Ég fór út að borða þrjú kvöld í röð. Ekkert á Hereford neitt. Bara Ikea, Smáralind - þið vitið. Ég kalla það út að borða. Sá síðan fram á að þurfa að skarta netasokkabuxum upp við ljósastaur í Breiðholti ef ég sviki ekki þetta loforð við sjálfa mig. Þannig að já - ég eldaði. 

Pestókjúklingur:

450 grömm kjúklingalundir (ég kaupi frosnar)
1 krukka pestó
1 krukka fetaostur
1/2 krukka svartar ólívur
3 tómatar
1 gul paprika
fáeinir sveppir
rifinn ostur


Léttsteikið kjúklingalundirnar á pönnu. Kryddið með salti og pipar. Komið þeim síðan vel fyrir í eldföstu móti.


Ég mæli með hefðbundnu pestói fyrir viðkvæma. Þetta var sterkt. Mjög.


Smyrjið pestóinu yfir kjúklinginn. Hellið fetaostinum yfir og leyfið sirka tveimur matskeiðum af olíunni að fylgja. 



Grænmetið ofan á herlegheitin.


Rifinn ostur yfir og inn í ofn á 180° í 25-30 mínútur.


Dugar mér í tvær máltíðir og sem nesti í skólann. Ekki það að ég hafi almennt mætt í skólann þetta misserið. Það er önnur saga. 

Ps. kunnið þið einhver trix við hárlosi? Jú ég er að bryðja hárkúr og þaratöflur eins og óð kona. Virkar ekki neitt. Tjah, ekki á hárið á hausnum á mér að minnsta kosti. Annarsstaðar spretta hárin eins og villt blóm að vori. Fann meðal annars eitt stykki á milli brjóstanna á mér í gær. Það var, eh já, upplifun. 

Heyrumst.

Sep 15, 2014

Myndataka.


Þegar ég fæ flugur í hausinn, ó þegar ég fæ flugur - hamingjan hjálpi mér. Ég verð bara ekki róleg fyrr en ég næ að hrinda hverju því sem mér dettur í hug í framkvæmd. Stundum kostur. Stundum galli. 

Þessi fluga krafðist nú örlítillar fyrirhafnar. Ég vildi jú vera hálfnakin í baðkari. Fullu af poppi. Úti í guðsgrænni náttúrunni. 


Ég er að ljúga þegar ég segi að ég hafi viljað vera hálfnakin. Ég vildi það ekki neitt. Þarna er verið að reyna að sannfæra mig um að fækka fötum.


Krafðist umhugsunar sko. Ég er svo miklu meiri tepra en ég spila mig. Vinkonur mínar ræða til dæmis aldrei við mig um nein málefni neðan beltis. Hausinn á mér fer bara að snúast í hringi og æla spýjast út um allt. Svona eins og í Exorcist, þið vitið. 


Meira brasið sem þetta var. Baðkarið var alltof stórt og þrátt fyrir að hafa keypt hvert einasta poppkorn í bænum þá dugði það skammt. Við þurftum þess vegna feika hlutina örlítið. Fylla karið af rusli og spila af fingrum fram. 

Myndirnar eru - tjah, misgóðar. Það voru teknar yfir þúsund myndir. Tæplega fjórtán eru nothæfar. Ekki skorti ljósmyndarana hæfileika, ó nei. Ég verð bara alltaf eins og helvítis hobbiti um leið og ég heyri smell í myndavél. Merkilega óþolandi.


Tölfræðin væri þveröfug hefði ég fengið að taka allar myndirnar svona. 

Stórskemmtileg lífsreynsla. Svona þrátt fyrir að ég sé ennþá tilfinningalaus fyrir neðan háls sökum ofkælingar. Jú og finnandi popp á stöðum þar sem enginn ætti að finna popp. Nokkurn tímann. 

Hlakka til að sýna ykkur meira. Seinna. Á allt öðrum stað. 

Heyrumst.

Sep 12, 2014

Föstudags.


Það er langt síðan við höfum hent í einn áfengan á föstudegi. Þessi er stórfenglegur. Enda rauður á lit. Þið vitið væntanlega hvert helsta innihald hans er.

Í þennan þarf:

Börk af lime, mandarínu og sítrónu
Frosin brómber
Sprite
Trönuberjasafa
Rauðvín - já, Ó, já.


Fullt af frosnum brómberjum í glas.


Nóg af berki saman við. Afar smekklega og pent skorið hjá mér.


Trönuberjasafi, rauðvín og Sprite í jöfnum hlutföllum. 


Það er ljómandi gott að henda fáeinum mandarínulaufum ofan í glasið líka. Kreista þau örlítið í leiðinni.



Note to self: Ekki fara í hvítar götóttar gallabuxur þegar lappirnar á þér eru hvítari en helvítis buxurnar. Ekki svo smart. 

Eru ekki annars allir á fullu að gerast heimsforeldrar? Síminn er 562-6262.
Áfram gakk. 

Heyrumst.

Sep 11, 2014

Hæ.

Jæja. Þá er ég alveg að koma til byggða eftir bókaskrif. Síðustu þrjár vikur hafa verið ansi strembnar. 
En virkilega lærdómsríkar og skemmtilegar. Og fitandi. Ég get alveg alls ekki hent mat í ruslið. Á síðustu 20 dögum hef ég útbúið yfir 100 rétti til þess að taka mynd af. Ég bý ein. Alein. Djöfullinn hafi það. 

Þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því að það er heldur ekki ein holl uppskrift í þessari bók. 


Bókin er alls ekki eitthvað uppskriftasafn. Þvert á móti. Ég lagði upp með að skrifa hverja uppskrift eins og bloggfærslu þannig að það er fullt af passlega óviðeigandi blaðri inn á milli. Þéttur poppkafli þarna líka - þið ættuð að vera farin að þekkja mig.

Sjónvarpsævintýri mitt fékk svo fremur snubbóttan endi á dögunum. Síðast þegar ég vissi vorum við að skipuleggja tökur á annarri seríu. En nei - búmm, allt búið. En ég fer sátt frá þessu öllu. Reynslunni ríkari. Þykir bara leiðinlegt að sjá þessa stöð deyja.


Lífið í Breiðholtinu er að fá á sig eðlilega mynd eftir ævintýralegt sumar. Ég er byrjuð að þykjast læra. En er í raun og veru bara að naglalakka mig og borða súkkulaði. Allt eins og það á að vera. Svona fyrir utan það að ég er bæði atvinnulaus og næstum heimilislaus - mér verður víst hent út úr Breiðholtinu þann 1.nóvember næstkomandi.

Annars er ég ljómandi spræk og hlakka til að geta sinnt elsku blogginu mínu á nýjan leik.

Ps. Ég er líka hrikalega spræk á Instagram. Ykkur er velkomið að fylgja mér þar - @gveiga85.

Heyrumst.

Sep 6, 2014

París norðursins.


Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá þessa mynd í síðustu viku og verð einfaldlega að fá að mæla með henni. Sunnudagar eru jú ferlega góðir bíódagar.

Hún er pissfyndin (jú það er orð). Óþægileg. Dramatísk á köflum. Manneskjuleg. Raunveruleg. Sorgleg. Hún hefur allt sem góð bíómynd þarf að hafa en er samt svo stórkostlega einföld. Það eru engir afgerandi atburðir í henni. Ekkert brjálað að ske. En samt situr maður alveg límdur. Við það að pissa í sig eða fara að skæla. 

Nú fyrir utan tónlistina. Hvílíkur unaður og algjörlega rúsínan í pysluendanum.

Helgi Björns á stórleik. Að öðrum alveg ólöstuðum. Það er ekki bara ást mín á Helga sem talar. Ég elska hann jú næstum eins mikið og Bubba. Hann fer bara á kostum í hlutverki miðaldra fyllibyttu sem er nýfluttur heim eftir misheppnaðan barrekstur á Tælandi. Hann sest upp á son sinn, Huga (Björn Thors), sem er kennari í litlum bæ á Vesturlandi. Hugi er í einhverskonar felum frá lífinu. Yfirgaf saurlifnaðinn í borginni og er orðinn AA-maður vestur á landi. Þeir feðgar eiga ekki beint samleið og koma þess vegna upp alls kyns kómískar aðstæður. Fyrir utan þá staðreynd að í þorpinu virðist bara búa ein kona. Sem veldur ákveðnum vandkvæðum.


Þetta er mynd þar sem svo auðveldlega er hægt að setja sig í spor sögupersónanna. Það er stundum gaman að vera til. Stundum alveg alls ekki. Þó var eitt sem stuðaði mig. Landsbyggðarhjartað slær auðvitað svo fast í brjósti mér. Í kvikmyndagagnrýni DV segir að það megi velta því fyrir sér hvort umhverfi myndarinnar viðhaldi útjöskuðum staðalímyndum um landsbyggðina. Hvort hún gerir. 

Mjög snemma í myndinni hleypur Björn Thors í gegnum þorpið - það fysta sem ég hugsaði var ,,já ókei - myndin á að gerast 1980 og eitthvað". Eldgamlar bíldruslur í öllum stæðum. Varla malbikaðir vegir. Húsin eins og þau hefðu nýlega staðið af sér fellibyl. Svo sé ég glitta í bílnúmer og átta mig á að myndin á bara að gerast í dag. Úti á landi keyrum við að sjálfsögðu öll um á bílum árgerð 1991, málum aldrei húsin okkar og höfum aldrei séð malbik. 

Æ. Ég er kannski bara að röfla. Þetta stakk mig örlítið. Eins var þetta líka það fyrsta sem systir mín minntist á þegar við gengum út úr bíóinu.  Merkilegt hvernig ,,úti á landi" verður alltaf eins og einhversstaðar í Síberíu í íslenskum kvikmyndum. 

Burtséð frá því. Algjörlega. Myndin er stórskemmtileg og mæli ég innilega með henni. Stórum popppoka líka. 
Og Bingókúlum - þær eru sko bestar í kvikmyndahúsum. Miklu ferskari og mýkri. Já. Ég hef keypt Bingókúlur allsstaðar og veit nákvæmlega hvar þær eru bestar.

Heyrumst fljótlega.


Sep 3, 2014

Hinsta kveðja.

Allt í lagi, ekki alveg sú hinsta. En svo gott sem. Ég sit hérna sárþjáð á bæði sál og líkama.

Ég var í myndatöku áðan. Sem er ekki í frásögur færandi nema að ég ákvað að klæðast afskaplega fallegum bol sem leyfir eiginlega ekki þann munað að klæðst sé brjóstahaldara innan undir. Bakið á honum er að miklu leyti blúnda og ljótur brjóstahaldari skemmir bara fyrir. Já ég á bara ljóta brjóstahaldara. Önnur saga.


Gömul mynd af umræddum bol - frá Lísu minni í Level.

Jæja. Ég varð að finna einhverja sómasamlega lausn á þessu brjóstahaldaraleysi. Ekki vildi ég bjóða gestum og gangandi upp á háu ljósin í allri sinni dýrð. Myndatakan fór fram utandyra. Það er orðið kalt í lofti. Þið skiljið sneiðina.

Mig rámaði í að einhver mannvitsbrekkan hefði nú eitt sinn sagt mér að hún teipaði bara á sér brjóstin. Ekkert mál. Maður límir bara yfir þau. Enginn sér neitt. Kannski dreymdi mig þetta. Ég veit það ekki. 

Ég að minnsta kosti sló til. Fann þetta stórfína einangrunarlímband hérna inni í skáp. Þetta silfurlitaða/gráa, þið vitið. Eins og fólk notar til þess að líma upp stuðarann á bílnum sínum og svona. Talsvert sterkara en eitthvað sem notað er á afmælispakka.

Þessu kem ég kyrfilega fyrir á bringunni á mér. Dásamleg lausn. Engin há ljós og ég gat klæðst bolnum mínum skammarlaust.

Ég mun sennilega geta klæðst honum skammarlaust ævina á enda þar sem ég er eiginlega ekki með geirvörtur lengur. Nei, nei. Ég reif þær af með rótum áðan. Guð á himnum. Að ná þessu af? Því verður eiginlega ekki með orðum lýst. Ég lá hérna emjandi og grenjandi. Öskrandi og æpandi. Með einangrunarlímaband á brjóstunum. Bölvandi sjálfri mér og þessari mannvitsbrekku sem líklegast var ímyndun mín. 

Úff og þegar ég brá á það ráð að sækja aceton mér til hjálpar. Ég hefði allt eins getað hellt yfir mig brennisteinssýru og bensíni og andskotans kveikt í mér.

Það er góður klukkutími síðan þetta átti sér stað. Ástandið á bringunni á mér virðist versna með hverju skiptinu sem ég lít ofan í hálsmálið hjá mér. Þar má sjá bláan lit. Grænan lit. Blóðsprungnar æðar og fínerí.

Ef ég lendi á Læknavaktinni af því ég teipaði brjóstin á mér með einangrunarlímbandi þá er þetta mín hinsta kveðja. Í alvöru.

Heyrumst.

Kannski.