Sep 11, 2014

Hæ.

Jæja. Þá er ég alveg að koma til byggða eftir bókaskrif. Síðustu þrjár vikur hafa verið ansi strembnar. 
En virkilega lærdómsríkar og skemmtilegar. Og fitandi. Ég get alveg alls ekki hent mat í ruslið. Á síðustu 20 dögum hef ég útbúið yfir 100 rétti til þess að taka mynd af. Ég bý ein. Alein. Djöfullinn hafi það. 

Þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því að það er heldur ekki ein holl uppskrift í þessari bók. 


Bókin er alls ekki eitthvað uppskriftasafn. Þvert á móti. Ég lagði upp með að skrifa hverja uppskrift eins og bloggfærslu þannig að það er fullt af passlega óviðeigandi blaðri inn á milli. Þéttur poppkafli þarna líka - þið ættuð að vera farin að þekkja mig.

Sjónvarpsævintýri mitt fékk svo fremur snubbóttan endi á dögunum. Síðast þegar ég vissi vorum við að skipuleggja tökur á annarri seríu. En nei - búmm, allt búið. En ég fer sátt frá þessu öllu. Reynslunni ríkari. Þykir bara leiðinlegt að sjá þessa stöð deyja.


Lífið í Breiðholtinu er að fá á sig eðlilega mynd eftir ævintýralegt sumar. Ég er byrjuð að þykjast læra. En er í raun og veru bara að naglalakka mig og borða súkkulaði. Allt eins og það á að vera. Svona fyrir utan það að ég er bæði atvinnulaus og næstum heimilislaus - mér verður víst hent út úr Breiðholtinu þann 1.nóvember næstkomandi.

Annars er ég ljómandi spræk og hlakka til að geta sinnt elsku blogginu mínu á nýjan leik.

Ps. Ég er líka hrikalega spræk á Instagram. Ykkur er velkomið að fylgja mér þar - @gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment