Jul 28, 2015

Salat sem ég gæti lifað á


Hér er ekki um að ræða hefðbundið salat. Nei. Hélduð þið kannski að ég hefði loks snúið við blaðinu? Væri nú með háleit markmið um að lifa á kálblöðum og krúttlegum kokteiltómötum? Jafnvel gengin til liðs við kolvetnafasista og sykurleysingja?

Nei. Ó, nei. Að vísu er ég að gæla við hveiti- og sykurlausan ágústmánuð. En það er bara sökum þess að ég var spurð að því hvort ég væri ófrísk um helgina. Ef vúdú-galdrar mínir hafa borið einhvern árangur er spyrjandinn ekki lengur á meðal vor. 


Þetta salat inniheldur beikon. Majones. Kartöflur. Og er stórkostlegt með öllu.

Sambýlismaðurinn á allan heiðurinn af þessu salati. Þegar ég útbý eitthvað matarkyns fyrir bloggið mynda ég venjulega allt ferlið. Treð að minnsta kosti tuttugu myndum inn í færsluna. 

Ljósmyndirnar sem fylgja þessari færslu eru hins vegar fátæklegar. Enda stóð aldrei til að skrifa um þetta ágæta salat. Fyrr en ég smakkaði það. Sem ég hef að vísu oft gert áður. Var bara búin að gleyma um hvurslags hnossgæti væri að ræða. 


Kartöflusalat

1 kíló kartöflur
1 bréf beikon (200 grömm plús)
1 rauðlaukur
1 paprika
vænn brúskur af spergilkáli
1 dós sýrður rjómi (10%)
1 lítil dós majones
2 teskeiðar dijon sinnep
Dill
Sítrónupipar
Salt
Pipar
Örlítið karrí

Skrallið kartöflurnar og sjóðið þær. Leyfið þeim að kólna alveg áður en þær eru skornar í bita. Sjóðið spergilkálið í 4-5 mínútur. Þerrið það vel. Saxið það smátt ásamt lauknum og paprikunni. Steikið beikonið þar til það er orðið stökkt, látið kólna og saxið smátt.

Blandið saman majonesi, sýrðum rjóma og dijon sinnepi í skál. Kryddið og smakkið ykkur til. Smellið svo kartöflum, beikoni og grænmeti ofan í blönduna og hrærið vel saman. 


Ég gæti étið (borðað) þetta salat beint upp úr skálinni. Með skeið. Alla daga. Alltaf. 

Heyrumst.


Jul 27, 2015

Útsölukaup


Ég brá aðeins undir mig betri fætinum um helgina. Fleygði mér í mjúkt og milt fangið á Smáralind. Lét glepjast af loforðum um verðhrun, útsölur, og afslætti. Upphaflega var á áætlun að versla buxur og skó handa afkvæminu. 

Ég verslaði það ekki. Hvorki skó né skálm. 


Móðir ársins verslaði sér hins vegar stórglæsilegt skópar.


Nú í fyrsta lagi þá kostuðu þeir ekki nema 2600 krónur íslenskar. Á 70% afslætti. Í Hagkaup. 

Í öðru lagi þá er ég að vinna í að gera skóflota minn örlítið kvenlegri. Ég lít alltaf út eins og ég sé nýstigin af mótorhjóli eða á leiðinni upp á Vatnajökul. 

Í þriðja lagi. Í þriðja lagi já. Það eru yfirgnæfandi líkur á að ég eigi aldrei eftir að nota þá. 99% líkur. Give or take. En það veitir mér ákveðna hugarró að eiga eitt par í skápnum. Kannski verð ég fíngerðari og fágaðri á mínum efri árum. Þá get ég gripið í þetta par. Og hugsað til þess með hlýju hversu hagsýn ég var á mínum yngri árum. Bara 2600 krónur. 2000 kall ef við námundum. 


Eftir rápið um Smáralind flandraði ég í annað fang. Á einum af mínum uppáhalds mönnum. Ekki pabba míns. Sambýlismanns. Afkvæmis. Eða bræðra. Nei. Heldur bóksalans í Kolaportinu. Ég elska hann í laumi.

Hjá honum var aldeilis útsala. Almennileg útsala. 50% af öllu. Og ég gekk einungis út með tvær matreiðslubækur.


Sambýlismaðurinn hefur sett hnefann í borðið. Ekki frekari bókakaup. Íbúðin einfaldlega rúmar ekki meira. Að hans sögn. Hann samþykkti þó þessar tvær. Með semingi.

Hann verður blessunarlega farinn aftur á hafið bláa þegar nýjasta pöntun mín af Amazon fýkur inn um lúguna. Í henni leynast sex bækur. Eða voru það átta? Æ, hver er að telja. Svo á ég líka von á örfáum naglalökkum af Ebay. Og með örfáum á ég við, tjah - þau eru fleiri en fimm. Færri en tíu.

Hann var einmitt eitthvað að ræða við mig um naglalökk. Ég man eftir að hafa heyrt útundan mér ,,það þarf engin að eiga svona mörg..."

Þá lokuðust eyrun. 

Þið finnið mig bæði á Instagram & Snapchat - gveiga85.

Heyrumst.

Jul 20, 2015

Rauður úr Rauða


Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim til Eskifjarðar er að fara í búðina hjá Rauða krossinum. Nei, ókei. Það er númer tvö í röðinni. Fyrst kíki ég í ísskápinn hjá mömmu og pabba. Og ét þau út á gaddinn. Svo fer ég í Rauða krossinn. 


Að þessu sinni valsaði ég út með þennan stórfenglega rauða kjól. Ásamt öðru. Sem við skoðum síðar. Rauðu glæsilegheitin kostuðu ekki nema einn rauðan seðil. Jæja, rétt rúmlega einn rauðan. 600 krónur ef ég á að vera nákvæm. Sem ég er aldrei. 



Mamma spurði hvort ég væri ekki alveg í lagi. Systir mín heldur að ég sé blind. Sambýlismaðurinn horfði á mig og spurði ,,í alvöru?" 

Mitt hryllilega hreinskilna afkvæmi vatt sér að mér og sagði það bara beint út. ,,Þetta er mjög forljótur kjóll mamma. Þú ferð ekki með mér út í þessu."

Er mér sama? Já, mér er alveg sama. 


Mér finnst hann fallegur. Hárauður og húrrandi sætur.


Ég var að reyna að taka einkar tignarlegt hopp í náttúrufegurðinni. Það tókst ekki. Augljóslega. Ég hef ekkert afl til þess að lyfta mér og mínum botni frá jörðu. Ekki neitt bara. 

Hlakka til að sýna ykkur hitt sem ég ferjaði með mér úr búðinni. Og vakti álíka mikla lukku á meðal fjölskyldumeðlima. Sem eru fremur ósmekkleg. Svona upp til hópa. 

Heyrumst.

Jul 16, 2015

Guðrún Veiga fer í Góða hirðinn



Ég fór í Góða hirðinn í gær. Eingöngu í þeim tilgangi að aðstoða vinkonu mína við fjársjóðsleit. 

Ég var að koma frá útlöndum. Ætla ekki að versla neitt fyrr en 2017. Í fyrsta lagi. Eða já, ég ætlaði ekki að versla neitt. Svona réttara sagt. Höfum þessi fögru fyrirheit í þátíð. Af því þau eru dauð og ómerk. Fokin út um veður og vind. 

Ég tók ekki einu sinni körfu við innganginn. Svo föst stóð ég á mínu. Ætlaði ekki að eyða krónu. Ekki einni. 


Svo fann ég mig allt í einu við bókahillurnar. Sem hafa aldrei verið eins bitastæðar. Áður en ég vissi af stóð ég með tólf bækur í fanginu. Tólf já. Körfulaus og allslaus. Með titrandi tvíhöfða. Af því ég er jú með vöðvastyrk á við hvítvoðung. 


12 bækur á rúmlega 2000 krónur. Slík kaup kallast góð kaup. Ókei, þegar ég segi rúmlega 2000 þá á ég við 2800 sirka. Sambýlismaðurinn er alltaf að tuða yfir þessu. Hvernig ég námunda allt sem ég versla niður að næsta þúsundi. 

Ef ég kaupi eitthvað á 3990 þá segi ég honum að það hafi kostað 3000 kall. Ef ég les vott af pirringi úr andlitinu á honum segi ég rúmlega 2500. Já, ég er roslega flink að námunda. 


Ég er alveg í skýjunum með þessi kaup mín. Í skýjunum segi ég. 

Jæja, ég þarf að vakna eldsnemma. Ég á flug austur á bóginn klukkan 07:30 og þarf að fara á fætur á skikkalegum tíma til þess að moka í mig róandi. Ég ætla ekki að sitja í eigin saur einhversstaðar yfir hálendinu. 

Ég hata innanlandsflug. 

Heyrumst.

Ég er á bæði Snapchat og Instagram - @gveiga85.

Jul 15, 2015

H E I M A

Jæja. Ég er komin heim. Allt í lagi, ég kom heim fyrir fimm dögum. Heilastarfsemin er bara rétt að detta úr sumarfríi. Og daglegri rauðvínsmaríneringu.  

Sambýlismaður og afkvæmi eru sólkysstir og sætir. Eins og þeir hafi eytt mörgum mánuðum í spænskumælandi landi. Ég lít út eins og ég hafi farið í laxveiðitúr. Yfir eina helgi. Þar sem var skýjað allan tímann. Og ég hafi ákveðið að éta alla laxana í ánni. Með kokteilsósu.


Já, krakkar. Ég kom sex kílóum þyngri heim. Sex. Sex já. Sambýlismaður og afkvæmi komu léttari heim en þeir fóru út. 






Ég er búin að bölva ósanngjörnu almættinu dálítið fyrir þessi kíló. Svo rúllaði ég yfir myndirnar úr ferðinni. Bað almættið auðmjúklega fyrirgefningar. Það er víst bara einn sökudólgur í stóra kílóamálinu. 

Það er ekki ég. Nei. Ég vil skella skuldinni á sambýlismanninn. Sem er með brennslu á við meðalstóran kjarnorkuofn. Síétandi. Og ég alltaf að troða í mig honum til samlætis. Ekki fyrir eigin ánægju. Nei. Honum til samlætis. Punktur. 


Þarna má sjá glitta í mig í Zöru. Strunsandi framhjá gulum kjól sem ég passaði ekki í. Dauðsé eftir að hafa ekki keypt hann. Ég hefði vel getað troðið honum í skúffuna í skápnum mínum sem merkt er ,,passa í seinna". 

Góð skúffa það. Ég hef safnað í hana síðan seint á tíunda áratugnum. Og er hvergi nærri hætt. 


Ég fann versta rauðvín í heimi. Kostaði 100 kall. Það smakkaðist eins og að kyssa tannlausan stórreykingarmann. Sem var að enda við reykja heilan pakka af Camel filterslausum. Og drekka heila kaffikönnu. Af kaffi sem búið er að standa í sex daga. 

Drakk ég það samt?

Látum það liggja á milli hluta. 



Ég eyddi öllum mínum kvöldum á bar fyrir breska eldri borgara. Spilandi pubquiz. Og bingó. Fór heim með heimilisfang hjá fimm hjónum. Sem ég lofaði að senda bókina mína. Sem ég fer alltaf að tala um á öðru glasi. 

Jæja. Ég er að fara ísrúnt. Nenni ekkert að takast á við þessi sex kíló fyrr en í haust. Eða janúar. Eða áður en ég gifti mig. 

Þið megið endilega fylgja mér á Snapchat og kasta á mig hugmyndum. Svona ef ykkur langar að sjá eitthvað sérstakt á þessu ágæta (helst til óvirka) bloggi. Þið finnið mig undir gveiga85.

Heyrumst.