Dec 19, 2015

Jólaleg lökk


Það hefur ýmislegt breyst síðan ég byrjaði að blogga í lok nóvember 2012. 

Árið 2012 var ég ekki búin að finna svo mikið sem eitt grátt hár. Núna eru þau orðin fleiri en tvö. Jafnvel þrjú. Fann meira að segja eitt í annarri augabrúninni um daginn. Og dó. Bara steindó. Plokkaði nánast af mér helvítis brúnina. 

 Árið 2012 passaði ég í uppáhalds gallabuxurnar mínar. Þær komast ekki yfir rassinn á mér í dag.  

Árið 2012 nennti ég ennþá að raka á mér lappirnar reglulega. Ehm, já. Þau líkamshár hafa verið fjarlægð tvisvar það sem af er þessu ári. Einu sinni fyrir utanlandsferð. Og nú nýlega í annað sinn af því ég þarf að sleikja sambýlismanninn svolítið upp með kynlífi þegar hann kemur í land. Af því ég er hömlulaus kaupalki. Og ég þarf að sefa hann svolítið. Svona áður en við ræðum hvað ég keypti handa mér í jólagjöf. Frá honum sko.

Árið 2012 hefði heldur aldrei hvarflað að mér að vakna fyrir klukkan 10 á laugardagsmorgni til þess að versla miða á Justin Bieber. 

Almáttugur.

Jæja. Nóg um það. Eitt hefur ekki breyst. Og breytist aldrei. 

Ég elska naglalökk. Af öllu hjarta. Sumir fara í jóga til þess að kjarna sig. Eða hugleiðslu. Ég naglalakka mig. Lakka, lakka og lakka. Er að vísu ekkert sérstaklega kjörnuð. En það er allt annar handleggur. 

Ég ferjaði með mér fáein naglalökk úr Fotiu um daginn. 

Og þegar ég segi fáein þá meina ég fjórtán. Eða átján. Já, jájá. Við leggjum misjafnan skilning í orðið fáein. 



Þetta er svo fallegt naglalakk. Svo glansandi fallegt. Og passar við allt. 

Já, ég gerði mitt besta til þess að klippa sárin á fingrunum á mér út af myndunum. Ég er krónískur kroppari eins og ég hef svo oft sagt frá. Og það er mjög ólekker. Mjög. En þó ekki nægilega ólekker til þess að ég hætti að skrapa mitt eigið skinn af höndunum á mér. Nei. 

Ég hætti sennilega ekki fyrr en daginn sem ég missi nögl eða fingur út af svæsinni sýkingu. 

En það er önnur saga. Önnur ógeðsleg saga.





Þetta er dásamlega jólalegt. Sé það vel fyrir mér við rauða jólakjólinn minn. Eða pallíettukjólinn minn. Eða fallegan svartan kjól. Sem ég á ekki til. En þyrfti nauðsynlega að eignast. Svona ef út í það er farið. 



Ég var nýbúin að skarta eldrauðu naglalakki. Og þreif það augljóslega ekki alveg nógu vel af. En ég er bara mannleg sko. Horfið á naglalakkið. Ekki naglaböndin. 




Allt í lagi. Þetta er núll jólalegt lakk. Duly noted. En það er samt flott. Og svolítið áramótlegt. Blátt og glimmerað. Og er rosalega fallegt á hendi. 

Ég er farin að tala eins og ég sé að selja demantshringi.

Jæja.





Þetta er mjög dökkt naglalakk en með flottum fjólubláum blæ. Myndirnar gera því einfaldlega ekki nógu góð skil sko. Aldrei slíku vant.


Plómublær. Geutm við ekki sagt það? 

Naglalakkið ber með sér blæ af vel þroskuðum plómum. 

Hljómar vel, ekki satt?

Já, þetta voru 107 myndir af fingrunum á mér. Njótið vel. 

Ég mæli með eins og einu nýju naglalakki fyrir jólin. Eða átján. Hver er að telja?

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


Dec 11, 2015

Meira af jólafötum


Ég lifi svolítið á brúninni með þennan jólakjól sem ég sýndi ykkur fyrr í vikunni. Það verður að segjast eins og er. Og þeir sem þekkja mig vita að ég er mjög lítið fyrir það að lifa á brúninni. Kem helst ekki nálægt henni. Ég fer að öllu með gát. Alla daga. Alltaf. Ef ég væri með odd þá væri öryggið á honum. 

Þið sem fylgið mér á Snapchat og sáuð undirbúning minn fyrir óveðrið um daginn. Ehm, já. Þið ættuð að vera búin að átta ykkur örlítið á mér. Ég tek enga óþarfa áhættu. Aldrei. Ég teipa alla glugga, versla inn vistir sem duga í marga mánuði og sef í forstofunni ef þess þarf. Ekkert kjaftæði.

Jæja. Ég ætlaði að tala um jólaföt. Já. Ég tek heldur enga áhættu með jólafötin mín. Og rauði kjóllinn minn, dásamlega fallegi rauði jólakjóllinn minn er tæpur sko. Æ, já. Svolítið tæpur. Hvað stærðina varðar. Ef ég svo mikið sem þefa af laufabrauði þá get ég hent honum í mjóu skúffuna mína. Beinustu leið. 

Þannig að ég get kysst hann bless klukkan átta á aðfangadagskvöld. Þegar ég kem til með að liggja í sófanum hjá foreldrum mínum. Í ofátsmóðu. Ropandi. Svona rjúpnaropa, þið vitið. Með rjómasósu í munnvikinu. Og sennilega fullan munn af frómas. Að blóta því að mamma mín sé búin að éta alla bleiku makkintossmolana. Af því ég get alveg étið aðeins meira. Fyrst ég er á annað borð byrjuð.

Búin að troða í mig megninu af íslenska rjúpnastofninum. Og fimm skálum af frómas. 

Þess vegna geri ég varðúðarráðstafanir. Líka svolítið af því að ég held jólin hátíðleg allan desembermánuð. Og megnið af nóvember. Svona átlega séð. Þannig að ég má prísa mig sæla ef ég fer yfir höfuð í þennan bölvaða jólakjól. 

Eins þarf ég að klæðast einhverju fallegu á jóladag. Ekki væflast ég um með hangikjötsvömb í rauða kjólnum. Nei. Ég þarf eitthvað þægilegt. En glæsilegt. Eitthvað sem ég get borðað í. Og kem til með að passa í ennþá á annan í jólum. 


Ég var að sjálfsögðu ekki lengi að finna eitthvað brjálæðislega fallegt. Sem ég varð að eignast. Aldrei slíku vant. Hóst.

Kimono frá Báru vinkonu minni Atla. Sem ætlar að sauma brúðarkjólinn minn.

Fyrir brúðkaupið sem sambýlismaðurinn er nota bene að reyna að fresta. Sökum sjómennsku já. Einmitt já. Hann auðvitað rétt ræður því. Ég gifti mig 9.júlí. Honum eða einhverjum öðrum. Í stórfenglegum kjól.

Ókei, önnur saga. Ræðum það síðar.



Ég hef verið með Báru dálítið á heilanum síðan í sumar. Þá eignaðist ég þennan kimono. Sem ég féll svona líka fyrir. Og féll eiginlega fyrir Báru í leiðinni. Þannig að það kom engin önnur til greina þegar ég fór að huga að brúðarkjól.

Kannski giftist ég bara Báru. 

Sjáum til.


Allar þessar pallíettur sko. Svo skínandi fagrar. Ó, ég elska þessa flík.




Já, ég get verið bæði kynþokkafull og dularfull í senn. Sérstaklega þegar ég er með myndavélina á self-timer. Og stend ein í stofunni. Með dregið frá öllum gluggum. Og myndavélin uppi á stól. Og ég pósandi um alla stofu. Búin að steingleyma að ég sé stödd á jarðhæð.

Ég veiti sennilega einhverjum nágrönnum mikla gleði. 


Þessi kimono hentar vel til bæði ofáts og áfengisdrykkju. Helvíti hentugur svona um jólin. 

Hann er fáanlegur í fleiri litum og ég mæli eindregið með að þið kíkið á Báru hérna. Helst núna. Af því að hún er hæfileikarík. Og frumleg.

 Smellið í eitt læk og skoðið það sem hún er að bauka. 

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

Dec 6, 2015

Jólakjóllinn í ár


Ég sagði ykkur frá því í síðustu viku hvernig ég fleygði sambýlismanninum um borð í grænlenskan frystitogara. Reykspólaði svo af bryggjunni af því ég hafði fengið veður af afslætti í Gyllta kettinum. Þar sem ég keypti þrjá kjóla. Eins og ég hef jú áður sagt frá.

Ég er búin að sýna ykkur einn kjól. Og nú er komið að því að draga kjól númer tvö upp úr pokanum. Allt í lagi, ég er alveg búin að taka kjól númer þrjú upp úr pokanum líka. Og troða honum ofan í skúffu. Mjóu skúffuna mína. Þar sem ég geymi föt sem ég ætla að passa í seinna. 

Nei. Ég passaði ekki í hann. Svo langt því frá. Bölvaða andskotans kjóldrusla. Mátaði ég hann ekki áður en ég fjárfesti? 

Nei. Svarið er nei. 

Ég var svo æst. Með stjörnur í augunum. Hraðan afsláttarhjartslátt. Þandar taugar. Mátti ekkert vera að því að týna af mér hverja einustu spjör. Rugla hárinu og eyðileggja maskarann. Allt fyrir einn kjól. Eða þrjá. Ekki að ræða það. 

Svo festi ég mig einu sinni í alltof litlum samfestingi. Í mátunarklefa. Einmitt í Gyllta kettinum. Ég hef ekki enn beðið þess bætur. Og máta helst aldrei neitt. Tek bara sjénsinn. Með mjög misjöfnum árangri. 

Jæja. Whatever. Svo lengi sem sambýlismaðurinn kemst ekki að þessu. Eða finnur þessa skúffu mína. 

Jólakjóllinn í ár er stórkostlegur. Fagurrauður og fljúgandi sætur. 

1500 krónur. Hann kostaði 1500 krónur. 





Afkvæmið var nánast með tár á hvarmi þegar hann smellti af þessum myndum. Álagið á átta ára barni. Þrífótur hefur formlega verið settur á jólagjafalistann.

Það er verst að ég er eiginlega búin að kaupa jólagjöfina frá sambýlismanninum. Já. Frá honum til mín. Og hann veit ekki af því. 

Þau kaup voru gerð af hjálpsemi og hlýhug. Af því hann er á sjó. Og ekki verslar hann jólagjafir þar. Nema hann ætli sér að gefa mér karton af sígarettum. 




Jább. Ég er húrrandi hamingjusöm með hann þennan. 

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.


Dec 3, 2015

IF reykjavík



Fyrir ekki svo löngu síðan bárust mér skemmtileg skilaboð frá ungri konu. Unga konan heitir Inga Fanney Rúnarsdóttir og hún hannar alveg ferlega falleg veski. Og þessi hæfileikaríka stúlka vildi ólm gefa mér eins og eitt veski. Alveg ólm! 

Allt í lagi, ég er að ljúga. Örlítið. Aldrei slíku vant. Skilaboðin frá Ingu bárust mér fyrir löngu. Ég er bara alltaf alveg stórkoslega lengi að gera upp hug minn. Á ég að þiggja þá hluti sem mér eru boðnir? 

Eða einfaldlega segja sama og þegið? Sem ég geri jú yfirleitt. Afskaplega kurteisislega. Af því ég er afar vel upp alin. Ég er kona sem kann sig. Svona yfirlett. 

Ég hef eina þumalputtareglu. Ég þigg ekkert sem ég myndi aldrei kaupa mér sjálf. Ég þigg ekki eitthvað sem ég myndi aldrei tíma að kaupa mér. Eitthvað sem ég hef ekki efni á. Eitthvað bara til þess að fá það gefins. Og allt þar fram eftir götunum. Þið skiljið sneiðina. 

Þetta voru fjórar þumalputtareglur. Whatever. 

Ég hef skrifað um þetta málefni áður. Og nenni ekki að skrifa um það aftur. Þannig að ég læt gamalt röfl fylgja.

Blogg eru sístækkandi auglýsingamiðill. Einfalt mál. Vel skiljanlegt að fyrirtæki séu tilbúin að láta vörur sínar í skiptum fyrir umfjöllun. Umfjöllun sem nær í mörgum tilvikum til fjölda manns.

Trúverðugleikinn liggur hins vegar hjá bloggaranum. Svona að mínu mati. Nú hef ég ekki hugmynd um hvort þið takið mig trúanlega þegar ég er að tuða um einhvern varning hérna. Sem ég hef að vísu þegið afskaplega lítið af í gegnum tíðina. Ég hef stundað þessa tegund viðskipta við örfá fyrirtæki. Allt fyrirtæki sem ég versla almennt við og þekki vörurnar frá. Og er þess vegna yfirleitt ekki að tala út um rassgatið á mér. Að ég held. 

Það hafa ýmis tilboð dúkkað upp hjá mér. Sem oft á tíðum hefur verið freistandi að þiggja. Ég hugsa að ég neiti samt í svona 95% tilvika. Nei, ókei, 90%. Um daginn var ég einmitt beðin um að mæla með einhverskonar boozti og heilsudrykkjum. Persónulega var ég alveg til í að þiggja fullan kassa af fríum morgunverð. En að blogga um boozt? Mæla með heilsudrykkjum? Sennilega svipað og að Þorgrímur Þráinsson myndi reyna að selja ykkur sígarettur. Eða Þórarinn Tyrfingsson stæði vaktina við bjórdæluna á Ölstofunni.

Ókei. Já. Æh, þetta er vandmeðfarið. Hver og einn verður að fylgja sinni sannfæringu. Já. Amen, hallelúja og allt það.

Aftur að veskinu. Gullfallega veskinu mínu. Sem ég þáði með þökkum. Aðallega af því að mér fannst það vandað og virkilega fallegt. 

Svo spilaði örlítið inn í að Inga Fanney hefur augljóslega lesið bloggið mitt lengi. Og var miður sín yfir því að geta ekki boðið mér upp á gult veski. 



Veskið sem ég valdi mér er úr leðri og rúskinni. 


Ó, allt þetta pláss. Hentar mér ákaflega vel. Af því ég ferja venjulega hálfa búslóðina með mér út úr húsi. Ég flandraði um með veskið á jólahlaðborði um daginn. Ég kom síma, snyrtidóti og lyklum auðveldlega fyrir í því. Og auðvitað þykku seðlabúnti. 

Djók.

Á einhverjum tímapunkti reyndi ég að vísu að troða Amarulaflösku ofan í blessaða budduna. Það gekk ekki. Sem var dálítið svekkelsi fyrir konu á glasi númer 37. Konu sem tímdi ekki að kaupa meira á barnum. Og ætlaði að svolgra í sig drykk númer 38 og 39 inni á almenningssalerni. 

Já, það er önnur saga.




Ég mæli með IF reykjavík í jólapakkann. Eða bara í innkaupapokann í næstu Kringluferð. Það má líka alveg gefa sjálfri sér jólagjöf. Ég geri það árlega. Að vísu verða þær stundum fleiri en ein. Sambýlismanninum til mikilla ama. 

Veskin fást í Kastaníu í Kringlunni og víðar. Það eru líka til fleiri týpur en þetta hér að ofan. 

Smellið einu læk á IF reykjavík á Facebook og skoðið úrvalið. Af því ég bið ykkur svo fallega. 

Jæja. Ég er að hugsa um að fá mér víntár. Ég er nefnilega búin að vera í lífshættu síðan í gærkvöldi. Að mínu eigin mjög brenglaða mati. Meira um það á Snapchat síðar.

Þið finnið mig á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.